Þriðjudagur 28.12.2010 - 08:16 - 16 ummæli

Krónan og hagvöxtur 2011

Það er athyglisvert að lesa hagvaxtaspá bandaríska fjárfestingabankans, Goldman Sachs, sem birtist nýlega.  Þar er spáð hagvexti í heiminum á næsta ári upp á 4.6%.  Mest af þessum hagvexti mun koma frá Asíu, Rússlandi og Suður-Ameríku, en í flestum þróuðum hagkerfum er spáð hagvexti yfir 2%, með fáeinum undantekningum.  Þar er auðvita að finna Japan og jaðarsvæði Evrópu sem ekki geta leiðrétt mistök í hagstjórn með gengisfellingum vegna evrunnar.  Stóru hagkerfin í Evrópu, Þýskaland, Bretland og Frakkland munu öll standa sig vel með vöx um og yfir 2.5%. 

En hvað með Ísland sem hefur sveigjanlegan gjaldmiðil sem hefur verið gengisfelldur svo um munar til að „leiðrétta“ samkeppnisstöðu þjóðarbúsins?  Við teljum okkur, jú, standa mun betur en jaðarríki evrulandanna, enda felldum við gengið, settum á höft, felldum bankana og réðumst á ríkishallann – allt eftir formúlu mikilla hagfræðispekinga?  Hvers vegna er þá ekki bullandi hagvöxtur hér?  Af hverju er hagkerfið að dragast saman 2010 og aðeins er spáð 1.9% hagvexti 2011 sem sumir telja bjartsýnisspá enda byggð á uppgangi í einkaneyslu?  Af hverju er Ísland enn í hópi þeirra landa þar sem hagvöxtur er hvað hægastur eftir rúm 2 ár frá risagengisfellingu?  Nei, það er ekki nóg að róma hina sveigjanlegu krónu, við megum ekki gleyma skuggahlið krónunnar sem viðheldur fölskum raunveruleika.  En gjaldmiðilinn er aðeins nauðsynlegt tól, án öflugs skipstjóra sem fylgir skynsamlegri og vel markaðri stefnu mun okkur miða hægt áfram eins og tölurnar sýna.

En aftur að skýrslu Goldman Sachs.  Þar er spáð að olíuverð hækki um 20% 2011 en á móti komi að dollarinn lækki um 13% gagnvart evrunni.  Það má búast við töluverðri hækkun á hrávörum 2011 mælt í dollurum.  En hvernig mun Seðlabankinn „stýra“ genginu 2011.  Ætlar bankinn að fylgja óformlegu evru-viðmiði í kringum 15o krónur evran eða á að tengja krónuna við breiðari myntkörfu?  Getur íslenska hagkerfið tekið á sig yfir 10% lækkun á gengi dollarans niður í 100 krónur?  Hvað ef krónan fylgir dollarnum 2011 og evran hækkar upp í 170 krónur evran?  Hvernig mun þá fara með verðbólgumarkmið bankans?  20% hækkun á bensíni og öðrum hrávörum mun skila sér strax inn í verðlag hér?  Nei, það verður ekki auðvelt að handstýra hagkerfinu 2011 svo vel eigi að fara.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (16)

  • Þorsteinn Úlfar Björnsson

    Það er líka gaman að lesa spá völvu Vikunnar og jafn mikið að marka hana. Alveg eins og veðurspána.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Gengið á krónunni á að stýrast af viðskiptajöfnuðinum en ekki eftir einhverjum ákveðnum gjaldmiðli.

    Þegar búið er að koma jafnvægi á erlenda skuldastöðu landsins á krónan að rokka í kringum núll viðskiptajöfnuð. þannig er hún rétt skráð og lífskjör landsins í jafnvægi.

    Ef við ætlum að hafa krónuna sterkari þannig að viðskiptajöfnuðurinn verður neikvæður erum við að lifa á lánum.

    Gamla reglan er alltaf í gildi. Það má ekki eyða meiru heldur en er hægt að afla.

  • Adda Sigurjónsdóttir

    Það er í raun ekki gjaldmiðillinn sem skiptir máli heldur efnahagsstjórnin. Þegar við höfum náð okkur upp úr þessum hallarekstri ætti að setja í lög einhver ákvæði varðandi hallarekstur ríkissjóðs. Ef menn vilja endilega fara í fastgengi, afhverju þá ekki horfa á körfu t.d. 50% dollar og 50% Evru?

  • Man einhver til þess að hagspá hafi ræst?

  • Jóhannes

    Þórhallur
    Þú ert einfaldlega að lýsa gengisstýringarstefnunni sem stjórnvöld reyndu að fylgja síðari hluta síðustu aldar. Árangurinn þekkja allir enda var horfið frá henni 2001 þegar flotgengisstefnan var tekin upp. Nú hefur flotgengisstefnan beðið alvarlegt skipbrot líka og seðlabankinn sjálfur er óviss um hvernig gengismálum er best háttað með íslenska krónu (sbr nýja skýrslu seðlabankans).

  • Leifur Björnsson

    Athyglisverðar pælingar þú ert mun bjartsýni en Völva vikunnar Andri.
    Sammála Þórhalli um að gengi krónunnar á að stýrast af viðskiptajöfnuðinum ef gengið hefði gert það frá lýðveldisstofnun værum við ekki í þeirri stöðu sem við erum í.

  • Þórhallur Kristjánsson

    Jóhannes,

    Á síðustu öld var sjávarútvegurinn ráðandi í gjaldeyrisöflun landsins. því þurfti að fella krónuna þegar illa áraði í sjávarútvegnum. Í dag eru gjaldeyristekjurnar að koma frá fjórum greinum og skiptist það nokkrunvegin jafnt. þetta eru:

    Ferðamannaiðnaðurinn
    Stóriðjan/Raforkusala
    Sjávarútvegur/matvælaframleiðsla
    Hugverkaiðnaður

    Það þíðir ekki að hafa krónuna það sterka að viðskiptajöfnuðurinn verði neikvæður. því þarf að stilla krónuna af á hverjum tíma þannig að mið sé tekið af viðskiptum við útlönd og þau eiga að vera í jafnvægi.

    Þá eru lífskjörin hjá okkur raunveruleg og akkurat þau sem landið getur boðið upp á.

    Ef fólk er ósátt við þau lífskjör þá er hægt að reyna að efla útflutningsgreinarnar eða sættast við lífskjörin eins og þeu eru.

    í dag er krónan allt of veik. Viðskiptajöfnuðurinn 2010 fer yfir 100 milljarða í plús. Það þíðir að krónan á mikla styrkingu inni. Hinsvegar er nauðsynlegt að hafa krónuna veika eins og hún er í dag eitthvað lengur. Við verðum að greiða gjaldeyrisskuldirnar með útflutningi og þar til jafnvægi er komið á skuldastöðuna þarf krónan að vera veik.

    Góðu fréttirnar eru þær að krónan á eftir að styrkjast smá saman eftir því sem gjaldeyrisskuldirnar minka.

    Hér varð kerfishrun og það tekur tíma að rétta þjóðarskútuna við eftir þannig hrun.

  • Álfurinn

    Ég ætla að opinbera vanþekkingu mína og spyrja eins og álfur út úr hóli, því hér líta við kunnáttusamir gestir, hvað varð um verðjöfnunarsjóð útvegsins sem Gylfi Þonn Gíslason á tíma viðreisnarinnar hafði frumkvæði um að skapa. Liggur ljóst fyrir að þegar miklar sveiflur eru á verði útflutningafurða er skynsamlegt að safna í sjóð til útjöfnunar, nokkurs konar lág-tíðni sía á tekjurnar.

  • Björn Kristinsson

    Krónan hefur ekkert með hagvöxt að gera og þess vegna er þetta samanburður sem gengur ekki upp nema að litlu leyti. Stærsta ástæðan fyrir því að erlend fjármagn leitar ekki svo glatt til okkar er sú einfalda staðreynd að hér varð kerfishrun. Um 14.000 milljarðar IKR féllu á stuttu tíma, tap sem kröfuhafar sitja upp með. Það er morgunn ljóst að eigendur fjármagns eru ekki með gullfiska minni. Því mun taka langan tíma að byggja aftur upp traust.

    Enn frekar má árétta að hagvöxtur verður til vegna væntinga sem endurspegla grunnástand þess hagkerfis sem um er að ræða. Þar koma inn atriði eins og

    pólitískur stöðugleiki,
    framtíðarsýn í efnahagsmálum,
    rekstrarafkoma hins opinbera,
    framlög til nýsköpunar
    skattlagning fyrirtækja og fjármagns
    nýtingarstefna í auðlindarmálum (ef til staðar)
    aðgengi að mörkuðum
    o.s.frv.

    Þetta eru þau atriði sem fjárfestar horfa að stórum hluta til. Eins og staðan er hér á landi þá erum við ekki að skora hátt í neinum tilvikum hér að ofan.

    Við skulum einnig hafa í huga að þótt við hefðum haft EUR fyrir hrun þá hefði það ekki dugað til að bjarga bönkunum. Hrunið var því óumflýjanlegt. Það er hins vegar aðeins sagan sem mun dæma hver besta leiðin hefði verið.

    Ég held að við séum að gera rétt núna Andri. Við erum á réttri leið. Það tekur eðlilega mörg ár fyrir svo lítið hagkerfi að jafna sig á kerfishruninu frá 2008.

    Það er hins vegar rétt að við verðum að finna framtíðarlausn á peningamálum landsins. Menn eru einfaldlega ekki sammála um leiðir og tímasetningu.

  • Áhugaverðar spurningar Andri Geir í upphafi ársins 2011.

    Íslensk króna eftir efnahagshrunið með ótrúlega smæð hins íslenska hagkerfis getur varla verið lífænlegur gjaldmiðill. Hér býr innan við þriðjungur íbúa Gautaborgar og ívið fleirri en í Buskerud fylki í Noregi þar sem Drammen er höfuðstðaurinn. Íslenska hagkerfið verður um 3% af hagstærð Noregs og ef íslensk króna kemst á flot verður það geysilega erfitt og dýrt að halda uppi gengi hennar og það mun þýða vaxtahækkanir sem mun í raun þýða áframmhaldandi samdrátt. Ef og þegar íslensk króna kemst á flot mun hún velkjast á alþjóðlegum mörkuðum enda auðveldur skotspónn innlendra og erlendra spákaupmanna. Þeir sem halda að við getum bundið gengi hennar við Evru eða dollar held ég séu ekki alveg með þær efnahagslegu forsendur enda byggist gengi krónunnar á tilrú og verðmætasköpun hagkerfisins sem er í raun að dragast saman enda þurfum við að dæla fé út úr hagkerfinu til að greiða vexti og afborganir erlendra lána næstu áratugi og erum hinum megin í ryksugunni enda var fé dælt hér inn í hagkerfið sem skapaði þennslu síðasta áratuginn.
    Fólksflótti er að skella á það gerir hann að fullu á næsta ári enda liða oftast 2 ár þangað til fólk fer að huga sér til hreyfings og það mun gera það að verkum að hagkerfið mun dragsat saman og skattaþrýstingur aukast.

    Umræðan um gjaldmiðil og stefnu og samningaferli við Evrópubandalagið ber keim að McCartyisma þar sem við höfum okkar „landráðabrígsl“ og sjálfskipuðu „House Un-American Activities Committee“ http://en.wikipedia.org/wiki/House_Un-American_Activities_Committee eða á ég að segja Un-Icelandic Activities Commitee skipuð hluta VG og einangrunararm Davíðs Oddssonar í Sjálfstæðisflokki.

    Takk fyrir góða pistla á árinu og óska þér gleðilegra jóla!

  • Björn Kristinsson

    Gunnr
    29.12 2010 kl. 01:30 #

    Þetta er allt saman afstæður samanburður á stærð hagsvæða. Hver er stærð sænska hagkerfisins og þess norska miðað við það þýska eða BNA ?

    Ísland:

    VLF / heild: USD 12.1 milljarðar (0.08% af EB)
    VLF / mann: USD 38000
    Mynt: IKR ótengd EUR
    Mannfjöldi: 0.3 milljónir (0.06% af EB)

    Svíþjóð:

    VLF / heild: USD 338 milljarðar (2.2% af EB)
    VLF / mann: USD 36500
    Mynt: SEK ótengd EUR
    Mannfjöldi: 9.3 milljónir (1.9% af EB)

    Noregur:

    VLF / heild: USD 259 milljarðar (1.8% af EB)
    VLF / mann: USD 52900
    Mynt: NOK ótengd EUR
    Mannfjöldi: 4.9 milljónir (1.0% af EB)

    Þýskaland:

    VLF / heild: USD 2800 milljarðar (18.9% af EB)
    VLF / mann: USD 34200
    Mynt: EUR
    Mannfjöldi: 81.8 milljónir (16.4% af EB)

    Evrópusambandið (EB):

    VLF / heild: USD 14800 milljarðar
    VLF / mann: USD 29800
    Mynt: EUR
    Mannfjöldi: 501 milljónir

  • Björn Kristinsson

    Sé að fyrri póstur hefur komið eitthvað ílla út. Formsniðið eitthvað takmarkað á vefnum.

    Staðreyndin er hins vegar sú Gunnr að Svíþjóð og Noregur eru bæði örkerfi sé miðað við EB; Ísland er aðeins stærðargráðu minna.

    Ef Íslandi er eins og Bergen þá má benda á að Noregur er eins aðeins um 70% af London.

    Ef Íslandi er eins og gata í Gautaborg þá má benda á að Svíþjóð er eins og London og nánasta umhverfi.

    Ísland, Noregur, Svíþjóð, Danmörk og Finnland eru allt lítil hagkerfi sé stóra myndin af Evrópu tekin. Að bera einstök svæði saman við heildina er aðeins æfing í lýsingarorðum eins og „lítið“ og „mjög lítið“.

    Ég þreytist ekki á að benda á að umræðan um gjaldmiðil er eitt og á að vera út frá hagrænum stærðum þegar liggja til grundvallar stefnumörkun í lykilmálaflokkum sem sátt er um. Annars missir slík umræða marks.

  • Það eru 5 hlutir sem þurfa að smella saman til að við getum kallast norrænt velferðarríki:

    1. Markviss efnahagsstefna
    2. Öguð hagstjórn
    3. Viðurkenndur gjaldmiðill
    4. Hæfir leiðtogar
    5. Heilbrigt atvinnulíf

    Þetta er auðvita ekki tæmandi listi en sæmileg byrjun.

  • Björn Kristinsson

    Sammála

  • „…Við skulum einnig hafa í huga að þótt við hefðum haft EUR fyrir hrun þá hefði það ekki dugað til að bjarga bönkunum. Hrunið var því óumflýjanlegt…“

    Já, bankahrunið var óumflýjanlegt. En það var ekki bankahrunið sem skaðaði almenning mest heldur gjaldeyrishrunið sem fylgdi í kjölfarið.

    Með evru hefði almenningur sloppið við mest af tjóninu sem fylgdi hruninu. Að því gefnu að sjálfsögðu að ríkið hefði ekki reynt að dæla peningum inn í bankana eins og gert var á Írlandi.

  • Mjog skemmtilegt ad sja ad thad er til stadur eins og thetta blog thar sem enn finnst malefnaleg og vitraen umraeda a Islandi. thad gefur von um ad eg og adrir sem hofum fluid spillinguna eigum von ad hlutirnir lagist naegilega til ad snua aftur til Islands.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur