Sunnudagur 21.11.2010 - 11:30 - 16 ummæli

Danir ná sér í Össur

Það ætlar að taka nokkrar aldir í viðbót fyrir Íslendinga að átta sig á Dönum.  Engin þjóð þekkir Íslendinga betur en okkar gömlu nýlenduherrar og líklega þekkja þeir okkur betur en við sjálf.  Þar njóta þeir fjarlægðarinnar frá Íslandi, nálægðarinnar við meginlandið og samskipta sinna við aðrar þjóðir.

Við, á hinn bóginn erum eins og þrjóskur afdalabóndi sem aldrei hefur komið allsgáður í kaupstaðinn en telur sig vita allt betur en fólkið á mölinni.  Kaupmaðurinn er kurteis og fámáll en skenkir vel í brennivínsglasið um leið og þeir skála fyrir fósturjörðinni og undirrita ýmsa kaup- og sölusamninga.  Bóndinn er svo alsæll í sinni visku um að hann sé að selja á topp prís og gera reyfarakaup hjá kaupmanninum að hann leggur jörðina undir enda áhættulaust að kaupa á krít!

Nú þegar við sjáum á eftir eina ljósinu í íslensku kauphöllinni og best rekna fyrirtækinu þar, Össuri, til okkar gömlu höfuðborgar, Kaupmannahafnar, er rétt að staldra við og spyrja sig hvort við höfum gengið til góðs götuna fram eftir vegi.  Íslenskt fullveldi og sjálfstæði virðist ekki hafa breytt því lögmáli að Danir fara létt með að selja okkur eignir á yfirprís og ná sér síðan í okkar silfurborðbúnað á slikk.

Þeir sem stóðu fyrir sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld héldu margir því fram að efnahagslegt sjálfstæði væri forsenda pólitísks sjálfstæðis.  Þetta eru engin ný sannindi, en það sem Íslendingar virðast aldrei hafa gert sér grein fyrir er hvað er undirstaða efnahagslegs sjálfstæðis?  Eins og afdalabóndinn vorum við of þrjósk til að læra af Dönum hvernig kaupin gerast á eyrinni.

Afleiðingarnar eru allsstaðar að finna í okkar þjóðfélagi í dag.  Í stað þess að horfast í augu við staðreyndir, spyrja og læra, trúum við innst í okkar hjarta að hinn gamli íslenski afdalabúskapur skili okkur í höfn, í orðsins fyllstu merkingu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Þú einfaldar klárlega hlutina hér um of.
    Raunar er hér ekkert plott í gangi. Klárlega vilja Íslendingar hasla sér völl þar sem þeir þekkja vel til.
    Norðurlandabúar þar með Norðmenn, Svíar og Danir gjörþekkja okkur. Það er ekkert norrænt fé í íslensku bönkunum. Það var raunar búið að skrifa um þessi krosseignatengsl fyrirtækja og banka á Íslandi þegar árið 2006 á norrænum viðskiptasíðum og raunar var fjallað um hringstreymi fjármags. Við vorum vöruð við en hlustuðum ekki.
    Raunar hefur ætíð verið farið með okkur með silkihönskum af norrænu þjóðunum. Td. greiða Norðmenn nánast allan kostnað við EFTA þanning að þar erum við gratísfarþegar.

    Noregur er fámennast en efnahagslega öflugast og hefur markvisst unnið að því að styrkja áhrif sín inn í Evrópu. Þeir hafa gríðarleg sambönd við Pólland og önnur lönd í gegnum styrki og þetta hefur markvisst verið byggt upp. Núverandi utanríkisráðherra Jonas Gahr Støre http://no.wikipedia.org/wiki/Jonas_Gahr_St%C3%B8re sem verður að óbreyttu næsti formaður Verkamannaflokksins er eindreginn stuðningsmaður EBS. Hann er raunar almælandi á frönsku og í raun menntaður Institut d’études politiques de Paris. Auk þess að tala þýsku reiprennandi og ensku enda menntaður í hefur ma. kennt við Harvard Law School.

    Raunar er Svíþjóð og Noregur að mörgu leiti að bráðna saman. Það er gríðarlegir fólksflutningar inn í Noreg frá Svíþjóð enda er gríðarlegt samband á milli þeirra á öllum sviðum stjórnsýslunar. Þetta er eitt orkusvæði og sameiginlegur markaður með rafmagn yfir landamærin. Það eru meira að segja sameiginleg viðbrögð við slysum þar sem sjúklingar eru fluttir milli sjúkrahúsa báðum megin við landamærin við alvarleg slys. Það eru sameiginlegar heræfingar og í raun er Noregur hálfgerður aðili að ESB í gegnum Svíþjóð. Það er sameiginlegt sjónvarpsefni og vinsælasti viðræðuþáttur á besta tíma er sendur á föstudagskvöldum í gengum sameiginlega sendingu frá sænska ríkissjónvarpinu með Norðmanninum Fredrik Skavland og það er á svorsku (sænsk-norsku).

    Eins og margoft hefur verið bent á er stærsta ógnunin við Ísland fólksflutningar til Noregs enda munum við ekki geta keppt við Noreg í lífsgæðum, efnahag eða velferðarkerfi.

    Norðmenn gjörþekkja okkur og í raun kæmi mér það ekki á óvart að Ísland yrði að óbreyttu fylki í Noregi eftir 20-30 ár og það innan EBS.

  • Fyrir alþjóðleg fyrirtæki, eins og Össur, Actavis og Marel, hlýtur að vera óeðlilegt og óhagkvæmt að hafa höfuðstöðvarnar á Íslandi.

    1% af tekjum Össurar eru á Íslandi.

    Bara ferðakostnaður við hafa höfuðstöðvar á eyju í Norður Atlantshafi er nægur til að flytja þær til meginlands Evrópu eða USA. Af hverju á fyrirtæki sem hefur starfsemi sína og 99% af viðskiptamönnum sínum annars staðar en á Íslandi – að vera á Íslandi?

    Er það ekki einhver misskilin þjóðernishyggja?

    Tala nú ekki um með stjórnvöld sem hækka alla fyrirtækjaskatta sem þau ná í – og setja auðlegðarskatt (!) á hluthafana.

    Össur er uppbyggt af mörgum öflugum dótturfyrirtækjum – sem hvert fjármagnar sig í sínu landi. Lánadrottnar Össurar horfa á sjóðstreymi og efnahag Össurar þegar þeir ákveða að lána félaginu fjármuni.

    Icesave skiptir akkúrat engu máli um fjármögnun Össurar.

    Hitt er satt að íslensk króna gengur ekki sem gjaldmiðill. Það er komin næg reynsla á það – og Íslendingar þurfa betri gjaldmiðil, þó ekki væri til annars en að geyma verðmæti betur en krónan gerir.

    En að blanda Icesave í alla hluti er tóm vitleysa. Eins og eitthvað mundi lagast við að borga 60 milljarða til Breta og Hollendinga. Það eina sem mundi gerast, er það augljósa, þ.e. við yrðum 60 milljörðum fátækari (skuldugri).

    Enda ert þú nú farinn að bæta við að þjóðin þyrfti líka að ganga í ESB – til viðbótar því að borga Icesave…!

    Það heitir að elda naglasúpur – og naglinn er Icesave.

  • Ómar Kristjánsson

    Common, því miður þá er það þannig að þú skilur þetta ekki og hefur aldrei gert og munt aldrei gera, augljóslega.

    Icesave snýst um að standa við alþjóðlegar skuldbindingar landsins.

    Ertu með eitthvað álíka dæmi um Evrópuríki á seinni tímum, sem hefur ekki staðið víð álíka alþjóðlegar skuldbindingar? Og til að þrengja málið, td. þar sem EES samningurinn hefur verið mölbrotinn á þann hátt gagnvart réttindum einstaklinga? Nei, hélt ekki!

    Þær upphæðir sem um er að ræða þarna, eru í raun smáaurar – miðað við skaðakostnaðinn sem verður af fíflaganginum og óheiðarleikanum sem innbyggjarar viðkomandi ríki sýna af sér.

  • Það er einmitt málið, þegar menn og fyrirtæki eru komin með allt sitt erlendis skiptir Icesave engu máli.

    Össur mun þrífast miklu betur og skila hluthöfum meiri arði í danskri lögsögu og innan ESB en upp á íslenskum Icesave klaka. Þetta snýst ekki aðeins um aðgang að lánsfé heldur líka tiltrú og taust.

    Hitt er rétt að auðlegðarskatturinn bætir ekki ástandið og mun ýta öllum öflugum frumkvöðlum úr landi. Það er engin tilviljun að Sarkozy er farinn að tala um að leggja eingnarskatt af í Frakklandi til að örva atvinnulífið.

    Samblanda af óleysu Iceave, óntýtir krónu, lokuðum fjármálamörkuðum nema á okurvöxtum, auðlegðarskatti, pólitískum óstöðuleika og þokukenndri framtíðarstefnu gerir Ísland ekki aðlaðandi hvorki fyrir fólk eða fyrirtæki.

    Gunnr,
    Auðvita er þessi færsla einföld í uppsetningu en stundum þarf að tala í einföldu máli til að fólk setji hlutina í samhengi og komist að rót vandans.

    Það er alveg rétt hjá þér að Danir hafa aldrei verið með neitt plott gagnvart Íslendingum, eins og margir Íslendingar halda. Þeir þurfa þess ekki, þeir geta alltaf reitt sig á að Íslendignar klúðri hlutunum.

  • Björn Kristinsson

    Andri ég er ekki alveg að kaupa þessa myndlíkingu hjá þér. Held að það sé hollt okkur öllum að horfa til þess að Ísland, eins og við þekkjum það, er í reynd yngra en 50 ára. Berið þjóðfélagið í dag og það var fyrir 50 árum. Það er hollur samanburður.

    Það er augljóst að það hafa orðið hér grundvallarbreytingar. Við getum haft skoðanir á þvergirðingshætti en við eigum að tala af sanngirni. Þótt við höfum ekki sömu skoðun á þeim álitaefnum eins og Icesave og ESB þá er það heilbrigt.

    Danir hafa gert sín stóru mistök. Það höfum við einnig gert. Ég hef meiri trú á þjóðinni en svo að það sé sanngjarnt að líkja henni við afdalabónda, með allri virðingu fyrir þeim.

    Það eru erfiðir tíma hjá þjóðinni í mörgum skilningu. Lausn á einu álitaefni leysir ekki okkar vanda. Það er augljóst. Vandi okkar eru miklu margræðari en svo, það er hins vegar efni í annan pistil Andri.

  • Björn,
    Þessi færsla hefði nú þurft meiri tíma til að gerjast, skrifað svolítð á hlaupum.
    Það er rétt að vandamálin á Íslands eru mjög margslungin og flækjustigið hátt.

    Það eru auðvita gríðarlegir möguleikar á Íslandi en fólk hefur ekki endalausa þolinmæði, við verðum að fara að virkja fleiri til að koma með hugmyndir og hrinda heimatilbúnum hrindunum úr vegi.

  • Klárlega er það sorglegra en tárum taki hvernig málum hefur verið klúðrað á Íslandi og það virðist ekkert vera að batna. Það er hugsanlega loksins að renna upp fyrir hluta þjóðarinnar hversu ofboðsleg vandræði við höfum álpast í og þar er engin leið auðveld til baka.

    Einfaldasta leiðin til að sameina þjóðir er oft að finna einhvern sameiginlegan óvin og það hafa sumir nú fundið með Hollendingum og Bretum. Aðrir hafa fundið Dana, sumir Evrópubandalagið. Aðrir eru reiðir Bandaríkjamönnum fyrir að hafa misst áhugan á okkur.
    Herforingastjórnin í Argentína fór í stríð við Breta út af Falklandseyjum til að sýna fram á styrk sinn eins og frægt er. Þessar eyjar væru núna argentíska ef þeir hefðu látið það ógert.

    Raunar held ég að mesta átækið til að snúa þjóðarskútunni í rétta átt liggur í raun undir okkur sjálfum. Það kemur ekki meiri aðstoð við okkur. Það hefur enginn sérstaklega miklar áhyggjur af okkur eins og sumir hafa þráklifað á þá erum við frjálst og fullvalda lýðræðisríki og við getum fengið óáreitt að klúðra miklu. Við eru í efnahagslegu tilliti orðin ósýnilegt rykkorn. Það er fólk drepið vegna skoðanna sinna og vegna hörundslits/trúar á hverjum einasta degi og það deyr fólk úr hungir á hverri einustu mínutu.
    Við erum sjálf búin að skjóta okkur í fótinn og við viljum ekki horfast við þá efnahagslegu staðreynd að Ísland er ekki lengur norrænt velferðarkerfi. Því miður við höfum ekki ráð á því lengur og því fyrr sem við gerum okkur grein fyrir þeirri staðreynd því auðveldara verður að komast á fætur aftur. Klárlega þarf að fleyga burtu 1/3 af ríkisútgjöldunum nú þegar og meira ef það verður beðið með það.
    Já við þurfum nánast að tvöfalda þjóðarkökuna ef við ætlum okkur að vera samkeppnishæf við hin Norðurlöndin. Þessi óþægilega staðreynd kemur til með að renna upp fyrir þjóðinni smám saman.

  • Rétt hjá þér Ómar.

    Skil ekki hvernig 60 milljarða viðbótarskuld fer að þvi að bæta skuldastöðuna og bæta lánsfjárhæfi landsins.

    98% skildu ekki hvernig 300 til 400 milljarða skuld mundi gera það á sínum tíma.

    En þú vissir það strax!

    Og þeim sömu 98% fannst það ósanngjarnt og óeðlilegt að íslenskur almenningur væri látinn greiða skuldir falllinna einkafyrirtækja í útlöndum.

    En þér hefur alltaf fundist það sanngjarnt. Enda sanngjarn maður – ef ekki örlátur.

    En við – þessi 98% – erum auðvitað úti að aka í sjalla áróðrinum miðjum.

    Því – eins og þú segir – við skiljum hvorugt.

    Bömmer.

  • Ómar Kristjánsson

    Nú er það vitað að sjallaflokkur er ekki í rónni nema hann ráði mestallri fjölmiðlum í landinu hérna eða sé í kallfæri við ráðamenn á fjölmiðlum til áhrifa ef mikið likur við o.s.frv. Þetta er bara staðreynd sem óumdeild er núna.

    Þá spyr maður sig: Eru einhverjar líkur til að sjallar munu láta umræðu á interneti afskiptalausa? Eg held ekki. Eg held að fyrst þeir hafi sýnt slíka hörku varðandi hefðbundna fjölmiðla – þá séu bara talsverðar líkur til að þeir muni reyna að hafa áhrif á netumræðu, sveigja og beygja, rugla og trölla etc.

    Það gæti þá skýrt allan fjöldann af sjallatröllum sem birtist í mörgum tilefnum í netumræðum.

  • @Common
    Þessi Icesave umræða er föst í sömu hjólförunum og það eru hjólför stöðnunar.
    Raunar getur þú litið á það að í árslok 2011 mun íslenska ríkið skulda 1250-1300 miljarða (án Icesave ef niðurskurðarferlið tekst)
    Það sem stendur út af Icesave skuldbindingunni er 40-60 miljarðar.
    Iceave verður innan við 4% af heildarskuldum ríkisins og það verða vaxtagjöld af þeirri upphæð sérstaklega ef þetta heldur áfram sem koma til með að drepa okkur.
    Raunar hefur rekstur ríkisins verið með halla upp á 3-4 falda Icesave skuldbindingu á hverju einasta ári og kostnaðurinn vegna gjaldþrots Seðlabankans nam um 300 miljörðum.

    Hver vaxtaprósenta af 1250-1300 miljörðum gerir 12,5-13 miljarða á ári
    Hver vaxtaprósenta af 40-60 miljarða gerir 400-600 miljónir á ári. Icesave samkomulagið verður ekkert annað en vaxtakarp.

    Þessar tölur setja þetta mál í nokkuð efnahagslegt samhengi. Ríkið er varla lánshæft og það verður gríðarlega erfiður róður að endurfjármagna 1300 miljarða skuld. Það að ríkið skuli ekki vera nú þegar verið rekið hallalaust eru hreint gríðarleg hagfræðileg mistök.
    Fólk gleymir sér við að ræða 4% skuldarinnar en gleymir hinum 96% segir kanski allt sem segja þarf um hugarheim sumra Íslendinga.

  • Comon,
    Það skiptir engu máli hvort 98% eða 100% eru á móti Icesave, það eru erlendir aðilar sem ráða okkar lánsmati og ákveða hvort við fáum erlend lán og á hvaða kjörum við getum endurfjármagnað. Ef þessir aðilar ákveða að við eigum að borga Icesave og að aðeins þannig fáum við aðgang að þeirra sprarifé þá er það þeirra mál en ekki Íslendinga. Ef við segjum nei þá verðum við að betla fé af spekúlötum og sætta okkur við þeirra okurkjör. Það er ekki hægt að reiða sig á AGS og hin Norðurlöndin um alla framtíð. Á einhverjum tíma verður Ísland að fara út á hinn alþjóðalega fjármálamarkað og þar gilda reglur sem Íslendingar, Írar, Portúgalar, Grikkir og Ítalir hafa ekkert með að segja.

    Þetta er hinn kaldi raunveruleiki hins kapítalíska heims sem AGS hlífir okkur við að sinni. En hversu lengi og hvað tekur við þá? Að halda að íslensk þjóðaratkvæðisgreiðsla leysi málið er barnalegt.

  • Hjalti Atlason

    Meðferðin á almenningshlutafélögum sem hafa verið kauphöllinni er slík að það ætti að vera búið að loka henni.
    Eftir að dómstólar kvittuðu uppá allan stuldin út úr Baugi þá hefur í raun verið allt leyfilegt í almenningshlutafélögum. Þau eru látin kaupa hluti á yfirverði og selja á undirverði til félaga tengdum stærstu hluthöfum. Það virðist einfaldlega vera svo mikil spilling á Íslandi að við getum ekki rekið kauphöll. Það kemur því ekki á óvart að heiðarlega félög vilja ekki láta spyrða sig við þessa svikahöll.

    Það sem Danir hafa fram yfir okkur að þeir eru lausir við náttúrauðlindir. Í löndum með miklar náttúrauðlindir þá hættir mönnum til að einblína á þær sem einu atvinnusköpunina og gleyma því að við búum á 21 öldinni. Samber síðast innlegg í bloggi Agnars, um hvað allt væri hér á heljarþröm, ekkert hægt að virkja vegna Icesave.

  • Ómar. Ja – hérna, eru sjallarnir að tjá sig. Það gat nú verið. Er ekki bara hægt að banna það – svona eins og súludansinn og vændið.

    Sagðist ekki foringinn ætla að setja á fót netlöggu..?

    Gunnr. Skiptir bara engu máli hvernig staðan er. Þó svo ríkissjóður væri skuldlaus með öllu – ætti hann ekki að borga Icesave. Þess þá heldur ef hann er skuldugur upp fyrir haus. Skil ekki þessa útleggingu hjá þér um að staðan sé svo slæm að Icesave skipti engu máli.

    Svona eins og einstaklingur sem skuldar svo mikið að sumarfrí til Kanarí breyti ekki öllu..! Jafndauður.

    Andri. Af hverju geta Írar ekki tekið lán á alþjóðlegum lánamarkaði (nú skulda þeir ekkert Icesave)? Það skyldi ekki vera vegna of mikilla skulda ríkisins.

    Eða Grikkir, Portúgalar, Lettar o.s.frv.

    Staðreyndin er sú að þeir fá lán á alþjóðlegum lánamörkuðum sem eru líkegir að geta greitt þau til baka. Kjörin hækka svo eftir því sem líkurnar á greiðslufalli aukast.

    Hvernig í ósköpunum getur það hjálpað lánshæfi Íslendinga að taka á sig óþarfa skuldir..?

    Ekki nema að alþjóðlegir lánamarkaðir séu breska ríkið eða það hollenska, sem ég hélt að væru ekki í lánastarfsemi.

    Þessi rökstuðningur er í mótsögn við heilbrigða skynsemi – að 98% af þjóðinni skilur ekki samhengið. Þið sem fyllið þessi tæp 2% ættuð kannski að velta því fyrir ykkur hvernig standi á því að 98 af hverjum 100 finnast rökin ykkar vera húmbúkk!

  • Comon,
    Írar skulda sitt Icesave en þeir hlaupa ekki í burtu frá sínum skuldum eins og Íslendingar. Yfirlýsing um að Ísland geti ekki borgað Icesave vegna skuldastöðu sinnar jafngildir greiðslufalli. Það er það sem fjármálamarkaðurinn er að bíða eftir. Ef það er staðan er best að lýsa yfir greiðslufalli og semja um allar skuldir landsins, fara Argentínu leiðina. Það verða ekki endalok Íslands en næstu 10-15 ár verað ansi erfið og niðurskurðurinn í dag er hreinn barnaskapur sem tekur við ef við förum þá leið.

    Erlendir fjármálamarkaðir spyrja: a) geta Íslendingar ekki borgað Icesave eða b) vilja þeir það ekki? Er ekki kominn tími til að svara?

  • Andri.

    Þú svaraðir ekki spurningunni. Af hverju fá Írar ekki lán á alþjóðlegum fjármálamörkuðum (fyrst þeir skulda ekkert í Icesave og eru meira að segja í ESB með evru og allt saman)..?

    Og fá hvergi lán..!

    Svarið er auðvitað það sama og á við um Ísland. Ríkið er orðið of skuldsett miðað við tekjur. Að sú staða lagist hjá Íslendingum með því að skuldsetja ríkið meira – er auðvitað bara barnaskapur.

    Þín spurning er ansi gildishlaðin. Erlendir fjármálamarkaðir spyrja…

    Eins og þeir þúsundir banka út um allan heim sem mynda alþjóðlegan fjármálamarkað sé einn gaur á götuhorni í City. Þeir eru ólíkir, í mikilli samkeppni sín á milli og spyrja örugglega langflestir ekki um Icesave.

    Að krafa sé á íslenska ríkið frá Bretum og Hollendingum um greiðslu á Icesave er klárlega ekki hjálpleg – en skuldin væri auðvitað verri.

    Svo er þessi áróður um að Icesave sé skuld íslensks almennings orðinn dauðþreyttur. Í versta falli er mikil lagaleg óvissa um Icesave og afar ósanngjarnt að leggja málin þannig upp eins og um lán hafi verið að ræða til Íslendinga, sem þeir ætli ekki að endurgreiða (ólíkt Írum).

    Það er eitthvað svo Gordonslegt..

  • Of flott grein hjá þér Andri, aðeins menn sem búið hafa erlendis geta skrifað svona vel.

    Simon

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur