Föstudagur 17.12.2010 - 11:16 - 3 ummæli

Húsnæðisvextir upp í 6%?

Það er athyglisvert að bera saman nýleg skuldabréfaútboð Íbúðarlánasjóðs og OR.  Vegnir vextir hjá ÍLS voru 3.60% en OR birtir vaxtakjör upp á 4.65% verðtryggt (nú er þetta ekki alveg sambærilegt þar sem ég hef ekki ítarlegar upplýsingar úr uppboðunum).  Ávöxtunarkrafa fjárfesta er líklega um 100 punktum hærri hjá OR en ÍLS?    Það er erfitt að rökstyðja þennan mun með skárri fjárhagsstöðu ÍLS, bæði fyrirtækin eru í miklum fjárhagslegum vanda og glíma við hátt skuldahlutfall og lágt eigið fé.

Munurinn liggur í lánshæfismatinu.  Þó munurinn hjá Moody´s sé aðeins einn flokkur er hér um reginmun að ræða.  ÍLS nýtur ríkisábyrgðar og fylgir því ríkinu og er í lægsta fjárfestingarflokki.  OR, hins vegar, er í hæsta ruslaflokki þar sem Moody´s telur vafa leika á að borgin (eða ríkið)  geti komið OR til bjargar ef allt færi á versta veg, enda nýtur OR ekki formlegrar ríkisábyrgðar.

Spurningin fyrir fjárfesta er hins vegar, getur ríkið komið ÍLS til hjálpar ef allt færi á versta veg?  Er ekki líklegt að fjárfestar hjá ÍLS verði að sætta sig við „hárklippingu“ á skuldabréfum?  Líkurnar hafa minnkað, sérstaklega eftir afgreiðslu fjárlaga, að það sé traustur þingmeirihluti fyrir meiri niðurskurði eða skattahækkunum til að bjarga fjárfestum ÍLS.

Það er því margt sem bendir til að lánshæfismat ÍLS sé ofmetið og ætti að vera í flokki með OR.  Þar með myndu húsnæðisvextir hækka upp í 6%  miðað við núverandi vaxtaálag hjá ÍLS.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Sæll Andri Geir. Hvað gerist skv. lögum við greiðslufall OR. Sveitarfélagið er ábyrgt og ef sveitarfélagið fer í þrot þá er ríkið ábyrgt. Með öðrum orðum að lágir vextir kúlulána sveitarfélaga fást ekki endurfjármagnaðir því lögin gera að ég HELD ráð fyrir þessarri keðjuverkun. Þarf ekki að breyta lögum þar sem OR er í raun óbeint að taka lán út á ríkisábyrgð?

  • SAS,
    Þetta er rétt hjá þér enda eru vaxtakjör OR og ÍLS langt fyrir neðan það sem þessar stofnanir þyrftu að borga ef þær væru „sjálfstæðar“. Það sem Moody´s segir í sínum rökstuðningi er að ef allt fer á versta veg verður ákveðin forgangsröð hjá ríkinu varðandi hverjum verði bjargað. Ríkissjóður kemur fyrst, síðan þeir sem eru með formlega ríkisábyrgð og aftast fyrirtæki eins og OR. Það eru ákveðnar líkur að ekki verði hægt að bjarga OR á sama hátt og t.d. ríkissjóði þannið að lánshæfismatið er lægra. Þetta er allt byggt á líkum, ekki af eða á hugsunarhætti.

    Spurningin fyrir fjárfesta ÍLS er að ef ekki er pólitískur vilji að hækka skatta eða auka niðurskurð til að tryggja fulla endurgreiðslu til ÍLS fjárfesta er líklegt að ríkið farið samningaleiðina og „þvingi“ fram hárklippingu á skuldabréfin. Það sem ég er að segja er að líkur á þessu hafa aukist og lánshæfismatið verður að taka þetta með í líkindareikninginn.

  • Sauradraugur

    Nú erum vér afturgöngur ekki nógu fróðar um svona hagfræðilega tæknileg atriði eins og þarna er um að ræða. Hitt finnst oss augljósara, að hæpin staða ÍLS stafi – eins og mörg önnur vandræði þjóðarinnar – frá þeirri vanhugsuðu kröfu ungra framsóknarmanna þegar síðasta samstjórn framsóknar og sjálfstæðisflokka var mynduð og látið var undan þeim með hana, að hækka lánshlutfall ÍLS upp í 90%. Látum nú vera þá reginskekkju að vera með opinbera lánastofnun í þjóðfélagi sem á að vera reist á frjálsri samkeppni. Hitt er augljósara, að slík stofnun á ekki að stuðla að ábyrgðarlausri lánastarfsemi í bóluhagkerfi. Ábyrgar fjármálastofnanir hljóta að leggja áherslu á að það fólk, sem leggur í íbúðakaup á grundvelli langtímalána, sé með a.m.k. 25% eiginfjárframlag, einkum og sér í lagi þegar augljós bóla er á fasteignamarkaði. Ákvörðunin um 90% lánahlutfall ÍLS leiddi til stjórnlausrar samkeppni á þessum markaði með þekktum afleiðingum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur