Mánudagur 23.08.2010 - 16:19 - 14 ummæli

Landið rís, en hvað svo?

Fjármálaráðherra skrifar grein í dag í Fréttablaðið sem hann nefnir, Landið tekur að rísa.  Þar fer hann yfir það sem vel hefur tekist hjá ríkisstjórninni.  Það er rétt hjá Steingrími að virða ber það sem vel hefur tekist og vissulega hefur prógramm AGS og ríkisstjórnarinnar tekist vonum framar og er það vel.  Hins vegar er mikið eftir, eins og hann segir, án þess að hann tilgreini hvað það er.  Hér lofar Steingrímur fortíðina og nútíðina en dregur ekki nóga skýra mynd upp af framtíðinni.

Það sem vekur kannski mesta athygli í grein fjármálaráðherra er það sem hann minnist ekkert á – fjármögnun og lánstraust ríkisins.  Allt stefnir í að vaxtagjöld verði stærsti póstur í ríkisútgjöldum í framtíðinni og því mun aðgangur að fjármagni og lánstraust skipta miklu máli sérstaklega þegar AGS fer af landi brott.  Svo er það spurningin um framtíðargjaldmiðilinn og höftin sem heldur er ekkert minnst á.

Hér er Steingrímur auðvita í vanda því ríkisstjórnin virðist ekki samstíga hvað varðar mikilvæg atriði í framtíðarsýn landsins.  Samfylkingin telur að ESB aðild sé eðlilegt og nauðsynlegt framhald af AGS prógramminu, þannig verði öruggast og best haldið áfram á þeirri leið sem nú er mörkuð.  VG eru hins vegar tvístígandi og þá sérstaklega hin svo kallaða órólega deild innan flokksins.

Hér er fjármálaráðherra auðvita ekki einn á báti.  Meirihluti þjóðarinnar virðist vilja allt nema ESB aðild á eftir AGS prógramminu, litlu máli skiptir hvað þetta er enda eru VG og D hér sammála sem ætti að hringja viðvörunarbjöllum hjá kjósendum.

Eitt er víst, núverandi staða þar sem erlend lán eru niðurgreitt af AGS og hinum Norðurlöndunum er ekki til frambúðar.  Þegar hendi AGS sleppir hvað tekur þá við, grísk vaxtakjör?  Lánstraust Grikklands og Íslands er það sama svo það er rökrétt ályktað.  Það er að segja ef einhver vill lána okkur án AGS eða ESB?  Grikklandi er haldið á floti með ESB björgunarhring, sem auðvita veit ekki á gott fyrir okkur ein og óstudd.

Það er mikið ábyrgðarleysi og skammsýni að senda AGS á brott án þess að hafa gert viðunandi ráðstafanir í fjármögnunar- og gjaldmiðlamálum landsins.  Nú næstum tveimur árum á eftir hrun erum við litlu nær.  Enginn flokkur hefur komið fram með nýjar hugmyndir á þessu tímabili.

Þeir sem ekki vilja ESB aðild, sem er líklega meirihluti þjóðarinnar, verða nú að fara að bretta upp ermarnar og taka til hendinni.  Halda menn virkilega að þetta muni bara reddast!

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (14)

  • Nú, en hvað ætla ESB-sinnar að gera ef við göngum ekki í sambandið? Gefast þeir þá upp á að búa hér? Mín vegna mega þeir svo sem sem flestir flytja til ESB ríkja. Ekki hef ég áhyggjur af framtíð Íslands utan ESB.

  • Þórarinn,

    Það er ekki ESB sinnar sem þarf að hafa áhyggjur af, það er næsta kynslóð sem er áhyggjuefnið. Landflótti er ekki eitthvað sem skellur á eins og stormur, þetta byrjar hægt og sígandi og tekur 10 ár.

    Það er ekki nóg að „hafa engar áhyggjur“ það þarf að hafa þrautskipulagða áætlun, fyrir bankahrun sögðu menn, við höfun engar áhyggjur af bönkunum og svo hrundu þeir.

    Reynsla Íslendinga af því að „hafa engar áhyggjur“ er því miður ekki nógu góð.

  • Andri Geir.
    Eins og þu fjallaðir um fyrir nokkru um orkuveitu reykavíkur, sem núna er tæknilega gjaldþrota, en samt sakaði Eiríkur þig um að fara með rangt mál.
    Þannig er þetta því miður á miklu fleiri sviðum.
    Núna er verið að leika ser með fjármuni á fleiri sviðum, eins og í lífeyrissjóðunum.
    Þrátt fyrir að þeir séu að skerða lífeyrir gríðalega, halda þeir áfram að leika sér með peninga sem þeir eiga ekkert í.
    Þegar næsta hrun kemur á næstu mánuðum, verða lífeyrissjóðirnir orðnir líka tæknilega gjaldþrota.

  • Leifur Björnsson

    Góður og málefnalegur pistill Andri Geir.

  • Georg Georgsson (gosi)

    Góður pistill. Einn stærsti vandi lífeyrissjóðanna núna eru gjaldeyrishöftin þeir komast ekki með fé úr landi til að ávaxta og hljóta að lenda í þeirri stöðu að þurfa að skerða enn meira en orðið er.Við skulum heldur ekki gleyma eigendum krónubréfanna sem bíða í röðum eftir þeim degi sem gjaldeyrishöftunum verður aflétt. Við erum búin að semja þrisvar um icesafe, en stöndum ekki við neina samninga,Það verður ekki gamann þegar AGS og hin norðurlöndin sleppa af okkur hendinni.

  • Andri Haraldsson

    Það getur verið erfitt að vera ríkur: Maður hefur efni á að vera vitlaus svo lengi.

    Annars finnst mér kannski að það sé oft verið að gera þetta of flókið.

    Atriði 1: Er hægt að sleppa við að borga sameiginlegar skuldir þjóðarinnar
    (ekki einkaskuldir, heldur Jöklabréf, Icesave, AGS lánin, og svo önnur lán sem ríki, félög í eigu ríkis og bæja, eða bæjarfélög sjálf, skulda erlendum aðilum). Ef svarið er að það þurfi að borga þetta þá þarf að finna út hvernig. Til að klára reikningsdæmið er bara hægt að setja einhverja tölu á Icesave, þar sem enn eru á Íslandi þeir til sem halda að ekki þurfi að borga það allt, amk.

    Atriði 2: Hvað er eðlilegur endurgreiðslutími skulda ríkisins
    (væntanlega tengist það hvaða eignir koma á móti, en sem heildarpakka þá er ekki óvarlegt að segja að ríkið eigi að vera með bróðurpart skuldanna á langtíma (15+ ára) lánum, kannski að meðaltali að miða við endurgreiðslu á 20 árum. Það þýðir að setja þarf upp sem hagkvæmustu langtíma fjármögnun slíkra skulda. Það gæti þýtt að endurfjármagna skuldirnar mörgum sinnum á tímabilinu, en raunveruleg greiðslubyrði væri ekki það sem þarf að endurfjármagna, heldur það sem þarf að greiða í vexti og afborganir.

    Atriði 3: Þegar tillit er tekið til þess að skuldir þarf að borga og það er ekki hægt að auka þær nema svo mikið, þá er hægt að sjá hvað stendur eftir af ráðstöfunartekjum ríkisins. Miðað við núverandi fjárfestingargetu og vilja innlendra aðila til að viðhalda og auka atvinnulífið, eru þær nægar til að standa undir þjóðfélaginu sem fólkið vill? Kannski, en næstum örugglega er íslenska ríkið of stórt miðað við fólksfjöldann.

    Atriði 4: Ef það sem að ofan er sagt segir að þjóðin hafi ekki efni á núverandi þjóðfélagsskipun, þá er nauðsynlegt að leita lausna. Þær munu allar tengjast því að fá erlenda aðila að málinu. Hvort það er sem fjárfestar, lánveitendur, eða til að hjálpa okkur að finna hagkvæmara innra skipulag. Ef íslendingar ákveða að borga ekki skuldir sínar, þá þurfum við samt að eiga við útlendinga (bróðurpartur allra aðfanga fyrir rekstur og allrar neysluvöru kemur erlendis frá), en munum gera það á verri kjörum en í dag.

    Allt annað, svosem eignardreifing, skuldauppgjöf og uppgjör, tekjur, réttindi, osfrv. innbyrðis milli Íslendinga, geta Íslendingar svo átt við sig sjálfa án þess að spyrja nokkurn um leyfi. Meira að segja ESB er val — en það er valkostur sem þarf að hafa í huga miðað við atriðin sem að ofan eru nefnd.

    En þessi atriði leggja línurnar. Það er kominn tími til að hætta þessu röfli og fá upp á borðið einfalt heimilisbókhald fyrir þjóðfélagið.

  • Björn Kristinsson

    Andri Haraldsson
    23.08 2010 kl. 19:47

    Mjög gott. Er áhugasamur um að heyra framhaldið frá þér fyrir liði 1 til 4 – einfalt „heimilisbókhald“ handa örþjóð.

  • Andri Haraldsson

    @Björn

    Þetta snýst í raun um að byrja á réttum enda. Það virðist vera sátt á Íslandi um að halda í norræna velferðarkerfið. Ef útgangspunkturinn er að gera það, þá þarf að reikna út hversu hátt hlutfall þjóðartekna á að fara í það batterí. Ætti að vera hægt að meta út frá tölum frá hinum Norðurlöndunum. Svo þarf að setja einhverja peninga í stjórnsýsluna fyrir utan velferðarkerfið, en hér verður „fjölskyldan“ að vera hagsýn. Það er engin von fyrir Íslendinga að vera á pari við hin Norðurlöndin í þessum málum. Utanríkisþjónusta, ýmis konar innra dægurþras, menningarstyrkir, vegaframkvæmdir oþh. þarf að vera hlutfalli við stærð þjóðarinnar.

    Grunnurinn að þessu, eins og á heimilinu hjá okkur, er að hafa allt uppi á borðum. Hvað kostar þetta og hvað kostar hitt. Ég efast um að 10% þjóðarinnar geti sagt hvað heilbrigðisþjónustan kostar sem hlutfall af úgjöldum ríkisins. Nú eða menntakerfið, eða hversu hátt hlutfall íslensku þjóðarinnar vinnur fyrir ríki og bæ, miðað við t.d. í öðrum löndum í kringum okkur. Ágætis upplýsingar má finna um þessi mál hjá Norðurlandaráði (http://ww3.dst.dk/pxwebnordic/dialog/statfile1.asp). Af stuttri skoðun virðist mér Ísland mjög ólíkt hinum Norðurlöndunum, og þau líkari hvort öðru en Ísland nokkru þeirra.

    Mínar skoðanir um nákvæmlega hvernig „heimilið“ á að verja tekjum sínum skipta ekki máli. Ég bý ekki á Íslandi. En vandamálið er að Íslendingar hafa haft mjög háar tekjur í langan tíma (að sumu leyti kannski blekkt sjálfa sig um hverjar tekjurnar voru með því að hafa krónuna). Tekjurnar eru núna lægri og skuldirnar háar. Það þarf að nálgast þetta með einhverjum hætti.

    Ég veit ekki eftir hverju þú leitar nákvæmlega, en upplýsingar um skuldahliðina og langtíma sögulega kostnaðarliði ríkisins eru til. Vandamálið er að fyrst að ákveða hvort maður ætlar að reikna í krónum, eða sem væri skynsamlegra að reikna allt í einhverri erlendri mynt. Ég reyndi t.d., einu sinni að finna erlendar skuldir íslenska ríkisins, en fann þær bara í krónum, það er eiginlega gagnslaust, því það segir ekkert um hversu margar evrur eða dollara þarf til að standa skil á þeim.

    Næsta vandamál er að koma sér saman um lykilbreytur í módelinu, og ná sátt um líkleg gildi fyrir þau. Hluti eins og verðbólgu, fjármagnskostnað ríkisins, etc. Þetta er nokkuð sem fólk gerir dag hvern í seðlabönkum ráðuneytum, stofnunum og fyrirtækjum.

    Svo er að reyna að meta vaxtargetu íslenska hagkerfisins miðað við núverandi ástand. Það er hægt að fara í alls kyns æfingar, en hann verður næstum örugglega lægri en meðaltalsvöxtur lýðveldistímans og miklu lægri en meðaltalsvöxtur ef ekki kemur erlent fjármagn.

    Það sem er svo galið er að þetta er kannski svona mánaðar verkefni fyrir 3 manna hóp (að því gefnu að þeir sem hafi upplýsingarnar vilji gefa þær upp). Það væri hægt að fara í gegnum stöðu Íslands eins og deildar í stóru fyrirtæki og þá kæmi fljótt í ljós hver vandamálin eru. Andri Geir hefur unnið svona analýsur og hans niðurstöður hérna hjálpa okkur að skilja málið, en því miður án þess að við höfum þau gögn við hendina til að geta endanlega sannfært þjóðina, eða útkljáð málið.

  • Ég tel að að ofmetinn sé sá fjöldi íslendinga sem er Á MÓTI AÐILD AÐ ESB. Þá er ég að meina alfarið á móti henni hvað sem í borði er. Þegar spurt var um afstöðu fólk mun ekki hafa verið spurt um viðhorfið til aðildarviðræðna.

    Þar sem aðildarviðræður voru ekki hafnar og eru ekki ennþá, eru afar margir sem ekki eru/voru tilbúnir á þessum tímpunti að segja já og höfðu þá ekki annað val en að segja nei.

    Ég er sammála utanríkisráðherra að þegar valkostirnir koma í ljós eftir því sem samningum vinur fram, þá muni fólk endurskoða afstöðu sína og meðmælendum fjölga jafnt og þétt.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Gengið á krónunni á að ákvarðast af viðskiptajöfnuði eins og ég hef oft talað um. Þegar verið er að meta erlendar skuldir ríkissins þá þarf ekki að mællæ þær í krónum heldur er hægt að miða við hvað viðskiptajöfnuðurinn þurfi að vera jákvæður í langan tíma.
    Það þarf að stilla krónuna af miðað við það.

    Eftir því sem erlendar skuldir lækka lagast skuldartryggingarálag íslands.

    Nú er ísland komið úr topp 10 yfir lönd sem mest hætta er á greiðslufalli. Hvaða ríki eru komin á þann lista. Illinois er númer 8 og California númer 10

    http://www.cmavision.com/market-data

    Highest Default Probabilities Entity Name Mid Spread CPD (%)
    Venezuela 1179.60 55.25
    Greece 869.79 51.84
    Argentina 821.80 42.17
    Pakistan 586.20 32.71
    Ukraine 526.80 30.45
    Iraq 471.90 27.98
    Dubai/Emirate of 460.99 27.09
    Illinois/State of 299.50 22.73
    Ireland 296.48 22.29
    California/State of 284.10 22.01

    Málið er að við þurfum ekki að fara í ESB til þess að hafa það ágætt á Íslandi þar sem undirstöðu útflutningsatvinnuvegirnir eru að skila okkur jákvæðum vöruskiptajöfnuði mánuð eftir mánuð.

    Þannig erum við að safna gjaldeyrissjóð. Því er engin ástæða til þess að aflétta gjaldeyrishöftunum strax. Þetta held ég að sé það sem Steingrímur er búin að átta sig á en margir eru ekki að kveikja á perunni.

    Það eru mörg lönd í meiri vandamálum en Ísland og ástandið í USA og Grikklandi er farið að verða mjög alverlegt.

  • Þórhallur,
    Það er ekki nóg að hafa jákvæð viðskipti við útlönd, spurningin er hversu jákvæður þarf hann að vera til að borga af erlendum lánum. Þetta ræðst af hlutfalli skulda af landsframleiðslu, vaxtakjörum núna, lánstrausti og endurfjármögnunarþörf.

    Ef mig minnir þá gerir Seðlabankinn ráð fyrir að afgangur við útlönd þurfi að vera upp á 160 ma á ári, en við erum langt frá því að ná þessari tölu.

    Til að svo megi vera verðum við að draga úr innflutningi, halda gengi krónunnar lágu og herða höftin. Svo má ekki gleyma að allur okkar afgangsgjaldeyrir fer í að borga skuldir ekki í nýfjárfestingu fyrir næstu kynslóð. Það verður því engin endurnýjun hjá okkur á þessum tíma og við munum dragast aftur úr öðrum þjóðum.

    Þá er spurningin hversu margir flýja land efir 10 ár með svona kerfi, munu hreinlega ekki sætta sig við lífskjör sem verða langt undir lífskjörum á hinum Norðurlöndunum.

    Bandaríkin eru auðvita í miklum vanda en allar þeirra skuldir eru í eigin gjaldmiðli. Grikkir eru með björgunarhring frá ESB, en hver hjálpar litla Íslandi?

  • Nafni,
    Þakka þér fyrir málefnalegar athugasemdir eins og ætíð. Heimilisbókhald fyrir Ísland er góð hugmynd og þörf. Eins og ég hef áður skrifað um og bendi á hér að ofan eru mestar líkur á að hér verði gjaldeyrisskortur í framtíðinni. Við munum ekki geta myndað nógan erlendan gjaldeyri til að borga af okkar skuldum, hvað þá fjárfesta í ´nýsköpun fyrir næstu kynslóð. Þá verður endurfjármögnun svo dýr vegna lélegs lánstrausts að hún gerir illt bara verra.

    Þetta mun auðvita draga allan þrótt úr hagkerfinu smátt og smátt og líklega á endanum leiða til greiðslufalls með ófyrirsjánlegu afleiðingum.

    Næsta kynslóð mun auðvita ekki sætta sig við þetta enda á hún engan þátt í hruninu. Hún mun einfaldlega segja við sína foreldra, bless við flytjum úr landi, þið getið orðið hér eftir og haldið áfram að borga ykkar skuldir, við ætlum ekki að bjóða okkar börnum það sem þið hafið boðið okkur!

  • Gísli Ingvarsson

    Það er engin spurning að „lassez faire“ stefna andsinna ESB er stórhættuleg. Útgerðin (fiskur veiddur upp úr sjó) á að bjarga efnahaginum. Frekari stóriðju og virkjanastefna gengur ekki með þeim lánakjörum sem verða í boði.
    Það verður ekki hægt að virkja nema gefa stóriðjunni líka virkjanirnar. Þetta er ekki spurning um að hér muni ekki búa fólk. En það mun búa við mjög misjöfn og skipt kjör. Það verður ekki hægt að niðurgreiða landbúnaðinn. Menntun verður dýrari. Undirstaða lífeyrissjóðanna er hagvöxtur sem enginn mun sjá nálgast það sem þarf til að eldri borgara þrífist vel. Þessi kæruleysislega þetta reddast maður stefna Sjálfstæðisflokksins er enn í fullu gildi. Það er ótrúlegt hvað þeir hafa mikil áhrif þrátt fyrir lítinn þingstyrk og hugmyndafátækt. Bjarni Ben er orðinn mesti vælukjói og nöldrari á þingi. Við getum svo sannarlega gleymt því að fiskveiðar verði framtíðar vaxtarbroddur.

  • You can have too much of a good thing.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur