Föstudagur 29.10.2010 - 10:09 - 28 ummæli

Sæstrengs gullgæsin

Sæstrengur sem mun flytja rafmagn til Bretlands mun mala gull og það vita gamlir og nýir íslenskir fjármálaspekúlantar.  Þeir rembast nú eins og rjúpan við staur að sannfæra sauðsvartan almúgann og íslenska blaðamenn um að aðeins þeir hafi aðgang að fjármagni fyrir slíkt verkefni – þeir þekki rétta og áhugasama „aðila erlendis“, heitir þetta.  Gríðarleg barátta er nú í uppsiglinu um hver fær aðgang að þessari framtíðar gullgæs þjóðarinnar og ekkert verður sparað til að sannfæra landsmenn um að aðeins þeir sem hafi aðgang að íslenskum stjórnmálamönnum, fjölmiðlum og fjármagni geti komið þessu á koppinn.

Það eru margir verkfræðingar búnir að vinna lengi í þessu verkefni og margir erlendir fjármögnunaraðilar og rafmagnskaupendur hafa sýnt þessu áhuga.  Það þarf enga hjálp frá gamla útrásargenginu til að fjármagna sæstreng og kapalverksmiðju honum samfara.  Þetta er verkefni fyrir Landsvirkjun og hún getur einfaldlega haldið útboð á fjármögnuninni eins og öðrum þáttum verksins.  Bankar og fjárfestar munu standa í röðum erlendis, enda ekki á hverjum degi sem svona tækifæri gefst, til að koma grænni orku inn á evrópska rafmangsnetið.

En hvað þýðir sæstrengur?  Jú miklu hærra verð fæst fyrir orkuna með því að selja hana beint til neytenda í Evrópu en til orkufreks iðnaðar.  Reynsla Norðmanna (en þeir hafa lagt 800 km streng til Hollands) sýnir að orkufrekur iðnaður getur ekki keppt við sæstreng.  Halda verður þessu aðgreindu.  Virkja verður sérstaklega fyrir sæstrenginn en margt bendir til að þetta verkefni sé arðbærara en álbræðsla og því er eðlilegt að svona tækifæri hafi algjöran forgang í því árferði sem nú ríkir.

Aðilar sem sjá um að selja rafmagn frá norska NorNed kaplinum inn á norður-evrópska netið, tjá mér að Íslendingar þurfi að huga vel að hvar þeir ætli að koma með sæstreng að landi.  Ekki sé hagstætt að koma að landi í Skotlandi því þar skorti næga eftirspurn og nær útilokað sé að fá leyfi til að byggja nýja rafmagnslínur yfir skoska hálendið og suður til  Englands.  Koma þurfi með kapal að landi sunnan við Liverpool.  Að koma með kapal færandi græna orku sjóleiðina að landi þar sem næg eftirspurn sé fyrir hendi og lágmarksþörf sé fyrir miklar rafmangslínur sé mikilvægt atriði.

Þetta er mikið og tæknilega flókið verkefni sem best er að setja í hendur reyndra verkfræðinga, fármögnunin verður lítið mál, svo framalega sem stjórnmálamenn rústa ekki forsendum og það síðasta sem við þurfum er að blanda íslenskum fjármálaspekúlöntum inn í málið.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (28)

  • Takk fyrir góðan pistil, Andri Geir!

  • Hvað taka þessir milliliðir mikið út úr dæminu? Um hvaða upphæðir eru menn að slást?

  • Tryggvi J. Heimisson

    Getur íslenskur almenningur ráðið við þetta rafmagnsverð? Rafmagnsreikningar almennings hljóta að margfaldast við þessa breytingu.

  • Tryggja á með ótvíræðum hætti í stjórnarskrá að náttúruauðlindir landsins séu í almenningseign og að afraksturinn renni til þjóðarinnar.

  • Benzedrin

    Aðalmunurinn á því að selja raforku um streng úr landi og því að selja hana til notanda hér innanlands felst líklega í (fyrir utan verðið) atvinnusköpun.

  • Hvað þýðir þetta fyrir orkuverð til almenningsveitna á Íslandi.
    Verður verðið á orku til almenningsveitna þá verð á grænni orku í Evrópu að frádregnum flutningskostnaði og tapi í sæstreng.
    Er það verð þá ekki hærra en núverandi heildsöluverð Landsvirkjunar ?
    Hvert á að setja mögulegan mismun
    a) í ríkissjóð,
    b) til að greiða niður lán Landsvirkjunar sem fyrrverandi eigendur eru enn í ábyrgðum fyrir (Reykjavík og Akureyri)
    c) eitthvað annað

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Mikael er með áhugaverðann punkt. …tap í sæstreng.
    Hvers vegna halda menn að það sé ekki löngu búið að framkvæma það að selja orku gegnum sæstreng?
    Kannski vegna þess að með núverandi tækni er svo mikið tap í strengnum að vafasamt er að þetta geti borið sig.
    Hvað framtíðin ber í skauti er náttúrlega ómögulegt að spá en miðað við núverandi tækni er tapið í strengnum einfaldlega of mikið. Sorrý.

  • Sigurður

    „og nær útilokað sé að fá leyfi til að byggja nýja rafmagnslínur yfir skoska hálendið og suður til Englands.“ En í frumvinnslulandinu Íslandi er einstök náttúran einskis virði og lítið mál að stífla fljót, rústa háhitasvæðum og leggja línur þvers og kruss yfir landið. Verðmætamatið er misjafnt.

  • bitvargur

    Meðan að Íslendingar eru enn tvístígandi um hvernig nýtingu á orkuauðlindum skuli háttað ganga spákaupmenn á lagið.
    Enn hefur ekki verið til lykta leitt hvort eða hvernig skuli einkavæða opinber orkufyrirtæki og er Magma farsinn afleiðing af því ástandi.
    Tímabundin vandræði opinberra fyrirtækja við fjármögnun eru notuð sem yfirvarp þess að best sé að fela „einhverjum öðrum“ það verkefni að virkja og jafnvel leggja línur og sæstrengi.
    Hugsunin nær því miður ekki lengra en það að græða á daginn og grilla á kvöldin.
    En staðreyndin er sú hvað sem hver segir að lykilatriðið fyrir framtíð Ísland og Íslendinga er að hvika hvergi og halda bæði auðlindum, vinslu og sölu í innlendri eigu.
    Einungis þannig tryggjum við sjálfbæra nýtingu og sómasamlegar tekjur.
    Sæstrengur er góð hugmynd sem eykur arð og bætir nýtingu þeirra orkumannvirkja sem þegar eru til staðar.
    Slíkt getum við leyst sjálf án siðlausra rugludalla.

  • Tja, þú segir það Andri. Áhugavert í alla staði og mörgum spurningum þarf að svara og hafa nú þegar komið fram hér að ofan. En fyrst af öllu þarf að taka af allan vafa um hvers eign orkan er og hver á að njóta arðsins. Vonandi tekst stjórnlaga að gera það og vonandi tekst fjórflokknum EKKI að breyta því þegar hann, því miður, fær að leggja sína skítugu krumlu á væntanlega stjórnarskrá.
    Kveðja að norðan.

  • Stjórnlagaþinginu á að standa þarna. Afsakið fljótfærnina.
    Kv, að norðan.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Verið er að leggja sæstreng milli Englands og Hollands. Vegalengdin þar á milli er um 260 KM. Verðið á almennum markaði í evrópu er sennilega hátt í fjórum sinnum hærra heldur en stóriðjan er að greiað fyrir hér í dag.

    Ef lagður væri sæstrengur til bretlands væri stóriðjan komin í samkeppni við erlendan markað um orkuna og það mundi þrýsta verðinu til stóriðjunnar upp. Ef stóriðjan gæti ekki greitt samkeppnishæft verð þá mundu að öllum líkindum ekki vera samið við þá áfram eftir að samningarnir sem gerðir hafa verið renna út.

    Samningar til stóriðjunnar eru til einhverra áratuga en virkjanirnar okkar eiga eftir að snúast mikið lengur. Því er þetta áhugaverður kostur fyrir íslendinga að fara að huga að þessum möguleika.

    Ég tek síðan undir með Andra þar sem hann leggur til að Landsvirkjun sjái um að fjármagna þessa framkvæmd en ekki gamla hrunaliðið.

    http://www.powergenworldwide.com/index/display/articledisplay/8363522993/articles/power-engineering-international/volume-18/Issue_6/features/Building_BritNed_the_first_power_link_between_UK_and_the_Netherlands.html

  • Ef þetta á að framkvæma þá verður það að verða á undan svona tækni sem er að koma fram.
    Ef hvert hús fer að á sína eigin rafstöð þá er til lítils að leggja streng.
    http://www.cbsnews.com/stories/2010/02/18/60minutes/main6221135.shtml

  • Grétar Thor Ólafsson

    Hvað með rafmagn til framleiðslu innanlands? Ísland er ekki í alfaraleið hráefna eða afurða til framleiðslu, því þarf orkuverð að vera lægra hér til að fyrirtæki stoppi hér við með hráefni til að fullvinna með innlendri raforku. Við þetta skapast störf.

    Ef þessi vinkill er eyðilagður er útséð með það að tækifærum til iðnaðaruppbyggingar fækkar töluvert, nema ef hráefnið hingað skamma leið og ódýra.

    Áliðnaðaruppbygging væri farin t.d. við þetta. Og það er eiginlega útséð með að Landsvirkjun virkji meira í annað en til beins útflutnings í gegnum streng, fær besta verðið þannig. Á þá að virkja auðlindir þjóðarinnar svo að framleiðnin með rafmagninu fari úr landi? Við yrðum þá komin í það að framleiða einungis hráefni (rafmagn) í stað þess að framleiða fullunnar vörur til úrflutnings.

    Þess má geta að ef einhvern tíma var mikilvægt að fullnýta framleiðnimöguleika okkar til gjaldeyrisaflandi útflutnings þá er það þessa dagana.

  • Einar Solheim

    Reynsla norðmanna var að raforkuverð snarhækkaði. Nú þurfa norðmenn að keppa á markaði um sína orkunotkun, sem þýðir að verðið getur vel sveiflast um 30-50% innan ársins. Hér eru menn hættir að gráta rigningar á haustinn því þannig fyllast vatnsbólin sem skilar sér í budduna með lægra orkuverði. Í fyrra var það sérstaklega slæmt, en þá þurftu norðmenn að flytja inn orku þar sem innlend orkuframleiðsla dugði ekki til.

    Íslendingar þurfa að gera sér grein fyrir afleiðingum þess að fara í alþjóðlega samkeppni með orku sína. Sjálfur er ég skeptískur á þessa hrávöruvinnslu, nema fyrirséð væri að orkuframleiðsla á Íslandi yrði mun meiri en við myndum ná að nýta með innlendri nýsköpun og uppbyggingu.

  • Benzedrin

    Svona smá viðbót: Þegar er búið að virkja alla hagkvæmustu virkjunarkosti á Íslandi. Allt, sem virkjað verður hér eftir, verður mun óhagkvæmara og dýrara bæði hvað varðar framkvæmdakostnað og rekstur. Við þurfum að gera okkur ljóst, að til þess að knýja samgöngur á landi og fiskiskipaflota, þarf orku. Orkuna verðum við í vaxandi mæli að fá með öðrum hætti en frá jarðefnaeldsneyti. Raforku þurfum við sjálf því að nota í vaxandi mæli til ofangreindra hluta, hvort sem við notum hana beint eða með því að framleiða orkubera með raforku. Eins og hér hefur verið bent á eru langir sæstrengir miðað við núverandi þekkingu og tækni, afskaplega óhagkvæmir vegna orkutaps. Það yrði því að virkja ansi stórt til að það borgaði sig að flytja orkuna um streng til Evrópu. Manni sýnist því brýnast varðandi orkumál að gera rammaáætlun um hver orkuþörf okkar sjálfra verður og hvaða möguleika við eigum á að afla hennar innanlands. Í framhaldi af því verða draumar um orkusölu um sæstreng fyrst líklegir til að rætast. Ella sitjum við uppi með það eftir 30 – 50 ár að hafa ráðstafað allri innlendri orku í annað en eigin þarfir.

  • Halldór Á

    Góðar ábendingar hjá þér Andri, sérstaklega að það þarf ekki einhverja útrásartengda víkinga til að tryggja fjármagn til að leggja sæstreng. Markmið þeirra verður jú aldrei annað en að eiga strenginn og hagnast sem mest á honum.

    Með fjórfalt til sexfalt hærra raforkuverð í Evrópu getur svona sæstrengur malað gull. En við verðum að passa okkur að hugsa ekki of smátt. Ekki bara hugsa um að selja umframorku úr kerfinu – sem er yfirleitt 200-300 megawött – eða virkja meira, heldur líka hugsa um að selja frekar orku á háu verði úr landi en nota hana í mengandi stóriðju hér heima. Það er engin spurning að það getur verið hagkvæmt að kaupa upp einhver stóriðjuverin hér – eins og t.d. járnblendið á Grundartanga – loka þeim og selja orkuna á háu verði á uppboðsmarkaði í Evrópu.

    Vegna þess sem Þorsteinn Úlfar talar um hér að ofan, um orkutap á leiðinni, þá er það aðeins 4-5%, sem er vel ásættanlegt. Raforkan fer mjög háspennt um sæstrenginn, sem þýðir mun minna orkutap.

  • Adalsteinn Agnarsson

    Að flytja út rafmagn,er fáránlegt,það er full þörf á öllu rafmagni hér,
    til atvinnu uppbyggingar.

  • Verði sæstrengur lagður út til Evrópska efnahagssvæðisins og Íslands gengu í ESB verður raforkuverð hér að vera sama til neitenda og er á ESB svæðinu sem þíðir að verð á raforku til Íslenskra heimila mun hækka um 300%

    Til að eitthvað að ráði komi út um móttökuenda sæstrengs, sem er yfir 300 km að lengd, þarf að breyta strauminum úr riðstraumi í jafnstraum áður en hann fer inn í sæstrenginn. Eftir því sem strenglengdin er meiri þarf straumflutningsspennan jafnframt að hækka til þess að flutningstöpin keyri ekki úr hófi fram. Þarna stendur hnífurinn í kúnni. Núverandi jafnstraumsstrengir mestu vegalengda, e.t.v. 600 km, eru olíufylltir og pappírseinangraðir. Slíkir þola ekki að vera lagðir á hið mikla dýpi, sem aðskilur Ísland og t.d. Skotland, en þar fer dýpið í a.m.k. 1000 m. Vegalengdin að landtökustað á Skotlandi er um 1100 km.

    Kostnaður við slíkan streng verður gífurlegur, þegar tæknin loks leyfir framleiðslu hans, og töpin verða feiknarleg. Orkusala um slíkan streng mun seint eða aldrei geta keppt við orkusölu til stóriðju, t.d. álvera.

    Og SKAPA ENGINN STÖRF. Nýtum því orkuna hér til iðnaðar , hér vanta atvinnu og mun vanta í komandi framtíð.

    Jafnvel þessi strengur er óarðsamur m.v. núverandi heimsmarkaðsverð á orku, sem markast mest af olíuverði. Afar ósennilegt er, að Færeyingar séu ginnkeyptir fyrir orkukaupum um þennan sæstreng við því verði, sem nauðsynlegt er til að lágmarksarðsemi verði af honum, nema olíuverð hækki verulega.

  • Halldór Á

    Sigurjón – ekki fullyrða svona um orkutapið eða tæknihliðina á sæstrengjum.

    Orkutapið er 4-5%. Spennan í sæstrengjum er 600 til 800 þúsund volt, þess vegna er svona lítið orkutap.

    Nú þegar liggur sæstrengur á milli Ítalíu og Grikklands á 1.100 metra dýpi og þolir það vel. Það er sama dýpi og verður mest milli Íslands og Skotlands.

    Vissulega er dýrt að leggja sæstreng – en markaðir fyrir raforku á meginlandi Evrópu bjóða margfalt hærra verð ein stóriðjan er að borga hér heima. Raforkuverðið stendur fyllilega undir útflutningskostnaðinum og skilar raforkuframleiðendum mun hærra verði en stóriðjan. Fyrir þann pening er hægt að fjárfesta í atvinnufyrirtækjum sem skapa störf og menga minna. Raforkusala um sæstreng skapar mun fleiri störf en stóriðja hér heima, vegna þess að tekjurnar eru einfaldlega svo miklu meiri.

    Heimsmarkaðsverð á raforku hefur lítið með olíuverð að gera, enda er ekkert verið að svissa á milli olíu, vatnsorku, kola, kjarnorku eða vindorku daglega eftir því hvað olían kostar.

  • Halldór Á.
    Upplýsingar frá Iðnaðarráðuneytinu að tap í streng frá Íslandi til Þýskalands sé ca 11%, síðan má reikna með tapi í breytistöðvum í sinn hvorn enda á strengnum (AC/DC-breyti og DC/AC-breyti – raforkan er flutt í strengnum sem jafnstraumur). Það er ekki ósennilegt að samanlagt tap sé 20% frá framleiðanda til kaupanda.

  • Góðar athugasemdir Andri Geir.
    Klárlega þarf Landsvirkjun ekkert á íslenskum fjárglæframönnum að halda. Hvaða kunnáttu eða þekkingu koma þeir með? Skapa þeir einhvert traust?

  • Þrándur

    Varðandi hækkun á rafmagnsreikningi almennings er rétt að benda á:
    *LV er ríkisfyrirtæki sem skilar ágóða til eiganda síns (Ríkisins). Þó svo rafmagnsreikningur hækki eiga því skattar að lækka í staðinn – amk. ef fær fjármálaráðherra stýrir skútunni.
    *Fjármögnunarskilyrði LV ættu að batna við þetta, þar sem orkukaupandinn er ekki einn (eða tveir eða þrír) heldur öll Evrópa. Þannig minnkar mótaðilaáhætta sem senn minnkar áhættu banka. Ergó, lægri vextir. Þetta ætti því að gefa meiri atvinnu, amk. til skamms tíma.

  • Magnús Bjarnason

    Ef af þessu yrði myndu vindmyllur, seltuvirkjanir, lágvarmavirkjanir, sjávarfallsvirkjanir og fleiri orkukostir verða hagkvæmir. Bóndi í á vindasamri jörð með bergvatnsá í löngum firði sem hugsanlega er heitt lind líka verður ígildi olíufursta á skömmum tíma.

    En síðan er það flutningsaðilinn – eigandi strengsins hvað vill hann fyrir sinn snúð? Miðað við hvernig fyrri flutningsaðilar í einokunarstöðu hafa komið fram þá er best að svona strengur sé í eign opinbera aðila – ppp verkefni í mesta lagi.

    Það eru kostir og gallar við þessa hugmynd eins og Einar Solheim bendir á.

  • Sævar Helgason

    Þetta sæstrengsverkefni hlýtur eðlilega að verða á ábyrgð Landsvirkjunar. Tími útrásarvíkinga í sölumennsku á þjóðarauði okkar Íslendinga hlýtur að vera liðnn. Gríðarlegt tækifæri er tengt þessum sæstreng til raforkuflutnings og sölu til a.m.k Bretlands. Ekki veitir þessari þjóð af að hámarka arðinn af orkuauðnum með gjaldeyristekjum. Spennandi tímar. Og takk fyrir góða grein um efnið, Andri Geir.

  • Andri Haraldsson

    Andri Geir-

    Með fyllstu virðingu, þá ertu kominn í einhverja íslenska innansveitarkróníku hérna.

    Það skiptir ekki miklu máli hvaðan þeir hafa vegabréf hafa sem koma að þessari framkvæmd og/eða fjármögnun. Það sem skiptir máli er að fá að málinu hæfa einstaklinga til að tryggja hag þjóðarinnar. Það er að mörgu að hyggja, og ekki síst er mikilvægt að tryggja að áhættan af verkefninu lendi ekki á Íslandi því að hvort heldur er um að ræða opinbera eða einkaaðila, þá er landið ekki nægjanlega sterkt til að vera til þrautarvara fyrir þetta verkefni.

    Til að þetta gangi upp þarf þrjá hluti, og einungis einn þeirra er nokkuð tryggur. Það þarf framleiðslugetu, það þarf flutningsþjónustu, og það þarf kaupendur. Það má gera ráð fyrir að kaupendurnir séu til staðar, þó að engan vegin megi teljast víst að verðið verði alltaf það sem óskað er eftir.

    Þar sem verkefnið gengur einungis upp ef stöðug og trygg framleiðsla er fyrir hendi, er ljóst að um meiriháttar virkjanafjárfestingu væri að ræða. Slík fjárfesting er ekki réttlætanleg nema þeir aðilar sem sinna flutningsþjónustunni séu traustir. Þeas. það má ekki vera nein áhætta að flutnigsaðilinn geti ekki tekið við allri þeirri orku sem Ísland er að fara að framleiða í verkefnið, eða að flutningsaðilinn rúlli yfir við minnstu vandræði, eða klári aldrei sinn hluta af verkefninu.

    Fyrir utan svo fjármögnunar og rekstraráhættu, þá er ekki enn komið svar með tæknilegu hliðina– er þetta verkefni raunhæft? Hversu mikið orkutap má til dæmis reikna svo að þetta sé arðbært?

    En eftir stendur að það er engin ástæða til að byrja á því að spyrja um vegabréf. Það sem þarf að spyrja er miklu einfaldara: er ástæða til að ætla að íslensk stjórnvöld geti stýrt því flókna verkefni sem væri þátttaka landsins í þessu?

    Það þarf ekki að vera ofsóknarbrjálaður til að efast um það, miðað við hvernig íslenska stjórnkerfinu hefur haldist á málum til þessa. Fyrsta ábyrgð íslenskra stjórnvalda er að setja markmið um þátttöku sem byggjast m.a. á því að íslenska þjóðin sitji ekki uppi með fjármögnunaráhættu á virkjunum, flutningsmiðlun, eða sölu — nema tryggt sé að greiðsla komi fyrir hverja framleidda kílówattstund. Það þýðir að rentan verður frekar lág (þeas., þeir aðilar sem koma að verkefninu og taka áhættuna munu krefjast meiri hagnaðar eftir því sem íslendingar vilja vera öruggari með sitt) — en það er staðan sem þjóðin er í vegna fíflaskapar síðustu áratuga: hún hefur ekki efni á að taka áhættu.

    En það væri mjög gagnlegt að fá upplýsingar um tæknilegu hliðina á málinu áður en haldnar eru ræður og veislur um hversu góð framtíðin í þessu er.

  • Gísli Ingvarsson

    Það er rétt að norskir neytendur finna fyrir hækkuðu raforkuverði á álagstímum á vetrum. Það kemur á móti að hagnaðurinn er mikill samfélagslega og það hvetur til betri orkunýtingar og sparnaðar. Ég er mjög fylgjandi því að sæstrengshugmyndin verði skoðuð ofan í kjölinn.

  • Sæll Andri og takk fyrir góða grein.
    Þótt maður sé að mestu fylgjandi því verkefni að leggja sæstreng þá verður að huga að því að innlendir orkukaupendur munu aldrei verða samkeppnisfærir að bjóða í orku á móti stórum orkukaupendum í Evrópu þar sem m.a. stendur til að niðurgreiða umtalsvert græna orku. Þetta yrði alls ekki bara erfiður biti fyrir stóriðjufyrirtækin að kyngja, þetta myndi koma við pyngju lítilla og meðalstórra fyrirtækja ásamt pyngju alls almennings.
    En það sem þú nefnir um að halda útrásarvíkinum fyrir utan, mæltu manna heilastur. Þeir hafa ekkert í þetta verkefni að gera. Tölum bara hreint út um hlutina.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur