Laugardagur 24.07.2010 - 09:59 - 26 ummæli

Fölsk lífskjör og fyrirheit

Þorsteinn Pálsson skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið í dag um fölsk lífskjör og fyrirheit.  AGS hefur varið landið fyrir hrikalegu lífskjarafalli og er það vel, en hvað tekur við þegar hendi AGS sleppir?
Þorsteinn veltir þessari spurningu fyrir sér og kemst að þeirri niðurstöðu að enn er fátt um skýr svör frá stjórnmálaflokkunum.

Eins og ég hef margoft skrifað um þurfa flokkarnir að fara að útskýra stefnu sína í efnahagsmálum án hjálpar AGS.  Hinar 3 stóru spurningar sem þarf að svara eru:

1. Hvernig á að opna fyrir erlenda fjármálamarkaði?  Án erlends fjármagns verður hér stöðnun í atvinnulífinu.  Við þurfum erlent fjármagn til að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum.  Annars mun næsta kynslóð í auknu mæli flytjast úr landi.  Þó Grikkland sé í erfiðum málum geta þeir enn fjármagnað sig þó kostnaðurinn sé hár. Þetta leiðir okkur að að næstu spurningu?

2. Hvernig á að bæta lánstraust Íslands?   Það er ekki nóg að hafa aðgang að erlendu fjármagni það þarf að vera á viðráðanlegu verði.  Enginn veit hvert markaðsverðið er á lánum til Íslands?  Ef lánin eru of dýr fækkar fjárfestingarmöguleikunum og dregur úr líkum á raunlaunahækkunum handa almenningi.  Of dýr lán auka líkurnar á að Íslandi verði „láglaunaland“ í Evrópu sem mun ýta undir landflótta á hæfu ungu fólki.  Yfir lengri tíma gæti þetta haft verulegar afleiðingar á samfélagsmynstur þjóðarinnar.  Þá er hár fjármagnskostnaður dragbítur á velferðakerfið.  Ekki er nóg að líta á skuldabyrgði þjóðarinnar sem hluthall af landsframleiðslu, betra er að skoða vaxtabyrgði ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu.  Japanska ríkið er skuldugra en hið íslenska en mun ódýrara er fyrir Japani að fjármagna þennan skuldabagga þar sem lánstraust þeirra er betra.  Að lokum ræður lánstraustið miklu um endurfjármögnunarmöguleika fyrirtækja og kostnað við slíkt.  Ef ekki tekst að bæta lánstraustið mun endurfjármögnun hjá t.d. OR og LV éta upp hagnað og/eða nýja fjárfestingarmöguleika.

3. Hver er framtíðargjaldmiðill landsins?  Í dag veit enginn hvert er hið „rétta“ markaðsverð krónunnar.  Henni er haldið „uppi“ með höftum og handstýringu.  Þetta er hins vegar ekki trúverðug framtíðarstefna því til að halda gjaldmiðlum föstum þarf gríðarlegan gjaldeyrisvarasjóð sem við eigum ekki.  Þá er erfitt að sjá hvernig hægt verður að opna fjármálamarkaði og hækka lánstraustið nema með eðlilega skráðan gjaldmiðil? 

Það er því margt sem bendir til að þegar hendi AGS sleppi þurfi hressilega gengisfellingu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (26)

  • Ekki hugsa sjálfstætt, ekki pæla í hlutunum, trúðu öllu sem þér er sagt, haltu þið við „viðurkenndar“ skoðanir á hlutunum. Umfram allt ekki nota heilann í þér, maður!

    http://vald.org/greinar/100503.html

  • Þú hljómar eins og róni sem er að drekka sig úr alkóhólismanum!

    Shit, við skuldum fullt af pening! Best að taka meiri lán!!

    Hálfvitar.

  • Andri Geir mig langar að vera ósammála þér en get það ekki. Við stöndum uppi með gagnslausan gjaldmiðil sem er rangt skráður.

  • Einar Jónsson

    Besta lausnin við ofangreindum spurningum er aðild að ESB og upptaka Evru, að því gefnu að hagstæðir samningar náist um sjávarútvegsmál. Samhliða þarf að sjálfsögðu að koma böndum á efnahagsstjórn landsins, s.s. halla ríkissjóðs og sveitarfélaga.

    Ónýtur gjaldmiðill er versta mein þjóðarinnar í efnahagsmálum. Með aðild að ESB færi Ísland strax í ERM II gjaldmiðlasamstarf við ESB með bakstuðningi Evrópska seðlabankans. Hafi gjaldeyrishöftin ekki verið afnumin með stuðningi AGS mun það örugglega gerast með stuðningi ECB án þess að efnahagur landsins taki bakföll. Lánstraust landsins mun batna allverulega og aðgangur að erlendu fjárfestingafé og lánsfé mun einfaldlega verða eðlilegur mjög fljótt.

    Þeirri skoðun vex fylgi að Ísland eigi að segja sig úr EES samstarfinu og taka upp tvíhliða samninga við allar þjóðir. Þessi skoðun er barnaleg og ber vott um stórmennskubrjálæði enda fráleitt að litla Ísland nái viðunandi samningum á slíkum grunni. Efnahagsleg fórn við að taka upp einangrunarstefnu í viðskiptum og halda úti eigin gjaldmiðli er mjög mikil.

    Það er kominn tími til að viðurkenna að Ísland á heima í ESB sem sjálfstæð fullvalda þjóð meðal þjóða.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Misskilningurinn í þessari grein er sá að krónan á ekki að vera á frjálsum markaði. Andri segir að engin viti hvað gengið á krónunni eigi að vera.

    Því er í raun auðsvarað. gengið á krónunni er rétt skráð þegar viðskiptajöfnuðurinn er núll.

    Fyrstu fimm mánuði ársins er vöruskiptajöfnuðurinn 60 milljarðar í plús. Það segir okkur að krónan er of veik og ætti að vera sterkari. Hinsvegar er verið að greiða háa vexti af lánum og því er viðskiptajöfnuðurinn í járnum.

    Það er nauðsynlegt að hafa krónuna veika enn um sinn meðan verið er að greiða erlend lán. Eftir að búið er að greiða niður lánin eru allar forsendur fyrir því að krónan muni styrkjast.

    Ef krónan fellur eins mikið og Andri spáir þegar AGS fer héðan þá mun vöruskiptajöfnuðurinn einfaldlega aukast verulega og það mun taka skemmri tíma að greiða erlendar skuldir. Ég hef ekki mikla trú á því að krónan falli mikið enda á hún ekki að vera á frjálsum markaði.

    Við eigum að stjórna efnahagsmálum hér með það í huga að viðskiptajöfnuðurinn sé núll eða regla kerfið í kringum þann púnkt eftir að búið er að greiða niður erlendar skuldir.

    Það sem við þurfum að einbeita okkur að núna er að greiða niður erlendar skuldir en ekki stofna til nýrra.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Þórhallur,
    Það er allra virðingar vert að borga niður skuldir en heldur þú að næsta kynslóð sé tilbúin að taka á sig þær lífskjarskerðinu sem það þýðir? Á hún ekki rétt á að skapa sér sín eigin tækifæri og fá til þess fjármagn?

    Ef krónan á ekki að vera á frjálsum markaði hvar á hún þá að vera og hver á að ákvarða hennar gengi?

    Það er rétt að því lægri sem króana er því fyrr borgum við upp erlendar skuldir því enginn hefur efni á að fara til útlanda eða kaupa innflutta vöru.

    Þetta gengur aðeins upp ef ekki verður landsflótti og að fólk sætti sig við lægri kjör og velferð en á hinum Norðurlöndunum.

    Að vera með Noreg eitt ríkasta land heims sem næsta nágranna gæti sett strik í reikninginn, sérstaklega hvað varðar næstu kynslóðir.

    Það verður framtíð í norsku námskeiðum á Íslandi!

  • Þórhallur Kristjánsson

    Andri,
    Það sem á að ákveða gengið á krónunni er viðskiptajöfnuðurinn. Það er hægt að skoða viðskiptajöfnuðinn á mánaðartímabili eða milli nokkurra mánuða og þá þarf að stilla krónuna af.

    Þetta þarf að gera þegar jafnvægi er komið á erlendar skuldir. Þannig er krónan alltaf rétt skráð og efnahagslífið í jafnvægi.

    Að hafa krónuna of sterka sem orsakar neikvæðan viðskiptajöfnuð heitir á venjulegu máli að eyða meiru heldur en verið er að afla. Að hafa krónuna of veika og safna upp gjaldeyri heitir að leggja til hliðar.

    Ef Seðlabanki og stjórnvöld hefðu farið eftir þessu árin fyrir hrun hefði ekkert hrun verið hér. Viðskiptajöfnuðurinn var neikvæður um hundruð milljarða árin fyrir hrun. Hvað var það að segja okkur. Verið var að eyða meiru heldur en hægt var að afla.

    Þeir sem áttu að horfa á mælanna voru sofandi og gerðu ekkert. Þetta er svipað og að horfa á hitamæli í bíl vera kominn á rautt án þess að stoppa bílinn og kæla hann niður. Afleiðingin verður sú að vélin gefur sig.

    Til þess að það gangi að stjórna eftir þessari aðferð þurfa stjórnvöld að beita miklum aga með tollum sköttum og öðrum tólum sem þeu hafa. Fyrir hrun var einungis verið að beita vöxtum sem er glórulaus stjórnun.

    það má aldrei eyða meiru heldur en hægt er að afla allaveganna ekki til lengri tíma. Svo einfalt er nú það.

  • Auðvitað eigum við að ganga í ESB og ná þannig að halda lífskjörum okkar skikkanlegum. Að halda öðru fram er bæði barnalegt og kjánalegt.

    Noregur heilar og hann varð heimaland sonar míns, tengdadóttur og þriggja barnabarna nú á fimtudaginn 22. júlí. Sonurinn hefur unnið í Noregi í tæpt ár hjá Ístak, hjá norsku fyrirtæki síðan í júní og nú er fjölskyldan saman á ný.

    Landflóttinn er þegar hafinn og hann mun aukast, jafnvel þó ESB aðild sé handan við hornið. Fólk hugsar um framtíð barnanna sinna, vill örugg og góð lífskjör og svo er mjög notalegt að komast úr öllum æsingnum hér.

  • Andri Haraldsson

    Ég held að vandamálið sé miklu stærra en jafnvel Andri Geir segir í svari sínu til Þórhalls. Er ég þó alls ekki svartsýnn á stöðu Íslands, ef vel væri spilað úr því sem landið hefur á hendi.

    Hugmyndir Þórhalls, og margra Íslendinga um hvernig skuli bregðast við ástandinu eru svo vondar að leitun væri að. Það er góðra gjalda vert að vera sparsöm þjóð sem nurlar saman fyrir fjárfestingum áður en lagt er út í verkefni. Lífskjörin væru vissulega ekki góð á Íslandi ef það hefði verið gert síðustu áratugina, því það væri hvorki jafn öflugur fiskiskipafloti, né virkjanir, né hitaveita, né heilbrigðiskerfi, né samgöngukerfi. Allt hefur þetta verið byggt upp með því að taka að láni fé til að byggja upp þjóðfélagið. Í dag er óraunhæft að ætla að vinda ofan af 60 ára fjárfestingartímabili með því að borga upp skuldir þjóðélagsins á skömmum tíma, nema með því að færa lífskjör aftur til þess tíma þegar ég var barn á sjöunda áratugnum. Þar sem þau lífskjör eru á pari við vanþróuð lönd, og langt fyrir neðan öll lönd innan Evrópu (jafnvel Albanía er komin fram úr Íslandi fyrir 40 árum), þá er óskiljanlegt af hverju innganga í ESB væri verri fyrir þjóðina. Sérstaklega þar sem stór hluti þjóðarinnar myndi ganga í ESB með því einu að flytja þangað.

    Í skammtímanum myndu fyrirtæki í alþjóðlegum viðskiptum sem eru með lítla sölu á íslenskum markaði munu flytjast í burtu (Marel, Actavís, Össur, etc.) ef stefnir í langtíma handstýringu á gengismálum.

    Eins má ætla að nýmenntað fólk myndi ekki skila sér til Íslands og að landið yrði fyrir heilaflótta sem myndi bókstaflega eyðileggja það á 10-15 árum. Það ætti engin að vanmeta áhrif þess að þjóðfélagssáttin hefur verið rofin á Íslandi og innbyggða loforðið um áhyggjulitla en þokkalega ábatasama starfsævi er ekki lengur til staðar. Það má því ætla að miklu hærra hlutfall þeirra sem nú eru í námi muni leita eftir því að setjast að í námslandinu til frambúðar (rúmlega tvö þúsund manns eru í námi erlendis alla jafna hvert ár). Eins er líklegt að fleiri leiti eftir námi á norðurlöndunum (raunar stórundarlegt ef ekki hefur verið kannað hvort að fleiri séu að sækja um skóla utan Íslands).

    Vandamálið sem Ísland stendur frammi fyrir í dag er lífspursmál fyrir þjóðina. Allt tal um sjálfstæði er bara sjálfsblekking svipuð og Halldór Laxness lýsti ágætlega í Sjálfstæðu Fólki. Það er engin þjóð eyland í samfélagi þjóðanna. Síst af öllu herlaus verstöð sunnan við Dumbshaf.

  • Björn Kristinsson

    Staðan er þessi:

    1) Vaxtaberandi skuldir íslenska ríkisins eru um 120% af landsframleiðslu

    2) Ef nafnvextir af lánum ríkissjóðs eru hærri en hagvöxtur þá eykst skuldastaða ríkisins. Þannig að ef vextir af lánum ríkisins verða um 3% þá þurfum við a.m.k. 3% hagvöxt ef ríkið á að geta rétt af sinn hlut !

    3) Þegar Færeyjar, Svíþjóð og Danmörk lentu í skuldakreppu á sínum tíma þá tók það þessar þjóðir um 15 ár að ná fyrra lága skuldahlutfalli. Finnum hefur ekki enn tekist það. Það má gera ráð fyrir því að það muni taka okkur a.m.k. 20 ár að ná fyrra skuldahlutfalli sem var á milli 20% og 30% af landsframleiðslu.

    4) Upptaka annars gjaldmiðils á þessum tímapunkti er á engan hátt æskileg. Við verðum að finna raunvirði krónunnar. Mun raunsærra að fá stuðning við IKR á meðan skuldastaðan er löguð. Við verðum því með „EUR-krónu“ næstu árin ef menn vilja ESB eða eitthvað annað „XXX-krónu“ horfi menn annað.

    5) Á meðan við höfum ekki jákvæðan viðskiptajöfnuð þá hefur krónan ekki fundið sitt gólf. Það finnst þegar skuldirnar minnka. Þess vegna mun gengi IKR verða á svipuðu róli næstu árin, jafnvel áratugina. Nafngengið mun þannig verða óbreytt en raungengið hækka með verðbólgu. Ef við gefum okkur að verðbólgan verði 2-3% næstu árin þá mun það taka um 10 fyrir raungengið á ná gildi 90 sem er sennilega nálægt réttu gildi.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Andri Haraldsson

    Það þarf að skilja á milli erlend lán sem tekin eru til þess að búa til atvinnutækifæri sem gefa erlendar tekjur á móti fjárfestingunni og erlend lán sem gefa engar tekjur á móti.

    Sveitafélög og einstaklingar gátu tekið erlend lán að vild að því virðist fyrir hrun. Þessi lán voru ekki notuð í að búa til gjaldeyrisskapandi framleiðslu heldur fóru beint í neyslu.

    Auðvitað er í lagi að fá inn í landið erlenda fjárfestingu en hún verður að geta greitt sjálf til baka þau gjaldeyrislán sem hún er hugsuð í.

    Ef menn skilja ekki að við getum ekki eytt meiru heldur en aflað þá er ekki von á góðu. Útflutningstekjur íslendinga eru mjög góðar enda er vöruskiptajöfnuðurinn langt fyrir 100 milljarðar á ári þegar gengið er eins veikt og það er í dag.

    Einnig er líklegt að þjónustujöfnuðurinn sé jákvæður en þáttatekjurnar eru neikvæðar vegna hárra vaxtagreiðslna.

    Ísland hefur því öll framleiðslutæki til þess að skapa íbúum landsins góð lífskjör en þau geta ekki verið meiri heldur en undirliggjandi framleiðsluþættir ráða við.

    Sumir virðast halda að besta leiðin í dag sé að fá sem mest af lánum til þess að halda uppi fölskum lífsgæðum. Þetta er það sama og Grikkir gerðu og eru þeir með evru. Það skiptir ekki máli hver gjaldeyririnn er reglan um að ekki megi eyða meiru heldur en hægt er afla gildir alltaf.

    Sumir virðast hinsvegar ekki skilja þessa einföldu staðreynd.

  • Einar Jónsson

    Það er einhver misskilningur að íslensk stjórnvöld geti stýrt gengi íslensku krónunnar, nema öflugum gjaldeyrishöftum sé viðhaldið og viðskipti með gjaldmiðilinn séu almennt bönnuð en þó einungis leyfð í undantekningartilfellum, eins og staðan er nú. Áframhaldandi gjaldeyrishöft munu draga verulega úr getu hagkerfisins til að skapa hagvöxt á næstu árum.

    Það standa einungis tvær meginleiðir til boða í gengismálum: a) fast gengi, og b) fljótandi gengi. Íslendingar af reynt hvoru tveggja með afar slæmum árangri. Tilraunin með fljótandi gengi og aðhaldi seðlabanka með stýrivöxtum endaði nýlega með skelfingu og algeru hruni gjaldmiðilsins. Fastgengisstefna fyrri ára endaði með verulegu innra ójafnvægi hagkerfisins, tíðum gengisfellingum, óðaverðbólgu og tjóni í hag heimila og fyrirtækja. Gallinn var sá að stjórnvöld réðu sjálf gengisskráningunni og vissu að hægt var að leiðrétta síendurtekin mistök í stjórn efnahagsmála með stórfelldum gengisfellingum, kjaraskerðingu og verðbólgu. Ekkert bendir til að stjórnvöld nú séu hæfari en áður.

    Ef tekin væri upp fastgengisstefna með því að gefa íslensku krónuna upp á bátinn og t.d. taka upp Evru, kæmi upp ný staða. Stjórnvöld gætu ekki lengur leiðrétt eigin mistök með gengisfellingum og yrðu að aðlaga sig að þeirri staðreynd. Áður óþekktur stöðugleiki myndi skapast, vantrú á gjaldmiðlinum væri ekki lengur vandamál, erlend fjárfesting og fjármagnsflutningar yrðu mun virkari og liprari og efnahagslegar forsendur fyrirtækja og heimila yrðu einfaldlega miklu betri en áður hafa þekkst hérlendis.

  • Andri Haraldsson
    Þú lýsir ástandinu og horfunum hér á mjög sláandi máta og það er mjög gott. Þú ert að mínu mati að tala um hið raunverulega áastand og um þær raunverulegu horfur sem við blasa ef ekki er brugðist við og leitað samstarfs við ESB.

    Ég gef lítið fyrir einhverja útreikninga áratugi fram í tímann eins og Björn Kristinsson er með og Þórhalli Kristjánssyni vísa ég algjörlega á bug með sína óra.

    Fólk er að flýjalandið og ekki að ástæðulausu. Hér er hvar höndin upp á móti annarri. Fen fortíðarinnar stækkar eftir því sem lengra líður og fólk vill konast á fást land, þar sem einhver plön eru í gangi og eru virt.

  • Andri Haraldsson
    Þú lýsir ástandinu og horfunum hér á mjög sláandi máta og það er mjög gott. Þú ert að mínu mati að tala um hið raunverulega áastand og um þær raunverulegu horfur sem við blasa ef ekki er brugðist við og leitað samstarfs við ESB.
    (Þessi viðbót átti að koma hér fyrir neðan)

    Það er að mínu áliti okkar eina von að ríkisstjórnin er nú þegar komin vel áleiðis með það mál, sem verður að klára.

  • Andri Haraldsson

    Þórhallur-
    Gengi gjaldmiðils á opnum markaði ræðst ekki af viðskiptajöfnuði hvers tíma, heldur mati á heildarskuldum þjóðfélagsins og langtíma getu þjóðfélagsins til að standa undir þeim skuldum. Á lokuðum gjaldeyrismarkaði getur útgefandi gjaldmiðils sett hvaða verð sem er fyrir gjaldeyrinn, en það breytir því ekki að ef það verð víkur frá opnu markaðsverði þá mun þrýstingur að utan á endanum brjótast inn í efnahagskerfið. Ef verðið er of lágt mun umframeftirspurn innanlands stuðla að skömmtunarkerfi sem hefur sýnt sig að er ekki hagkvæmt, auk þess sem gjaldeyrisbrask myndast. Ef verðið er of hátt þá munu fyrirtæki og einstaklingar taka föggur sínar þar sem í raun er verið að ræna það.

    Það er því einfaldlega rangt hjá þér að Íslendingar geti upp á sitt einsdæmi handstýrt genginu án tillits til mats markaða á þessum tveimur stærðum. Það er löngu samþykkt sem staðreynd að lítið opið markaðshagkerfi með sína eigin mynt getur ekki haft lokað gjaldeyriskerfi. Ef þetta verður reynt, þá munu lánakjör erlendis versna og þar með fjármagnskostnaður á núverandi lánum.

    Það er einnig einfaldlega rangt hjá þér að Andri Geir eða flestir aðrir sem um þetta hafa rætt séu að mæla fyrir því að taka ný lán umfram þær skuldbindingar sem ríkið hefur þegar tekist á hendur. Langstærsti hluti lána ríkisins frá AGS og norðurlöndunum var notaður til að mynda varagjaldeyrissjóð og borga fyrir gjaldþrot Seðlabankans. Þessi lán er hægt að endurgreiða um leið og krónan er lögð af, enda þá engin ástæða lengur fyrir gjaldeyrisvaraforða. En önnur lán sem koma á gjalddaga næstu árin þarf að endurfjármagna og við sem bestum kjörum.

    Við erum sammála að Íslendngar þurfa að læra að lifa ekki um efni fram. En það er ekki skynsamlegt að fjármagna ekki skuldir sínar með sem hagkvæmustum hætti. Og það er ekki skynsamlegt að gefa íslenskum embættis og stjórnmálamönnum tækifæri til að leika sér með krónuna og prenta sífellt peninga, og rýra þar með lífskjörin í landinu.

  • Þær eru margar útgáfurnar af „would please someone think of the children“

    Þessi gengur út á það að ef við göngum ekki í ESB, þá geta börnin okkar ekki fengið lán.

    Jamm, þegar búið er að hafna rökunum (sem gjarnan eru léttvæg) þá er reynt við tilfinningarnar.

    Hér er önnur útgáfa af þessu:
    Ef við göngum í ESB, þá erum við að færa arfinn sem börnin eiga að fá, í hendurnar á evrópskum stórfyrirtækjum.
    Viljum við að börnin standi í flæðarmálinu, með sultardropa í nefinu, horfandi á spænsk ryksuguskip moka upp aflanum sem átti með réttu að vera þeirra?

    Kannski að Andri Geir sé búinn að finna svarið við framfærslu barnanna okkar. Þau taka bara lán fyrir lífinu.

  • Björn Kristinsson

    Hólmfríður, þessar tölur er að finna í skýrslu hagfræðideildar Háskóla Íslands og birtist í apríl 2009.

    Framangreindar tölur eru beint úr þeirr skýrslu þannig að það verður víst að eiga við skýrsluhöfunda ef tölurnar eru ekki í samræmi við væntingar.

    Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, hefur einnig lýst svipaðri sviðsmynd að gefur í þessari skýrslu.

    Læt hér fylgja með krækju á skýrsluna til fróðleiks.

    http://www.hi.is/files/skjol/felagsvisindasvid/Skuldasta__a___slenska_r__kisins.pdf

    http://www.hi.is/files/skjol/felagsvisindasvid/Fyrirlesturinn.pdf

  • Mig langar að leiðrétta mjög meinlegan misskilning sem kemur fram í athugasemd hér ofar. Nánar tiltekið; „Með aðild að ESB færi Ísland strax í ERM II gjaldmiðlasamstarf við ESB með bakstuðningi Evrópska seðlabankans“

    ERM II er ekki stoðkerfi fyrir veika gjaldmiðla. Það er lokapróf hagkerfa sem hyggjast taka upp evru. Í ERM II ferlinu sýnir og sannar viðkomandi aðildarríki að efnahagur þess sé stöðugur á tilteknu gengisbili á móti evrunni. Seðlabanki viðkomandi aðildarríkis ber hita og þunga af því að halda genginu á réttu róli og helst án inngripa. Aðkoma evrópska seðlabankans snýst um að vera þrautavara-lánveitandi fyrir aðildarríkið í því skyni að fæla frá stórtæka gjaldeyrisbraskara með nærveru sinni. Allt að sjálfsögðu á kostnað viðkomandi aðildarríkis.

    Að hugsa sér að ísland detti inn í þetta kerfi er jafn sennilegt og að stúdent sem innritast í háskóla byrji á lokaprófinu áður en námið hefst. Hér skal ekki útilokað að einhverskonar gengisstuðningur sé tæknilega mögulegur af hálfu evrópska seðlabankans en öruggt mál er að ERM II er ekki verkfærið sem verður notað til þess. Einungis á Íslandi væri hægt að ræða ERM II sem einhverskonar stuðningsapparat fyrir ríki í gjaldeyriskrísu og þykjast marktækur í umræðu.

  • Björn Kristinsson

    Varðandi fyrri færslu bendi ég á ágæta samantekt frá hagfræðideild Háskóla Íslands. Meðfylgjandi er krækja á skýrslu sem birtist í apríl 2009:

    http://www.hi.is/files/skjol/felagsvisindasvid/Skuldasta__a___slenska_r__kisins.pdf

    Það er hins vegar mjög mikilvægur punktur sem Andri Haralds kemur inn á og það er að þjóðfélagssáttin hefur verið rofin, eða samfélagssáttmálinn. Það er því mikilvægt að horfast í augu við þetta óháð því hvaða skoðun menn hafa á inngöngu í ESB.

    Ég tel að framhald og tilvist okkar muni frekar ráðast af því hvort okkur beri gæfu til að endurreisa þá þjófélagssátt sem var rofin. Sé það vilji þjóðarinn að ganga í ESB þá er mjög mikilvægt að undanfari þess sé að búið að endurreisa samfélagssáttmálann sem við getum öll sannmælst um, annars nær aðeild Íslands að ESB ekki þeim væntingum sem vænst er.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Andri Haraldsson

    Andri skrifar

    „Á lokuðum gjaldeyrismarkaði getur útgefandi gjaldmiðils sett hvaða verð sem er fyrir gjaldeyrinn, en það breytir því ekki að ef það verð víkur frá opnu markaðsverði þá mun þrýstingur að utan á endanum brjótast inn í efnahagskerfið“

    Ég er ekki að segja að útgefandi gjaldmiðils eigi að ákveða verð á gjaldmiðlinum heldur á verðið að ákvarðast miðað við að viðskiptajöfnuðurinn sé núll þegar búið er að grinnka á erlendum skuldum.

    „Það er löngu samþykkt sem staðreynd að lítið opið markaðshagkerfi með sína eigin mynt getur ekki haft lokað gjaldeyriskerfi. Ef þetta verður reynt, þá munu lánakjör erlendis versna og þar með fjármagnskostnaður á núverandi lánum“

    Hver samþykti þessa staðreynd ?

    „Langstærsti hluti lána ríkisins frá AGS og norðurlöndunum var notaður til að mynda varagjaldeyrissjóð og borga fyrir gjaldþrot Seðlabankans. Þessi lán er hægt að endurgreiða um leið og krónan er lögð af, enda þá engin ástæða lengur fyrir gjaldeyrisvaraforða. En önnur lán sem koma á gjalddaga næstu árin þarf að endurfjármagna og við sem bestum kjörum“

    Eftir því sem ég best veit þá er gjaldþrot Seðlabankans fjármagnað með ísl. krónum en ekki gjaldeyri.

    Við erum að greiða niður erlend lán með viðskiptaafgangi. Þegar lánin lækka í rólegheitunum er hægt að styrkja krónuna smá saman. Enda er það akkurat það sem Seðlabankinn er að gera. Krónan hefur verið að styrkjast en það gerist rólega. Þegar erlendar skuldir ríkissins lækka bjóðast betri kjör á erlendum lánum.

    Það er einfaldlega ekki rétt að ekki sé hægt að hafa innlendan gjaldmiðil og að við þurfum evru til þess að ná aftur upp efnahagslífinu.

    Tek það fram að eg hef ekki tekið afstöðu til ESB aðildar ætla að gera það eftir að hafa séð samninginn.

  • Björn Kristinsson

    Annars er ég algjörlega sammála þér Andri í innleggi þínu. Efnahagsleg framtíð okkar veltur mjög á gjaldmiðlamálunum.

    Til skemmri tíma höfuð við AGS lánin sem eru nauðsynleg ef endurfjármögnun OR og LV verður óviðunandi. Þau lán eru á þolanlegum vöxtum eða um 2% ?

    En staðan í gjaldeyrismálum okkar er samt nokkuð flókin og upptaka annars gjaldmiðils ekki eins einföld og virðist vera við fyrstu sýn hver svo sem hann yrði.

    Ástæðan ? Jú hvert er virðið á IKR og hver á uppitökukrossinn að vera ? Við getum ekki skoðað aðeins PPP gildi og raungengi IKR, því skuldir ríkisins hafa aldrei verið í sögunni eins hára sem hlutfall af landsframleiðslu.

    Við þurfum lægri fjármagnskostnað bæði hjá OR og LV en einnig sveitarfélögum sem tóku erlend lán. Fjármagnskostnaður í IKR verður einnig að lækka.

    Aðeins að spurningunum þínum þrem:

    1) Traust og stöðugleiki.

    Lykilatriðið – stöðugleiki í stjórnmálum, skýr framtíðarsýn í lykilmálaflokkum eins og nýtingu auðlinda, atvinnumálum, heilbrigðis og menntamálum. Ekkert af þessu er til staðar á Íslandi. Þótt við hefðum ágætan gjaldmiðil þá dygði það ekki til. Baklandið vantar !

    2) Lánstraustið batnar þegar til staðar er skýr stefna í fjárfestingarmálum bæði fyrir innlenda sem og erlenda fjárfesta. Á meðan óeining er til staðar um þessi mál myndast ekkert traust. Held reyndar að hér gætum við stígið varfærið skref og tekið þá leið sem þú Andri lagðir til fyrir nokkru að fá norska olíusjóðinn til að fjárfesta hér í endurnýjanlegri orku. Þannig tel ég nokkuð miklar líkur á því að Íslendingar yrðu sáttari ef norski olíusjóðurinn myndi eignast HS Orku. Þetta gæti verið fyrsta leiðin til að senda góð skilaboð út á við.

    3) Hér er mjög erfitt að segja Andri. Ef við leitum til ESB þá verður það EUR annars annað XXX ef landið snýr sér í aðra átt. Það eru svo mörg önnur brýn mál sem við þurfum að laga hér Andri, atriði sem rista dýpra eins ég kom að í fyrri færslu.

  • Björn Kristinsson

    Varðandi fyrri færslu og HS orku vil ég leggja áherslu á að auðlindin per se verður ætíð að vera í íslenskri eigu og nýtingarrétturinn má ekki verða lengur en 20-30 ár. Við eigum að horfa til Norðmanna hvernig þeir skattleggja sinn nýtingarrétt á olíuvinnslu – háir skattar, mjög háir.

  • Andri Haraldsson

    Þórhallur-

    Vandamálið við hvers konar lokað gjaldeyriskerfi er að utanaðkomandi aðilar treysta ekki kerfinu og setja því hátt áhættuálag til lána innan þess. Þetta gerir það að verkum að dregur úr fjárfestingu, og að kostnaður við fjármögnun er velt út í hagkerfið.

    Það hefur verið fjallað um þetta á mörgum stöðum. Hérna eru tværi tæknilegar greinar sem koma inná þetta, þó þær fjalli að mestu um aðeins öðruvísi aðferðarfræði en þú leggur til.

    http://www.nber.org/~wbuiter/access.pdf
    http://www.imf.org/external/pubs/ft/wp/2004/wp04180.pdf

    Það er því miður vandamálið að Ísland sem land hefur ekki sýnt innri styrk til að fylgja eftir því sem kemur fram í þessum greinum.

    Varðandi Seðlabankann þó er hann rekinn í krónum. Gjaldeyrisvaraforði þjóðarinn sem stendur að baki útgefnum krónum, og samsvarandi skuldbindingum í erlendum myntum þurrkaðist nær upp í hruninu. Íslenska ríkið tók lán fyrir nýjum gjaldeyrisvaraforða sem er í vörslu Seðlabankans. Sú bókhaldsfærsla sem varð milli ríkisins og bankans er í krónum, en eftir stendur að tæknilegt gjaldþrot bankans, og nauðsyn þess að taka gjaldeyrisforða að láni, er hin hlið sama penings.

    Í lokin segir þú að það sé ekki rétt að það þurfi annan gjaldmiðil til að ná upp efnahagslífinu. Kostnaðurinn af krónunni er meiriháttar renta sem íslenska þjóðin er að borga erlendum fjárfestum fyrir það að leyfa stjórnmálamönnum sínum að prenta peninga til að standa undir óarðbærum opinberum fjárfestingum. Eins og staðan er núna þá gerir hún þjóðinni erfiðara fyrir en ella. Það getur verið að ESB aðild í heild henti ekki þjóðinni. En ástæðan fyrir að hafna ESB ætti aldrei að vera íslenska krónan. Hún hefur ekki reynst vel og nýtur einskis traust innan lands sem utan.

  • Uni Gíslason

    Er herskylda í ESB?

    Nei.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Palli,
    Hvers vegna í ósköpunum skrifar þú ekki undir fullu nafni. Orðbragð þitt er fyrir neðan allar hellur. Ég er ekki hrifinn af því að ritskoða mína síðu og banna fólk en ég verð að virða velsæmismörk.

    Það er í besta lagi að þú hafir aðrar skoðanir en ég, en ég bið þig vinsamlegast að skrifa á málefnalegum grunni og vanda þitt orðaval.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Því miður hef ég orðið að loka fyrir Palla, þar sem hann eða hún vill ekki virða almenna kurteisi í orðavali

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur