Mánudagur 18.10.2010 - 10:28 - 32 ummæli

Hvað er sálmur?

„En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Gnarr borgarstjóra að banna skyldi alla jólasálma í grunnskólum Reykjavíkur.“

En hvað er sálmur?  Hver ákveður það?

Ef banna á jólasálma í grunnskólum, verður þá ekki að banna þjóðsönginn okkar „Ó, guðs vors lands“ eftir Mattíhas Jochumsson, sem er jú kristilegur sálmur?  Og hvað með sálmaskáldið okkar, Hallgrím Pétursson?  Má lesa upp Passíusálmana í skólum Reykjavíkur og í RÚV?  Varla, ef jólasálmar verða bannaðir?

Hér eru borgaryfirvöld komin út á hættulega braut.  Kristileg gildi og hefðir eru órjúfanlegur hluti af íslenskri menningu.  Að fara að skipta út okkar besta kveðskap fyrir ameríska slagara er enn einn naglinn í líkistu íslenskrar menningar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (32)

  • Mikið ertu íhaldssamur. Hefur þú ekki velt fyrir þér út á hvað mannréttindi ganga? Þau ganga út á það að meirihlutinn troði ekki á minnihlutahópum í krafti stærðar sinnar.

  • Gunnlaugur A. Jónsson

    Sammála þessum stutta pistli. Þetta er kjarni máls.

  • Kristján Kristinsson

    Mikið væri nú gott að losan við þennan þjóðsöng.

  • Ragnhildur Kolka

    Kristin siðferðikenning er kjölfesta siðferðilegrar hegðunar. Án trúarlegrar tengingar verður siðferði afstætt, þ.e. einn siður í dag og annar á morgun.

  • Guðmundur

    Þjóðsöngurinn heitir Lofsöngur ekki ó guðs vors lands

  • Fyrir þúsund árum ákvað einn Íslendingur að íbúar landsins yrðu að kveðja einn guð Óðinn fyrir annan Jesú vegna þrýstings frá kóngi í Noregi. Enn þann daginn í dag eru fullorðnir íslenskir menn undir kónginn settir.

  • Ragnhildur, er það þessvegna sem við lærum um krossferðirnar og spænska rannsóknarréttinn í sögubókunum? Því kristnir menn eru svo miklu siðaðri en aðrir? Er það góðri siðferðiskennd að þakka að íslenskir prestar jafnt sem erlendir taka þátt í því að hylma yfir kynferðislegri misnotkun og öðrum glæpum innan kirkjunnar? Afstæð siðferðiskennd og kristin trú haldast hönd í hönd og hafa gert það alla tíð.

  • Er eitthvað í þjóðsöngnum okkar sem t.d. múslimar geta ekki tekið undir?

  • Vilhjálmur Ari Arason

    Sammála þér Andri, en það á að leggja niður þjóðkirkjuna og skilja hana frá ríkinu. Hún hefur sýnt sig vera tímaskekkja eins og Besti flokkurinn er á góðri leið með að gera einnig.

  • Einsi,
    Einmitt, múslimar viðurkenna Jesús sem spámann og geta vel tekið undir þjóðsögninn og alla jólasálmana. Þetta er ekkert múslima vandamál.

  • Ómar Kristjánsson

    Þjóðsöngurinn eða ,,Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára“ eins og hann kallaðist fyrst, er í raun byggður eða innspíraður af 90.Davíssálmi og líkindin leyna sér ekki.

    ,,Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
    og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn!“
    Því að þúsund ár eru í þínum augum
    sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
    já, eins og næturvaka.“

    ,,Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
    og þúsund ár dagur, ei meir:
    eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
    sem tilbiður guð sinn og deyr.
    Íslands þúsund ár,
    Íslands þúsund ár,
    eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
    sem tilbiður guð sinn og deyr.“

  • Bah – Húmbúkk.
    Það er óskiljanlegt að menn skuli ávallt slengja fram kenningum um að að kristilegt siðferði sé „órjúfanlegur hluti íslenskrar menningar“ þegar sýnt hefur verið fram á að við erum hvorki guðrækin né kirkjurækin þjóð (ef menn vilja gera greinarmun á þessu tvennu). Það siðferði sem fólk vill kenna við kristilegt getur ekki verið sprottið úr einhverju sem ekki er ástundað. Tillitssemi við náungann og virðing fyrir öðrum eru ekki sér-kristin gildi, nema síður sé.
    Það er hinsvegar sjálfsagt mál að gera sér grein fyrir menningararfi okkar, hvort sem hann er sprottinn úr kristni, heiðni eða trúleysi.

  • Barnaleg færsla í alla staði. Hvað er nakvæmlega svona kristilegt við íslenskt siðferði? Jú, að brenna nörnir var það. Sama má segja um þegar kirkjan salsaði undir sig auð með því að selja fyrirgefningu og vill siðan selja þjóðini það til baka. Kristileg siðferði hefur margt skyrt að segja um homma, stöðu kvenna, og meiri segja hversu ogeðslegar konur eru á túr. Þó að forfeður voru kristin trúar hefur íslensk siðferði sem betur fer vaxið up úr þeim barnaskap, og má halda því afram.

  • Ómar Kristjánsson

    ,,Það siðferði sem fólk vill kenna við kristilegt getur ekki verið sprottið úr einhverju sem ekki er ástundað.“

    Umm jú, reyndar er það alveg hægt. Td. í þessu tilfelli, er það vegna þess að viss grunnprinsipp voru svo innprentuð í gegnum tímann, að það nær alveg ómeðvitað langt útfyrir grög og dauða, ef svo má segja. þ.e. þó það sem grunnprinippin voru upphaflega leidd af sé ekki lengur ástundað á sama hátt og áður fyrr þá lifa vissar hugmyndir og grunnprinnsipp áfram. Taka visum breytingum og þróast og sona og verða fyrir áhrifum f öðru eins og gengur. Td. tók það í ran aldir fyrir Ísland að kristnast almennilega, sem dæmi.

    Mikið af okkar hegðan er leidd af kristum gildum. Ómeðvitað og óbeint. Það er bara þannig.

    ,,Tillitssemi við náungann og virðing fyrir öðrum eru ekki sér-kristin gildi, nema síður sé.“

    Það er í sjálfu sér alveg rétt. þetta er ekkert bundið við kristni per se þó að íslendingar sé yfirleitt mest kunnugir þeirri trú og mótaðir af henni. Svipuð eða alveg sömu grunnprinsipp fyrirfinnast í flestum trúarbrögðum.

    En til að koma með dæmi um vissa byltingakenda breytingu með kristni á íslandi fyrir um 1000 árum, þá td. var þar með bannað að bera út börn eða deyða börn. Þarna var viss grunnbreyting á ferðinni. Svo mikil að Ísland fékk sérstaklega Opt-Out frá þessu.

  • í þessari færslu er ekki talað um kristilegt siðferði, heldur minnt á þá staðreynd að saga og menning Íslands er órjúfanleg frá kristinni trú. Það er auðvelt fyrir 21. aldar fólk að dæma sögun úr frá sínum reynsluheimi, en er það rétt?

    Ísland tók kristna trú árið 1000 og kristin trú var kjarni í menningu fólks allt fram að 1950. Eru síðustu 60 ár svona miklu mikilvægari en þau 950 sem komu þar á undan?

    Er menning og saga forfeðra okkar nú allt í einu orðin „barnaleg“ af því að hún passa ekki inn í tískuheim 21. aldarinnar?

  • @Ómar
    Það er ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að siðferði íslendinga sé sprottin úr kristni – þegar íslendingar eru að stórum hluta „óvirkir trúmenn/konur“ eins og sýnt hefur verið fram á. Slíkar fullyrðingar eru í besta falli barnalegar. Grunnprisnsipp innprentuð í gegnum tímann segir þú – hvaða grunnprinnsipp eru það? Umburðarlyndi og tillitssemi eru tiltölulega ný hugtök hjá Þjókirkjunni. Hvað kristnu gildi eru það sem beint og óbeint leiða okkar hegðan? ég hef t.a.m. aldrei verið trúaður, en reyni að hegða mér skikkanleg gagnvart öðrum. Ég átta mig á því að fyrir því er mælt í biblíunni með gullnu reglunni svokölluðu – en sú regla er ekki einskorðuð við kristni. Hún er hluti af almennri skynsemi, það þarf ekki guðfræðilegar kennisetningar til að halda þessari gullnu reglu við.
    Krisnti hefur ekki mótað okkar veruleika meir en margt annað, t.a.m. myndi ég telja að amerísk bíómenning hafi haft mun meir áhrif á okkar samfélag en kirkjan undanfarna áratugi. Eigum við þá að slá því föstu að B-myndir frá Hollywood séu svo órjúfalegur þáttur okkar menningararfs að ekki megi með nokkru móti aðskilja þær frá grunnþáttum samfélagsins?
    Ég hef ekki nokkurn skapaðann hlut á móti kristni eða trúuðu fólki, ber reyndar talsverða virðingu fyrir þessu fyrirbæri – þó mér sé ómögulegt að skilja það. Það fer hinsvegar óendanlega í taugarnar á mér þegar sjálfskipaðir sérfræðingar halda þvi fram að siðferði og góð almenn hegðun sé kristið fyrirbæri og að án kristni væri hér ekkert nema vargöld og véöld.
    Við, hinir guðlausu, hegðum okkur nefninlega alveg jafn vel og hinir.

  • @Andri
    Sá ekki svarið þitt. Umræðan um þetta margrómaða kristna siðferði spratt upp í athugasemdadálknum og var mínu innleggi því ekki beint gagngert að pistlinum.

    Ég er hvorki sammála né ósammála því að saga Íslands og menning sé órjúfanleg kristinni trú. Það má segja hið sama um sifjaspell, átthagafjötra, eldgos, hafís, trú á huldufólk og margt margt fleira. Þetta var einfaldlega til staðar og hefur haft einhver áhrif á sinn samtíma. Ég er hinsvegar ósammála því að kristin trú hafi haft afgerandi áhrif á veruleikann í dag – það er punkturinn sem ég er að reyna að koma á framfæri. Okkar samtími er að langmestu leyti mótaður af síðustu áratugum – hvort sem þér/mér líkar betur eða verr. Kristin trú hefur ekki verið ríkjandi þáttur í þjóðarsálinni undanfarna áratugi – hvort sem það er til bóta eða vansa læt ég ósagt um.

  • Ómar Kristjánsson

    Stefán, þetta innlegg bætir ekkert við það sem áður er sagt. ,,Barnaskapurinn“ er að halda að tilveran núna sé óháð kristnum grunnprinsippum vegna þess að fólk praktiserar ekki kristni á fullu í dag yfirleitt. Samfæelag á íslandi í dag er bara afleiðing kristinna gilda. Það er bara þannig.

    Og amerísk bíómenning – hún er líka afleiðing kristinnar gilda. Þau koma þar allstaðar fram. Það ætti þá að banna bíó! Vestrænt samfélag er afleiðin kritinna gilda! Það er bara þannig.

    Nú, that said, þá er eigi þar með sagt að slík gildi séu aðeins í kristni og ekki öðrum trúarbögðum. Það eru svipuð prinsip í flestum trúarbrögðum er þekkjast í dag. Það sem gerðist á Vesturlöndum með aukinni auðlegð og aukinni almennri mentun var, að gildin færðust má segja yfir allt samfélagið og náðu til allra í samfélaginu. Það er alveg rétt að áður fyrr (og ekkert fyrir svo löngu) voru samfélög á V-löndum með alltöðrum hætti en nú er og sumir voru jafnari en aðrir og ennaðrir höfðu engin réttindi nema sem hluti af öðrum einstakling o.s.frv. En allar umbætur og aukin mannréttindi voru að grunni til frá kristinni rót! Umbætrunar og framþróunin fóst aðallega í að prinsippin voru veitt öllum. Kristni er einfaldlega samofin þessu og allt um kring og að halda það að nútíminn hafi dottið af himnum ofan í tómarúmi er í besta falli barnaskapur en í versta falli fáfræði og þekkingarleysi á sögunni.

    Svo er nú það.

  • Ómar, það að segja „það er nú bara þannig“ er nú frekar þunnt.
    Það er ekkert annað en óskhyggja að halda því fram að samfélag okkar sé afleiðing kristinna gilda – ég veit að þú vildir gjarna að það væri satt, en þetta er bara draumsýn. Reyndar sýnist mér að þú teljir flest allt í heimi hér sé af kristinni rót, bíómyndir, mannréttindi, já – og bara vestrænt samfélag í heild sinni!
    Ráðlegg þér að taka skrefið afturábak og rýna aðeins í það sem þú ert að segja. Þú ert (án gríns?) að halda því fram að kristnin hafi stuðlað að framþróun og umbótum. Þú ættir e.t.v. að kynna þér sögu Evrópu betur – það er ekki hægt að finna nein öfl sem hafa í eins miklum mæli reynt að halda aftur af umbótum og framþróun og hin kristna kirkju. Og áður en þú reynir það, nei, það er ekki hægt að aðskilja „kristin gildi“ fyrr á tímum og „gjörðir kirkju“ fyrr á tímum – þetta er eitt hið sama.
    Þessi kristnu gildi sem ég er að tala um er þssi gullna regla sem ég hef minnst á áður – það fór mjög lítið fyrir henni í boðskap kirkjunar fyrr á öldum – bæði hérlendis og erlendis. Þú ert e.t.v. að tala um einhver önnur gildi – þessvegna erum við máské að tala í kross?

  • Ómar Kristjánsson

    Nei það ert þú sem ert á villigötum. Til að skýra út fyrir þér eðli máls og staðreyndir þyrfti eg að skrifa svo sem eitt til tvö bindi hérna um sögu kristninnar á Vesturlöndum! Eg ætla eigi að gera það. Það sem eg er að segja er bara almennt samþykkt af flestum ef ekki öllum megin fræðimönnum. Að sjálfsögðu er slæmar hliðar á kirkjunni í gegnum tíðina. Samfélag og kirkja eða kristni er og var alltaf visst samspil sem tók mið af ýmsum öðrum aðstæðum eða orsakavöldum en kristni. Það var ekkert bara: Kristni = Samfélag. Þetta var flókið samspil ýmissa þátta sem þróaðist eins og gengur. Tímarnir breytast og mennirnir með.

    Kristni bannar td. í prinsippinu að taka líf. Þessvegna var bannað að deyða börn eða bera út. Það var vel þekkt fyrirbrigði í ýmsum samfélögum fyrr á tímum. Ma. augljóslega á Íslandi fyrir um 1000 árum (stutt síðan) sem sjá má að þeir fengu Opt-Out því viðvíkjandi! Börn voru bara deydd si sona. Fræðimenn eru ekki alveg sammála um hvernig á það hafi verið litið en td. hallast sumirað því að ekki hafi verið litið á börn sem fullgilda lífveru fyrr en nokkuð eftir fæðingu og jafnvel eftir nokkur ár og þ.a.l. hafi fólk ekkert séð athugvert við að deyða börn. Þetta er td. alveg óskiljanlegt sjónarhorn fyrir nútímamönnum.

    Annað sem mætti nefna er aðhlynning sjúkra. Þar lagði kristnin mikla áherslu á sem sjá má td. af uppgerftri á Skriðubæjarklaustri. Sjá má á beinum að þar hefur verið mikið um sjúkt fólk o.s.frv.

    Kristni studdi og predikaði slík gildi frá upphafi. Mannúðleg gildi. Virðing fyrir lífi og umönnun sjúkra etc etc. þetta er í raun bottom læn kristninnar.

  • stefán benediktsson

    Við vorum þvinguð til kristni fyrir þúsund árum með hótunum konungs um ofbeldi. Sá kóngur laut Páfa. Kristnin var tæki Páfa til að eignast lönd og öðlast völd á Íslandi. Danskur kóngur sölsaði síðar undir sig lönd páfa og eignir með hjálp lúterskrar kirkju, en sú kirkja laut kóngum. Kristni var notuð til að sætta okkur við ömurleg kjör. Kirkjan hefur aldrei tekið upp baráttu fyrir betri kjörum smælingja. Kirkjan fordæmdi aldrei ofbeldi og yfirgang yfirvalda gagnvart landsþegnum.
    Kristni á sögulega séð miklu meira skylt með ofbeldi en kærleika. Hún er órjúfanlegur hluti grimmilegustu kaflanna í sögu vesturlanda. Kirkjan hefur alltaf verið þáttakandi í öllum stríðum kristinna manna, sem háð hafa verið síðan rómverjar tóku kristni. Kirkjan hefur fordæmt, bannfært og líflátið fólk fyrir skoðanir og athæfi, en Kirkjan hefur aldrei fordæmt eða bannfært stríðsrekstur kristinna valdhafa. Kirkjan barðist af hörku gegn vísindalegum og félagslegum framförum en fordæmdi aldrei þrælahald eða kúgun kristinna valdhafa. Þetta ættu að vera nægar ástæður til að taka „kristilegu siðgæði“ með varúð.

  • Ómar Kristjánsson

    Ps. Já Skriðuklaustri.

    Mikilvægir þættir í kristni eru aðstoð við fátæka, aðhlynning sjúkra og virðing fyrir lífi. Það er nú bara ekki lítið eða léttvægt!

    Óvenjulega hátt hlutfall barna, ungmenna, sjúkra og fatlaðra sem jarðsettir voru í klausturgarðinum rennir stoðum undir þá tilgátu að hospítal hafi verið rekið á vegum Skriðuklausturs. Áður hefur verið bent á að íslensku klaustrin hljóti að hafa rekið spítala eða athvörf á jörðum sínum, eins og tíðkaðist víða í klaustrum utan Íslands, en heimildir um það hefur skort (17). Áhöld til lækninga og ræktun lyfjagrasa á staðnum benda ennfremur til þekkingar á sviði læknisfræði hérlendis á kaþólskum tíma en hingað til hefur hún verið ta lin hafa verið takmörkuð fyrir siðaskiptin.

    Niðurstöður rannsóknarinnar á Skriðu hljóta að ýta undir efasemdir um hina meintu ein­angrun Íslands á miðöldum.
    http://www.laeknabladid.is/2006/07/nr/2484

  • Jamm, ríghaltu í að óvenjuhátt hlutfall barna, ungmenna og sjúkra jarðsett á Skriðuklaustri styðji kenningu þína um að kristni hafi stuðlað að virðingu fyrir lífi og umönnun sjúkra ásamt því að stuðla að umbótum á mannréttindum – og endilega hafðu það sem bottom lænið þitt. Ef þú sérð ekki hve lítilfjörleg þessi röksemdafærsla þín er – þá er verr fyrir þér komið en ég ætlaði.

    Það sem þú virðist ekki skilja Ómar er að þrátt fyrir að stöku góðverk hafi verið unnið í kirkjunnar nafni – þá afmáir það ekki hina aldalöngu sögu kúgunar og oft á tíðum illsku þessarar sömu stofnunar.
    Stofnun sem þessi getur ekki hafa alið af sér æskilegt siðgæði, nema á allra síðustu áratugum. Kirkjan var – allsstaðar í Evrópu – þrándur í götu framþróunar vísinda og þekkingar, hún er það að vissu leiti enn. Ef þú vilt ekki sjá það – þá verður þú bara að eiga það við sjálfan þig,ég nenni eiginlega ekki að þræta þetta við þig lengur.

  • Valur B (áður Valsól)

    Mér finnast rök þín ekki standast. Þú segir að það verði að taka mið af sögunni og menningu okkar. Eigum við sem sagt að gefa afslátt af mannréttindum barnanna okkar vegna 1000 ára sögu kristninnar í landinu? Eigum við að vera föst í viðjum sögunnar sama hver hún er og troða á minnihlutahópum í krafti meirihlutans? Ef fólk með svona skoðanir hefði fengið að ráða, þá værum við enn stödd á miðöldum. Ótrúlega þröngsýnt sjónarhorn og íhaldssamt.

  • Uni Gíslason

    Við vorum þvinguð til kristni fyrir þúsund árum með hótunum konungs um ofbeldi. Sá kóngur laut Páfa. Kristnin var tæki Páfa til að eignast lönd og öðlast völd á Íslandi.

    Nú verður þú að skilja að ég svara í nákvæmlega þeim tón sem þessi þvæla þín á skilið. Enda þvílíkt endemisbull að maður verður bara að setjast niður og taka sér fimm mínútur í að hætta að hlæja.. Noregskonungur kristnaði þjóð sína og Ísland þar með, til að sameina Norðmenn – enda ljóst að hin gömlu trúarbrögð voru óheppileg sameinuðum Noregi. Að hann hafi gert það fyrir Páfa er svo steikt að maður skilur það varla, enda sýnir sagan að Páfi hafi haft minnstan áhuga á Íslandi – sem fyrstu aldirnar blandaði saman kristni og ásatrú (blótaði á laun)

    Danskur kóngur sölsaði síðar undir sig lönd páfa og eignir með hjálp lúterskrar kirkju, en sú kirkja laut kóngum. Kristni var notuð til að sætta okkur við ömurleg kjör.

    Nei, siðaskiptin voru notuð til að sætta ‘okkur’ við ömurleg kjör. Meðan Katólska kirkjan var og hét á Íslandi fyrir siðaskiptin var á Íslandi frjáls verslun, góð menntun og sterkt vald sem örgraði konungi. Menn fóru í hina fjölmörgu háskóla kirkjunnar á meginlandinu og báru til Íslands þekkingu og menningu. Það var jú breyting á við siðaskiptin, en ekki Kristni að kenna. Bara mannlegum konungi.

    Kirkjan hefur aldrei tekið upp baráttu fyrir betri kjörum smælingja.

    Kirkjan hefur alltaf barist fyrir réttindum fátækra og þeirra sem minna mega sín, kennt og verndað. Sbr. algert bann KIRKJUNNAR við þrælahaldi, en konungar og hinir siðaskiptu fylgdu á eftir þó seint væri.

    Kirkjan fordæmdi aldrei ofbeldi og yfirgang yfirvalda gagnvart landsþegnum.

    Kirkjan fordæmdi alltaf illa meðferð kommúnista á borgurum sínum, t.a.m. og hefur barist með hörku fyrir betri meðferð á fátækum (t.d. í Brasilíu).

    Kristni á sögulega séð miklu meira skylt með ofbeldi en kærleika. Hún er órjúfanlegur hluti grimmilegustu kaflanna í sögu vesturlanda. ÞOKKALEGT bull.. hvar var Kirkjan í Víetnam stríðinu? Hvar var Kirkjan í Fyrri/Seinni heimsstyrjöld? Hvar var Kirkjan í Krímstríðinu?

    Kirkjan hefur alltaf verið þáttakandi í öllum stríðum kristinna manna, sem háð hafa verið síðan rómverjar tóku kristni.

    Nei, þú ert geðveikur og sjá listann sem ég lagði fram fyrir ofan (ekki tæmandi).

    Kirkjan hefur fordæmt, bannfært og líflátið fólk fyrir skoðanir og athæfi, en Kirkjan hefur aldrei fordæmt eða bannfært stríðsrekstur kristinna valdhafa.

    Kirkjan bannaði dauðarefsingar og fordæmdi nú síðast stríðið í Írak. Það þarf ekki einu sinni að leita langt aftur.

    Kirkjan barðist af hörku gegn vísindalegum og félagslegum framförum en fordæmdi aldrei þrælahald eða kúgun kristinna valdhafa. Þetta ættu að vera nægar ástæður til að taka „kristilegu siðgæði“ með varúð.

    Johan Gregor Mendel, faðir erfðafræðinnar, var Katólskur munkur og vann vísindaleg stórvirki FYRIR kirkjuna á 19. öld. Pasteur faðir sýklafræðinnar var einnig kristinn maður og vann vísindi sín óáreittur frá Kirkjunni, skrýtið? Alexander Fleming var kristinn maður og ALDREI stóð Kirkjan í vegi fyrir honum. Descartes, hinn frábæri heimspekingur var rammur kristinn maður sem Kirkjan hafði ekki nokkurn áhuga á að bannfæra fyrir hugsanir sínar.

    Það sem eftir situr er að þú ert bilaður, eða bara veruleikafirrtur. En þó aðalega hefur þú rangt fyrir þér.

  • Andri, það yrði nákvæmlega ekkert vandamál að undanskilja þjóðsönginn frá þessu t.d. með þeim rökum að hann sé, tjah, þjóðsöngurinn.

    Annað sem þú segir í þessum pistli þínum er eiginlega stórfurðulegt. Yrði það virkilega eitthvað stórslys ef hætt yrði að lesa Passíusálmana í LEIK- OG GRUNNSKÓLUM!?! Er það yfirhöfð gert svo að þú vitir til? Þegar þú svo dregur RÚV, sem seinast þegar ég athugaði tilheyrði hvorki undir menntasvið borgarinnar né mannréttindaráð, þá fer maður að velta því fyrir sér hvort þessi pistill þinn sé skrifaður sem meinfýsin íronía. En sér svo í svarhalanum að svo er ekki.

    Viltu ekki byrja á því að skoða hvað er virkilega verið að leggja til, íhuga það aðeins, og skrifa svo eitthvað meira? Ef kristni Íslendinga er ekki sterkari en svo að hún hrynji við þær mjög hófsömu aðgerðir sem boðaðar eru í þessari ályktun þá var hún ekki beisin fyrir, svo ekki sé talað um hversu grunnt hefur verið á siðferðinu ef það hlýtur skaða af.

  • Egill,
    Um leið og opinberir aðilar fara að banna flutning á efni, sama hver ástæðan er, eiga viðvörunarbjöllur að hringja. Það er lágmark í lýðræðislegum þjóðfélögum að umræða fari fram um öll bönn og skerðingu á tjáningarfrelsinu.

    Í sumum skólum í Banadaríkjunum er þróunarkenning Darwins bönnuð af trúarlegum ástæðum. Á því hneykslast Íslendingar en vilja svo banna jólasálma af sömu ástæðu! Hver er munurinn?

    Kjarni pistilsins er, hver dregur línuna og ákveður hvað er trúarlegt og hvað ekki? Hver er dómarinn hér? Og ef eitthvað er bannað í skólunum er þá ekki eðlileg krafa að banna það líka í ríkisfjölmiðli?

    Hér er verið að byrja á mjög svo „hófsamri“ braut, eins og svo oft, en gæti haft miklar og alvarlegar afleiðingar fyrir tjáningnarfrelsið í framtíðinni. Allt hefur sitt upphaf, sama hversu saklaust það lítur út í byrjun.
    .

  • Þetta er algjörlega öfugsnúið hjá þér Andri. Hvernig getur það flokkast undir tjáningarfrelsi þegar börn eru LÁTIN syngja sálma? Heldur þú að börnunum finnist svona voða gaman að syngja sálma að verið sé að skerða tjáningarfrelsi þeirra?

    Þetta er mesta steypa sem ég hef heyrt.

  • Cicero,
    Það eru nú mörg börn sem eru spennt fyrir því að fá að leika Jesús, Maríu og vitringana á litlu jólunum og fá að syngja „Í Betlehem er barn oss fætt…“

    Er það ekki skerðing að banna þetta?

  • Andri Geir, er mikið mál fyrir foreldra þessara barna að fara með þau í sunnudagaskóla? Er eitthvað sem kemur í veg fyrir það?

  • Að halda því fram að hægt sé að sinna jólaundirbúningi í skólum á þeim nótum að jólin tengist ekkert kristinni trú er blekking og lygi sem er alvarlegri fölsun gagnvart börnum þessa lands heldur en þau meintu mannréttindabrot sem nú eru framin að mati siðmenntar og þeirra „siða“ postula.

    Trú, von og kærleikur er of stór þáttur af tilverunni að hægt sé að afmá hann úr skólastarfi í nafni mannréttinda. Á endanum stöndum við öll frammi fyrir vali um afstöðu okkar til trúar og Guð treður sér ekki inní hjarta nokkurs manns. Hver er áhættan, hver eru hin stórkostlegu mannréttindabrot. Sinn er siður í landi hverju, segir máltækið og meirihluti íslensku þjóðarinnar vill rækta þann sið að halda hér jól og páska að kristnum sið og kenna og fræða börn í skólum landsins hvert sé inntak þessara hátíða og hvers vegna þær skapi öndvegi í hugum kristinna manna.

    Innræting og mannréttindabrot væru framin ef skólayfirvöld færu fram á að öll börn eigi að trúa á Jesú Krist eða ef þessi sömu yfirvöld setji sem yfirlýsta stefnu að börnin megi ekki trúa á Krist innan veggja skólans.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur