Mánudagur 28.03.2011 - 11:43 - 36 ummæli

Icesave vinklar

Ég hef ekki bloggað um nokkurt skeið vegna anna.  En nú gefst staður og stund til að hripa niður nokkra punkta um vinkla sem vert er að viðra í þessari dæmalausu Icesave umræðu.

1.  Erlend fjármögnun

Mikið er rætt um hvort niðurstaðan úr Icesave kosningunum muni hafa áhrif á aðgang Íslendinga að erlendum fjármagnsmörkuðum.  Íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn hafa fæstir  mikla reynslu af atvinnurekstri og fjármögnun hans.  Slagorð eins og “peningar fara ekki í fýlu” minna margt á umræðuna um bankana fyrir hrun, þeir gátu ekki hrunið en svo hrundu þeir.  Það er hins vegar einn aðili sem þekkir fjármál Íslands vel og nýtur trausts og trúverðugleika á erlendum fjámálamörkuðum.  Aðili sem allir bankamenn hlusta á og taka mark á.  Þessi aðili skrifar sínar skýrslur á ensku og þær eru öllum aðgengilegar.  Þetta er auðvita AGS.  Menn geta haft sínar skoðanir á þessari stofnun, og hún er alls ekki yfir gagnrýni hafin, en þegar kemur að fjármálum ber AGS höfuð og herðar yfir allar íslenskar stofnanir.

Í fjórðu endurskoðun AGS málsgrein 47, er athyglisverð yfirlýsing sem hljóðar svo:

Staff welcomes the agreement on Icesave. The agreement marks a milestone in Iceland’s emergence from crisis. Under the new terms, Iceland’s public finances will remain on a sustainable footing, and public debt should continue to decline rapidly. The agreement should also help unlock remaining program bilateral financing and bolster market confidence in Iceland.”

Síðasta setningin er sérstaklega umhugsunarverð.  Hvað er AGS að segja hér og hvernig túlka erlendir bankar þessa setningu?  Það er líklegt að menn álykti sem svo að það sé a.m.k. ein ríkisstjórn á hinum Norðurlöndunum sem setur samþykki Icesave samningsins sem skilyrði fyrir frekari lánafyrirgreiðslu.  Nú segja menn hér á landi að það skipti ekki máli, því við þurfum ekki á þessum peningum að halda, en þá eru menn að misskilja hlutina.  Það er óvissan sem er mesti óvinur fjámálamarkaðsins.  Á meðan Icesave er óleyst ríkir óvissa bæði um endanlega fjármagnsþörf íslenska ríkisins og aðgang að mörkuðum til að brúa hana.  Afleiðingarnar sjáum við á forsíðu Morgunblaðsins í dag, Reykjanesbær þarf að borga 7% vexti af lánum sem þeir gátu ekki staðið skil á og þurftu að framlengja.  Þetta eru hærri vextir en Írar þurfa að borga en eru á svipuðu róli og vextir í Portúgal svo varla erum við að koma betur út en jaðarlönd evrusvæðisins hvað varðar raunveruleg vaxtakjör.

Ef Icesave verður fellt má búast við að vaxtakrafan á erlend lán (ný, framlengd og endurfjármögnuð) til íslenskra aðila muni hækka enn frekar.  Til að mæta slíkri hækkun þarf að hækka skatta og gjöld (t.d. gjaldskrá OR), skera niður og takmarka launahækkanir (eða flytja úr landi eins og Össur).  Þá þarf að styrkja gjaldeyrisforðann og það verður varla gert nema með enn meiri höftum.  Innflutningshöft munu verða rædd, sérstaklega á lúxusvörur.  En ef það dugar ekki til og höft, skattar og niðurskurður eru orðin of sársaukafull er til leið sem verður næstum ómótstæðileg og það er að “þjóðnýta” erlendar eignir lífeyrissjóðanna.  Ef mönnum finnst hræðsluáróðurinn kominn út í öfgar, bendi ég á að Argentína fór svona leið 2008.  Washington Post lýsti þessu á eftirfarandi hátt:

The proposal by President Cristina Fernández de Kirchner last month to nationalize about $25 billion in private pension funds provoked an outburst of criticism that the government was seizing retirement savings for cash to shore up its finances. But after 12 hours of deliberation Thursday, Fernández de Kirchner’s plan was approved 46 to 18 by senators who argued that the private pension system never served the country well.”

2.  Skuldir einkafyrirtækja

Hornsteinn þeirra sem eru á móti Icesave samningnum er að ríkinu beri ekki að tryggja skuldir einkaaðila.  Flestir geta verið sammála þessari staðhæfingu, en hún á illa við um Icesave og íslensku bankana, sérstaklega í ljósi neyðarlaga Geirs Haarde.

í hruninu tryggði íslenska ríkið innlendar skuldir hinna föllnu einkabanka en ekki erlendar skuldir.  Þetta þótti útlendingum mismunun.  Þeir hefðu getað sætt sig við orðinn hlut aðeins ef ríkið hefði ekki tryggt innlendar skuldir bankanna.

Það má ekki gleymast að sparifé í bönkum er flokkað sem skuldir á efnahagsreikningi þeirra.

Þá segja margir erlendir aðilar að rök Íslendinga, um að Icesave komi ríkinu ekki við, veik.  Bankar í flestum löndum starfa ekki eins og hverjar aðrar einkasjoppur.  Þeir starfa með leyfi og undir eftirliti ríkisins.

Það er sérstaklega athyglisvert að þeir sem berjast harðast á þessum nótum stóðu einmitt í brúnni þegar innlendar skuldir einkabankanna voru ríkistryggðar.  Þetta myndi nú einhverntíma hafa vera kallað: tvískinnungur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (36)

  • Icesave flokkarnir vilja skrifa undir 650 ma IOU og koma skuldbindingum ríkissjóðs yfir 2000 ma múrinn. Mér, AGS ofl. finnst það of mikið, óþarft og hættulegt. Þetta eru sama aðferð og beitt var á Írlandi og þar er þjóðfélagið í sárum vegna ábyrgðarlausrar IOU stjórnmálamennsku. Það eina sem Írar huggað sig við þessa dagana er að íslendingar eru skuldalega verr settir. Kópavogsbær er í sárum vegna 47 hæða turnbyggingar ofl., Reykvíkingar vegna Orkuveitunnar og Áltnesingar vegna sundlaugar á gjaldeyrislánum. Er ekki komið nóg að þessu rugli eða hvað þarf meira til?

    Síðustu vikur hefur m.a. komið fram að salan á FIH stendur ekki undir því veði sem Seðlabankinn tók (-40 ma) og að Íbúðalánsjóð vanti allt að 47 ma. Tæpir 90ma tap er „óvænt“ að koma í ljós. Fyrir utan óleystann fjárlagahallann og lægri hagvaxtaspár. Það er óskiljanlegt hvernig fólki dettur í hug að ekkert „óvænt“ sé í framundan í uppgjöri Landsbankans. Hvað er t.d. markaðsvirði NIB skuldabréfsins á alþjóðamörkuðum þessa dagana?

    Hér er látið að því liggja að e.t.v. séu í gangi einhver skilyrði (þvinganir) á bakvið tjöldin. Er þá ekki mál til komið að þessi skilyrði séu upplýst áður en gengið er kosninga?

  • Andri Sigurðsson

    Tökum plásturinn af, segjum NEI við Iceslave.

    ATH að margir þeirra sem eru á móti hótunum gömlu nýlenduveldanna og kæra sig ekki um að kok-gleypa skuldir siðlausra skrúðkrimma eru einmitt ekki hægrimenn heldur venjulegt fólk sem er komið með fokking nóg af stjórnunarstéttinni og handónýtu bankakerfi, spilltum seðlabönkum og fólki sem vinnur hjá erlendum fjármálastofnunum.

    Látum bankana greiða Icesave skuldina, vextina líka.

    Fuck off, sincerely.

  • Sigurður Sigurðsson

    Staðan er semsagt sú að sama hvernig sem við snúum okkur þá koma íslenskir skattgreiðendur til með að borga fyrir helv. bankabófana. Takk Landsbanki íslands kærlega fyrir og gangi ykkur vel í ímyndarherferðinni sem samfélagslega þenkjandi fjármálastofnun.

  • Svartháfur

    Íslenska ríkið gerði það sem það gat til að tryggja innstæður bæði hérlendis og erlendis, með neyðarlögunum.
    Bretar og Hollendingar fá miklu meira í sinn hlut en þeir hefðu fengið án neyðarlaganna.

    Já og svo lækkaði skuldatryggingarálag á Íslands eftir síðasta NEI.

  • Þórhallur Jósepsson

    „Hornsteinn þeirra sem eru á móti Icesave samningnum er að ríkinu beri ekki að tryggja skuldir einkaaðila. Flestir geta verið sammála þessari staðhæfingu, en hún á illa við um Icesave og íslensku bankana, sérstaklega í ljósi neyðarlaga Geirs Haarde.

    í hruninu tryggði íslenska ríkið innlendar skuldir hinna föllnu einkabanka en ekki erlendar skuldir. Þetta þótti útlendingum mismunun. Þeir hefðu getað sætt sig við orðinn hlut aðeins ef ríkið hefði ekki tryggt innlendar skuldir bankanna.“

    Þarna sýnist mér þú farir ansi frjálslega með. Með neyðarlögunum voru bankainnistæður gerðar að forgangskröfum í þrotabú banka. Neyðarlögin tryggðu ekki innistæður. En, það að gera innistæður að forgangskröfum tryggir meðal annars að eitthvað (eða allt?) fæst upp í Icesave kröfurnar, sem annars hefði ekki orðið.
    Forsætisráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, gaf hins vegar út yfirlýsingu um að innistæður á Íslandi væru tryggðar. Deila má um hvort það hafi verið skynsamlegt að hafa yfirlýsinguna svo almenna og ekki þak á fjárhæð tryggingarinnar fyrir hvern innistæðureikning, en ótvírætt er að hún á við innistæður á Íslandi, ekki íslenskar innistæður.
    Þetta er í fullu samræmi við reglur Evrópusambandsins þess efnis að ríki er heimilt við mjög sérstakar aðstæður (force majeur) að víkja meginreglum til hliðar til að tryggja öryggi samfélagsins. Þetta má gera tímabundið og svæðisbundið, jafnvel takmarka við tiltekið svæði innan ríkis.
    Vel má vera að einhverjir útlendingar geri athugasemdir við yfirlýsinguna, telji hana vera mismunun á grundvelli þjóðernis. Þeim verður þó fljótt ljóst við nánari athugun að svo er ekki og með tilliti til „force majeur“ reglna er afar ólíklegt að nokkrir Evrópumenn reyni að fá þessari innistæðuábyrgð hnekkt. Ekkert Evrópuríki er tilbúið að hrófla við reglunum um „force majeur“ og stofna þannig í hættu eigin möguleikum á að bregðast við neyðarástandi.

  • Hallur Heimisson

    Sælir.
    Góð greining á stöðunni, blákalt.
    Óskhyggja og draumar Nei sinna er kvíðavænleg.
    Hverjum dettur í hug að fyrirtæki eða einstaklingar komist upp með að segja nei nú er komið nóg í skuldauppgjöri, þeir semji um tiltekin hluta en þegar kemur að öðrum þá segi þeir stopp. Mér segir svo hugur að slíkum aðilum takist ekki að ljúka sínum málum.
    Halda Nei sinnar að engu skipti taust og trúverðugleiki, sérstalega eftir það sem á undan er gengið?
    Ég mun segja JÁ í þjóðaratvæðagreiðslunni ekki vegna þess að ég sé einhver sérstakur áhugamaður um að borga skuldir, nei, ég segi já vegna þess að ég vil að við sem þjóð komum heiðarlega fram við aðra og aðrar þjóðir og við stöndum við þau loforð og samninga sem við gerum. Við skulum heldur ekki gleyma því að Landsbankinn skuldar þessa peninga og Landsbankinn er í eigu og á ábyrgð Íslenska ríkisins.

  • Sigurður Sigurðsson

    Hallur, ég get bara ekki samþykkt að Landsbankinn hafi verið á ábyrð okkar skattborgara þegar stofnað var til icesavereikninga. Davíð og co voru búnir að selja einkaaðilum sem voru í talsambandi við Valhöll bankann.

  • Hallur Heimisson

    #

    Sigurður Sigurðsson
    28.03 2011 kl. 13:57 #
    Sæll Sigurður.
    Allir stóru bankarnir voru afhentir gæðingum, hverju nafni eða hóp þeir tilheyra.
    Tilraun Davíðs og Hannesar Hólmsteins. með nýfrjálhyggjuna mistókst og allir bankarnir féllu til ríkissins, því miður. Það var sátt um það á Alþingi að fara þá leið sem farin var, hvort hún var rétt eða sanngjörn má um deila, en hún var farin.
    Þannig er staðan í dag og mér dettur ekki í hug að afsala mér ábyrgð á fortíðinni þó ég hafi aldrei verið sammála þeirri leið sem farin var.
    Verkefnið nú er að vinna úr þeirri stöðu sem uppi er, það er of seint að breyta fortíðinni. Það er mín skoðun að það gagnist okkur betur að segja JÁ við Icesave og halda áfram með uppbyggingu fratíðarinnar en að taka áhættu af óvissu sem skapast í alþjóðlegum samskiptum. Við þurfum á trausti og tiltrú erlendra aðila að halda.
    Við byggjum ekki upp hér á landi gott samfélag sem haldið er saman af höftum

  • Sigurður Sigurðsson

    En hvort sem að tilraun Hannesar og Davís mistókst eður ei þá var Landsbankinn ekki í eigu þjóðarinnar. Það er merkileg árátta hjá pólitíkusum og bankamönnum að koma skuldum yfir á almenning.

  • Ómar Kristjánsson

    Með Neyðarlögunum og í framhaldi með athöfnum sínum ýmsum, tryggðu íslensk stjórnvöl, Íslaenska ríkið, aðgang innstæðueigenda að sínum innstæðum í ísl. úibúum innanlands. Innstæður þeirra voru aðgengilegar og hafa verið uppfrá því. De faktó ríkisábyrgð og ekkert annað

    Eigi var það gert varðandi útibú erlendis.

    það er þarna sem mismunin er samkv. regluverkinu. Lesið álit ESA varðandi mismunina og jafnræðisbrotið.

    Útibú erlendis ber að meðhöndla á nákvæmlega sama hátt samkv. laga og regluverki er Ísand hefur undirgengist.

    That said, þá má el vera að Ísland eigi sér einhverjar málsbætur varðandi athafnir sínar – en það finnast engar málsbætur varðandi það að hafa brotið skuldbindingar sínar gagnvart EES. Málsbæturnar eru ekki þess eðlis að þær afnemi brotið. Brotið er þarna alveg sama hvernig menn láta og orðhenglast.

    Þessvegna verður að semja um málið og taka formlega ábyrgð samkv. landsins alþjóðlegu skuldbindingum sem siðuðu samfélagi sæmir. Sem var og gert. Margsinnis. En alltaf upphófst fádæma lýðæsingablaður og skrum allrahanda með feyknalegum skaðakostnaði fyrr land og þjóð. Og stendur það lýðæsingablaður enn að einhverju leiti þó heldur sé nú að puðrast eitthvað loftið úr þeirri blöðru. Rétt eins og gróðærisblöðru þeirra sjalla um árið.

  • Gunnar Tómasson

    Innlegg mitt við frétt Eyjunnar.is um blogg Andra Geirs fyrr í dag:

    Íslenzka fjármálakerfið er sneisafullt af „gömlum“ krónum, innanlands og utan, sem sluppu fyrir horn í hrun „gamla“ kerfisins í október 2008.

    Aðsteðjandi vandi „nýja“ kerfisins felst í því að „gamlar“ krónur eru af ýmsum ástæðum óheppilegar eftirlegukindur frá fyrri tíð.

    Lilja Mósesdóttir gerir sér grein fyrir þessu og hefur sett fram hugmyndir um það hvernig hægt er að bregðast við vandanum.

    Efnisleg umræða um skilgreiningu hennar á rótum vandans er löngu tímabær.

  • Sigurgeir Ólafss.

    Eftir því sem ég les í gegnum færslur Andra Arinbjarnarsonar, hef ég sannfærst um að hér sé að ferðinni einn af blogg-tindátum Samfylkingarinnar.

    Hræðsluáróðurinn fyrir Icesave, ESB og Evru, auk hatur hans á Davíð og Sjálfstæðisflokknum, taka af öll tvímæli hvað þetta varðar.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Hvernig er það með þig Ómar, misstirðu alveg af því þegar vinur þinn Lárus Blöndal hrl. og Stefán Már Stefánsson prófessor í Evrópudómi skrifuðu lærða grein í Morgunblaðið um að ESA fari með tóman þvætting í áminningarbréfi sínu til stjórnvalda,og hröktu lið fyrir lið málatilbúnað þeirra? Þetta er aðeins ein af fimmtán greinunum sem þeir hafa skrifað sem segja að okkur beri ekki og við eigum ekki að borga Icesave.

    Inngangur og niðurstaða Stefáns Más og Lárusar í greininni.:

    Áminning ESA. 4. júní 2010

    Inngangur

    „Þann 26. maí 2010 sendi Eftirlitsstofnun EFTA, hér ESA, íslenskum stjórnvöldum svonefnt áminningarbréf vegna Icesave-málsins. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnvöld hefðu brotið gegn tilskipun 94/19/EB (um innlánatryggingakerfi) þar sem Ísland hefði ekki greitt breskum og hollenskum sparifjáreigendum lágmarkstryggingu samkvæmt tilskipuninni í kjölfar falls Landsbankans. Þá var Ísland einnig talið hafa brotið gegn 4. gr. EES- samningsins sem fjallar um bann gegn misrétti.

    Hlutverk ESA er að tryggja fullnustu EFTA/EES-ríkjanna á EES-samningnum. Stofnunin er sjálfstæð í störfum sínum og ber að taka hlutlægar ákvarðanir á lögfræðilegum grunni án tillits til hagsmuna aðila. Við höfum áður sett fram sjónarmið okkar í svonefndum Icesave- málum sem hér verða ekki endurtekin. Þar var komist að gagnstæðum niðurstöðum um bæði fyrrgreind atriði. Hér verður gerð grein fyrir hvers vegna við erum ósammála niðurstöðum ESA.“

    Niðurstaða

    „Samantekið má færa rök að því að ESA hafi í þessu máli fyrst og fremst leitað niðurstöðu sem stuðlaði að ró um starfsemi banka í Evrópu. Tilvísanir til lagagreina standast ekki skoðun. Að hluta til er vitnað til aðfaraorða sem ekki skipta máli og sama gildir um flesta dóma dómstóls ESB sem vísað er til. Hins vegar fer lítið fyrir sjónarmiðum sem styrkja aðra niðurstöðu eins og rækilega hefur verið bent á.

    Í upphafi greinarinnar var sagt að stofnuninni bæri að taka hlutlægar ákvarðanir á lögfræðilegum grunni án tillits til hagsmuna aðila. Draga má í efa að það hafi verið gert í þessu máli. Telji menn að endurskoða þurfi tryggingarkerfi innistæðueigenda innan ESB þá er vissulega hægt að taka undir það. En gallar gamla kerfisins verða tæplega gjaldfærðir á Ísland. Svo virðist sem engin þjóð verði fyrir fjárhagstjóni vegna þessarar túlkunar ESA önnur en Ísland. Er það ástæðan fyrir því að okkur skortir bandamenn?“

    Hér má kynna sér skrifin ásamt öðru tengdu.:

    http://skuggathing.is/process_documents/948

  • Hmm, áhugaverð fullyrðing að lánstraust ísl. aðila skaðist. Þetta er kenning og ég ætla alls ekki að fullyrða að hún sé röng. En, mér finnst helst til langt gengið í því að íja að því að hún sé að öllum líkindum rétt.

    Síðan, finnst mér liggja að baki önnur algerlega ósannanleg fullyrðing nefnilega sú að einhverjar líkur séu á batnandi lánstrausti.

    Munum, að skuldastaða landsins er mjög erfið. Grikkland er að stynja undan cirka 14,5% greiðslum sem hlutfalli af tekjum ríkissjóðs á meðan greiðslustaða ísl. ríkisins – svo fremi að áætlun um tekjuhækkun stenst mun hlaupa á rúml. 18% af tekjum. Fer nálægt 20% ef tekjuáætlun stenst ekki, sem ekki er ólíkleg miðað við lakari vísbendingar um framvindu hagvaxtar.

    Ef samdráttur heldur áfram getur greiðslustaða ríkissjóðs stefnt í átt að 25% mörkunum þ.e. 1 af hverjum 4 krónum.

    Ég held persónulega að þetta sé þ.s. bankarnir erlendu sjá, og sé ástæða hinna ofsalegu háu vaxta sem Reykjanesbæ er gert að greiða.

    En að sjálfsögðu reikna þeir með í áhættumati í sambandi við það að lána til ísl. sveitarfélaga, líkur á greiðslufalli ríkissjóðs – sem sannarlega eru engar til skamms tíma en töluverða lengra fram litið.

    Ég sé ekki neinar forsendur þess, að vaxtakrafa lækki að ráði á næstunni – burtséð frá því hvað gerist með Icesave. En, ég sé ekki að „Já“ afgreiðsla Icesave minnki greiðslubyrði ríkisins með nokkrum augljósum hætti, en til þess að hún minnkaði þá þyrfti ríkið að geta slegið ódýrari lán en núverandi AGS þ.e. 5,5% vexti en eins og staðan er, þá getur ríkið nýtt AGS peninga til að greiða af og því er AGS „in effect“ endurfjármögnun. Til þess að aðgangur að lánsfjármörkuðum, bæti stöðu ríkissjóðs frekar, þarf hann að hafa aðganga að enn ódýrari lánum.

    Ég verð að segja að, ég sé ekki líkur til þess hvernig sem mál velta!

    Virðungarfyllst, Einar Björn Bjarnason

  • Andri, ertu ekki varamaður í stjórn Landsbankans?

  • Ómar Kristjánsson

    ,,misstirðu alveg af því þegar vinur þinn Lárus Blöndal hrl. og Stefán Már Stefánsson prófessor í Evrópudómi skrifuðu lærða grein í Morgunblaðið um að ESA fari með tóman þvætting í áminningarbréfi sínu“

    Nei. því miður missti eg eigi af því. því miður segi eg, því svo neyðarleg og átakanleg er rökleysan og málefnaleysi þeirra Stefáns – sem vonlegt er enda eins og skildu þeir aldrei um hvað málið snerist og þeirra framganga lýsir vanþekkingu á evrópulaga og regluverki frá a-ö.

    Skulum grípa niður í svarálit þeirra Stefáns:

    ,,Að hluta til er vitnað til aðfaraorða sem ekki skipta máli“

    Duh já einmitt það. Einmitt það já. Aðfararklausan sem ESA útskýrir og ,,vitnar til – var ein helsta röksemd þeirra þeirra Stefáns alla tíð! Halló. Hverskonar málflutningur og ,,svar“ er svona? Ekki sæmandi mönnum sem titla sig sem sérfræðinga um málið og hafa stundað lýðæsingablaður svo fáheyrt er – akkúrat og einmitt í kringum umrædd aðfararorð!

    ,,og sama gildir um flesta dóma dómstóls ESB sem vísað er til“

    Ha?? Og afhverju?? Umræddar tilvísanir eru vísanir í meginframkvæmd evrópulaga og framkvæmt ECJ og/eða EFTA dómsstóls!

    Ok. Hvar eru dómafordæmi þeirra Stefáns þessu viðvíkjandi? Ha?! Hvar eru dómafordæmin er styðja ábyrgðarleysi í þessu ljóta máli Íslands? Það hlýtur að vera alveg gomma af þeim í áliti þeirra Stefáns! Ja, ef ,,lagaleg staða er svo sterk“ þá reikna ég með dómafordæmum á færibandi!

    En nei! Ekki hefur verið fært fram eitt einast andsk. dómafordæmi til stykingar ,,ábyrgðarleysi“ íslands þessu viðvíkjandi og allur málatilbúnaðurinn byggir í raun á, að Ísland eigi að fá undanþágu frá laga og regluverki og rökin á bak við það eru einna helst: Afþvíbara. Það er nú öll ,,lagalega sterka staða“ Íslands í umræddu máli.

    það er nú svo.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    @ Ómar. Þá hlýtur pólitískt álit Lárusar núna með að ganga skuli að samningnum sem hann gerði að vera algerlega úti á túni, ef lögfræðin sem er hans sérsvið er svona hrikalega vond, sem kemur þá glögglega fram í samningshörmunginni Icesave 3 sem er ekkert annað en varalitað svínið Icesave 2 með aðeins lægri vöxtum.

    Fyrir hönd okkar NEI manna þá þakka ég þér kærlega fyrir að jarða trúverðugleika Lárusar og hans málflutning þá og nú, – þó það ver5ði að teljast ó0líklegt að nokkur er svo takmarkaður að taka mark á því sem frá þér fer. – En aldrei að vita… (O:

  • Ómar Kristjánsson

    Mér er alveg slétt sama hvað Lárus segir varðandi þennan eða hinn samning. Alveg slétt sama. Mér er líka alveg slétt sama hvað einhver ,,Guðmundur annar“ er að segja. Ennfremur er mér alveg slétt sama hvor ísl. samþykkja einhvern samning eða ekki.

    það sem eg bendi á og hef gert alla tíð er, að lagaleg staða er alveg skýr. Ísland ábyrgt. Og það vegna tveggja meginþátta. Samkv. sjálfu dírektífinu og þar ofan í kaupið vegna mismununarþáttarins.

    Eg var einna fyrstur manna í opinberri umræðu til að benda á þessa ofureinföldu staðreynd. Og skákaði ég þar með lagaséffum allra handa. Eg, Ómar Kristjánsson almúgamaður, varð fyrstur til að benda á einföldustu staðreyndir i málinu í opinberri umræðu.

    Nú, síðan gerist það að Ísland fær sent hingað upp í fásinnið eitt áminningarbréf frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA)

    Það er ekki að orðlengja það, að það var uppá punkt og prik í samræmi og línu við lagalgega útleggingu Ómars Kristjánssonar almúgamanns! Uppá punkt og prik.

    Af þessu verður að draga vissar ályktanir.

  • Ómar Kristjánsson – alveg rétt að þ.e. til fj. dómafordæma fyrir því, að mismunun sé ólögleg, þ.s. ríki eru dæmd til að borga sektir í kjölfarið af eigin dómstólum eftir að Evrópudómstóll hefur dæmt þeim í óhag.

    Á hinn bóginn, þá hefur þú hingað til alveg litið framhjá því augljósa að Ísland var í neyðarástandi, – er reyndar enn, og að fyrirbærið neyðarréttur er til.

    Getur neyðarréttur réttlætt mismunun? það veit reyndar enginn, því slík mál hafa aldrei farið fyrir nokkurn dóm.

    Dómafordæmi fyrir neyðarrétti eru að sjálfsögðu fá því neyðarástand af því tagi, sem fræðilega reglum skv. getur réttlætt annars vanalega ólöglegar aðgerðir, eru fátíðir atburðir.

    Á þessari stundu, er ekki hægt að svara þeirri spurningu, hvort Ísland tapar á grundvelli mismununar eða að neyðarástand telst fullnægjandi réttlæting.

    Eins og þú bendir réttilega á, skortir dómafordæmi – þess vegna m.a. þarf úrskurð dóms, til að skera úr um þá óvissu.

    Kv.

  • Guðmundur 2. Gunnarsson

    Bíddu Ómar. Fullyrðiru ekki ennþá að það er og á að vera ríkisábyrgð á tryggingarsjóðnum – öfugt við það sem framkvæmdarstjórn ESB segir, sem og Steingrímur J. og allir lagasérfræðingar erlendir sem innlendir?

    Er það „almúgamanns“ lögfræði?

  • Hallur Heimisson

    Einar Björn.
    Við getum verið sammála um að greiðslukjör Ísland munu að öllum líkindum versna við að fella Icesave samkomulagið. Að mínum dómi eru engar líkur á því að Neiið hafi jákvæð áhrif á þá stöðu, þetta vita allir sem eru tilbúnir að horfa á raunveruleikan eins og hann er. Hugsanlega verður betra útlit á skuldastöðu Ísland til heimabrúks en ekki á alþjóðlega vísu. Ég fæ eeki með nokkru móti séð að áhættumöt erlendra aðila skáni við aukinn glannaskap og ósamvinnuþýðu Íslendinga.
    Því er mitt mat það að segja JÁ í atkvæðagreiðslunni, ég hef engin rök heyrt sem sannfæra mig um að við græðum meira á því að segja nei en já.
    Ein rökin sem hafa komið fram hjá nei bræðrum eru þau að verið sé að leggja skuldabyrði á börnin okkar. Barn sem fæðist í dag mun ekki borga skatta sem neinu nemur fyrr en að 20 árum liðnum. Það erum ég og þú sem erum á vinnumarkaði í dag sem tökum að okkur að klára málið.
    Ég er löngu uppgefinn á því að láta óskhyggju stjórna mínu lífi.

  • Hallur – Sannarlega skapar deilan við B&H óþægindi og óvissu.

    En, hjá því verður ekki heldur horfið að skuldastaða landsins er mjög erfið. Grikkir stynja undan því að greiða cirka 14,5% af tekjum ríkissjóðs meðan Ísland greiddu rúml. 16% á sl. ári. Með Icesave mun þetta hlaupa á rúml. 18% þetta ár. Þá er miðað við spá um rúml. 2% hagvöxt. Ef tekjur eru nær þær sömu á þessu ári og síðasta, þá verður greiðslubyrði milli 19-20% á þessu ári, fer síðan upp í 20% rúml á næsta ári og helst í rúml. 20% síðan áfram – ef við ímyndum okkur að óhagstæð spá um framvindu eigna rætist fremur en hagstæð þannig að greitt sé áfram skv. þaki næstu ár. Ef á hinn bóginn, hagkerfið er í niðurspíral þannig þetta ár verði einnig samdráttar ár – þá náttúrulega verður framvindan enn óhagstæðari.

    Þetta er ástæða þess, að ég hef viljað fresta því að takast á við Icesave, humma málið – tefja þ.s. lengst. En, mér lýst að einu leiti vel á töf um 1-2 ár til viðbótar, að þá fer sala eigna fram og óvissa um eignir hverfur.

    Ég sé ekki betur, en að óvissan um greiðslustöðu landsins sé mjög mikil – og að fjarskalega ólíklegt sé, að það opnist fyrir hagstæð lán þó svið segjum „JÁ“.

    Þannig, að þó svo ríkisstj. tali um að fara á markaði, hef eg hingað til ekki tekið þau plön sérlega alvarlega og met líkur þess að slíkt heppnist, sem ólíklegt – þá meina ég að fá hagstæð lán.

    Þannig, ég met ekki þ.s. sterka röksemd, að það opnist á lántöku – ég virkilega trúi því ekki. Þannig, að ég tek fremur þann pól í hæðina, að mikilvægara sé að láta óvissuna um það hvað fæst raunverulega fyrir eignasafn Landsbanka Íslands hf hverfa.

    Þegar sú sala hefur farið fram, og ég reikna með að Efta dómstóll fjalli um málið í þeirri millitíð, þá ætti að vera óhætt að semja. Svo fremi, að þá liggi ljóst fyrir en ekki skv. áætlun, að upphæð sé viðráðanleg.

    En, ég met enn hættu á greiðsluþroti Íslands lengra fram litið sem mikla. M.a. þess vegna, er ég mjög – mjög tregur, til að samþykkja frekari skuldir.

    Kv.

  • Einar,
    Við getum ekki reitt okkur á tékkhefti AGS og hinna Norðurlandanna endalaust, Munurinn á Íslandi og hins vegar Írlandi, Portúgal og Grikklandi er að við höfum fengið að vera í algjörri gjörgæslu AGS og ekki þurft að fara út á hinn „vonda“ fjármálamarkað. Ég held að það sé ekki raunhæft að standa yfir utan fjármálamarkaði í 5 ár, 3 ár er algjört hámark. Annars er það ekki okkar að ákveða það, AGS mun líklega ráða því. AGS gefur greinilega í skyn í sínum skýrslum, að hin Norðurlöndin eru ekki hrifin af þessar íslensku pattstöðu. Við höfum fengið að lafa þetta lengi vegna hversu smá við erum. Við skiptum engu hagfræðilega máli fyrir önnur lönd, en þessi þolinmæði mun á endanum renna út.

  • Af hverju trúa Bretar og Hollendingar ekki þessu tölum?
    Af hverju er Bretar og Hollendingar að heimta og leggja á það ofuráherslu að fá ríkisábyrgð á þessa 674 ma. sem lágmarkstryggingin er, ef þrotabúið er svona gott?

    Hvað vita Bretar og Hollendingar um þrotabúið sem við vitum ekki?

    Ef dómur fellur okkur í óhag í Héraðsdómi eftir rúman mánuð í fyrsta dómsmálinu sem kröfuhafar í Landsbankanum hafa höfðað til að hnekkja neyðarlögunum, þá verða þessar eignir Landsbankans ekki til ráðstöfunar upp í Icesave.

    Þá sitjum við upp með ábyrgð á 674 ma. greiðslum til Breta og Hollendinga.

    Ég er ekki tilbúinn til að samþykkja ríkisábyrgð upp á 674 ma. án þess að vita hvort neyðarlögin halda fyrir dómstólum.

  • Andri – lánamarkaðir eru ekkert að opnast Íslandi upp á gátt, þó við segjum „Já“ við Icesave. En, þú þarf ekki annað en að líta á tölur AGS:

    …………2010………2011……..2012………2013……….2014……..2015
    Real GDP
    ………..-3.0………2.0………3.0……….2.5………..3.0……….3.0
    Nominal GDP
    …………1551.4…..1628.2……..1726.2……1820.2……..1934.2…..2052.7
    Revenue
    ………….40.6…….39.6………40.3………41.0………40.8………40.6
    Umreiknað
    ………….630……..645………..696,7…….746,3………789,1……..833,4
    Greiðslur af AGS láni
    ……………………………….51,8.ma….71.ma……..58,03………65,7
    Vaxtagj./tekjum
    …………16,7%…….20,7%……..18,1%……..16,2%……..13,9%……..12,8%
    Gj. vs. tekj. 2010
    …………18,6%…….21,2%………20%……….19,3%……..17,4%…….16,9%

    Skv. niðurstöðu Hagstofu var 3,5% samdráttur 2010. Halli á 4. ársfjórðungi 2010. Þannig, að þegar er ljóst að framvinda 2011 er að líkindum lakari en spá AGS fyrir 2011.

    Svo við erum að tala um raunvaxtagjöld ríkisins kringum 18% þetta ár, og síðan 20% næstu 2 ár a.m.k. En, ef framvindan er enn lakari en þetta, þ.e. niðurspírall, þá verður ferillinn enn óhagstæðari.

    Þú ert að einblína að mínu viti um of, á eina vídd okkar vandamála – en ég hafna því algerlega í ljósi ástandsins, að nokkrar líkur raunverulega séu á því að ísl. ríkið geti sókt sér pening á alþjóðamarkaði þetta ár þó svo sagt sé „JÁ“.

    Þú málar og jákvæða sýn af framvindunni, að ef við segjum „JÁ“. Þanni býrðu til þennan mun, á ástandi „Já“ vs. ástands „Nei“.

    Þ.e. ég er að segja þér, er að ástandið verður áfram nokkurn veginn jafn slæmt, einfaldlega vegna þess að greiðslustaða ríkissjóðs er áfram hörmuleg og það lagast ekki, og að framvinda efnahagsmála er áfram döpur.

    Þetta muni bankar sjá, og ekki treysta sér að lána Íslandi eða ísl. opinberum aðilum, nema á ofurkjörum, þ.e. með miklu áhættuálagi.

    Sannarlega klárast AGS peningurinn fyrir rest – og þ.e. alveg hárrétt hjá þér. En, málið er að mín skoðun er, hefur verið síðan des. 2008 að Ísland þurfi að leita sér hófana um nauðasamninga við okkar kröfuhafa. Ég er enn þeirrar skoðunar. Ég tel, að það muni koma í ljós þegar 2013 er komið, og enn er landið lokað frá lánamörkuðum, að við eigum ekki annað val. Þ.e. mín spá, að Ísl. stjórnmálamenn, munu loks sjá þ.s. ég sá í des 2008, að nauðasamningar séu nauðsynlegir.

    Kv.

  • Einar,

    Ég get vel skilið þinn vinkil og það er rétt að ef hlutirnir eru eins slæmir og þú heldur fram skiptir JÁ eða NEI í Icesave litlu máli, þá er betra að fara í allsherjar skuldayfirhalningu og endursemja um allan pakkann.

    Það hefði auðvita verið besta að taka þann skell strax 2008.

    En þegar menn eru komnir í svona vanda er skynsamlegast að halda nágrönnum góðum og rækta sambönd. Það er hægt að komast ansi langt á velvilja og góðri pólitík. Þrjoska er ekki góð blanda ofan í vonlausa efnahagsstöðu.

    Ég hef oft sagt að AGS hafi vafið okkur inn í bómull. Að fara nú út á fjármálamarkaðinn er nauðsynlegt til að sannreyna þína tilgátu. Þá kemur í ljós hvort viðvörunarbjallan glymur eða ekki. Betra að vita þetta strax heldur en að bíða.

  • Andri – ég er andvígur Icesave einungis vegna þess, að mig grunar að skuldarferill Íslands sé þegar ósjálfbær og því tilgangslaust að samþykkja þ.s. ekki er hægt að greiða.

    Það var fræðilegur möguleiki eftir áfallið 2008, að forðast greiðsluþrot eftir 2013. En, því miður voru mistök gerð við endurskipulagningu bankanna, þannig að staða þeirra er til muna veikari en hefði getað verið – ég bendi á þ.s. fram kemur í 3. skýrslu AGS, að 46% lána í fjármálakerfinu miðað við bókfært andvirði sé í vanskilum – frasinn sem AGS notar er „non performing“. Síðan sögðu þeir að miðað við „claim“ sem mætti kallar andvirðið sem bankarnir miða við gagnvart lánþegum, þá sé hlutfallið 63% að andvirði.

    Mig grunar að slæm lán séu bókfærð skv. „book value“ en að þau lán sem bankarnir telja sig geta rukkað inn, hafi verið reiknuð upp. En, að slæmu lánin með vafasamt virði, séu samt hluti af lánasöfnun og hluti af uppgefnu eiginfé. Mig grunar einnig, að verðgildi fasteigna sé einnig vafasamt, því klárt er að það myndi falla mjög rækilega ef, þær rúml. 2000 eignir sem þeir hafa tekið yfir, væru settar á markað. Svo mig grunar, að ef tekin væri „fair valuation“ á lán og aðrar eignir bankanna, þá myndi í reynd koma í ljós neikvæð eiginfjárstaða. Ég er að segja, að bankarnir séu zombí bankar og dauð hönd á hagkerfinu, og verði það áfram. Mig grunar, að ríkið muni líklega þurfa að aðstoða einhvern bankanna, þegar framvinda efnahagsmála reynist lakari því þróun eignaverðs og áætlanir um tekur frá lánþegum, byggjast á áætlaðir framvindu efnahagsmála.

    Í reynd grunar mig, að það verði hörð barátta næstu misserin að halda bankakerfinu uppi. Ég þykist næsta fullviss, að ríkissjóður muni ekki geta staðið við 3. ára viðmiðið sem AGS setti fram upphaflega.

    Ég spái því, að Ísland muni þurfa nauðasamninga. Ég sé ekki tilgang í samningum við Breta og Hollendinga, um greiðslur sem við munum lenda í vandræðum með seinna.
    ———————

    Ef ég hefði stýrt efnahagsmálum árið 2009, þá hefði ég þá þegar hafið undirbúning kröfuhafa funds og óskað eftir milligöngu AGS um slíkann.

    Það væri eðlilegt, að Bretar og Hollendingar, taki þátt í honum.

    Þ.e. ekki of seint að hefja slíkt feril, enda peningurinn ekki búinn fyrr en eftir 2013.

    Aftur á móti á ég ekki von á að núverandi stjórnmálastétt sjái þetta, nema með mjög fáum undantekningum. En þeir sem ráða málum, alls ekki.

    Kv.

  • Eitt enn, hallarekstur ríkissjóða Evrópulanda og Bandar. skapar einnig mjög mikið framboð á ríkisskuldabréfum. Gríðarlegt framboð verður einnig á þessu ári, og þetta mun einnig þetta ár hafa áhrif á vaxtakröfu jaðarlanda með lítil hagkerfi – tala ekki um slæma skuldastöðu að auki; til hækkunar.

    Bætum þessu við.

    Síðan, að á leiðtogafundinum á föstudag ákvað Evrusvæðið að fresta því að taka ákvörðun um stækkun neyðarsjóðs svæðisins, til júní nk. Þetta mun auka spennuna næstu mánuðina og ef, aftur í júní ekki næst samkomulag – verður órói á lánamörkuðum eins slæmur og í fyrra.

    Síðan sýnist mér skv. spá stofnana ESB um hagvöxt, að meiri en helmingur landanna sé með hagvöxt undir meðalverðbólgu svæðisins. En, sá hagvöxtur verður undir þrýstingi í ár, vegna sparnaðar aðgerða. En, hætta er á því að hann muni verða lakari er klárt fyrir hendi, í ljósi hækkandi verðbólgu og hækkaðs olíuverðs, ofan í áætlanir um útgjaldaniðurskurð. Ef þetta kemur þannig fram, eykst útgáfa skuldabréf enn meir.

    Kv.

  • Eitt enn:

    Fimmtudaginn 10. mars var ávöxtunarkrafa fyrir 10. ára Portúgölsk skuldabréf, í 7,68%. Ávöxtunarkrafa fyrir spönsk 10. ára ríkisbréf var í 5,52%. Ítölsk 10. ára bréf fóru í 4,99%. Írland toppaði daginn í 9,53%.

    Miðað við þetta, þá er 7% ekki slæmur árangur hjá Hafnarfjarðarbæ.

    Þetta sennilega þíðir að ríkið getur slegið lán – því það fengi ekki verri vexti en þetta.

    Þannig séð, er þetta ekki í reynd slæm frétt. Hún bendir til að lánamarkaðir séu ekki lokaðir per se, einungis mjög dýrir.

    En, mjög ólíklegt er sennilega, að það nái sambærilegum kjörum og skv. AGS lánapakkanum. Svo, mjög sennilega er hagstæðara fyrir ísl. ríkið í ár, að nýta það fé í stað þess að leita út á lánamarkaðinn.

    Kv.

  • It’s better to have a deal than no deal. You kan always renegociate from that point further.

  • Jón Magnús

    Það er ekki slæmt hjá Hafnafirði að fá lán á 7% en ef Ísland fer í ruslflokk þá verður fjarmögnun mun dýrari. Það liggur alveg fyrir að Ísland er að fara niður í rusl hjá einu matsfyrirtæki og er að ég held í ruslinu hjá öðru.

    Það að hlutirnir hafi reddast hingað til þýðir ekki að hlutirnir eigi ekki eftir að versna ef við segjum nei við icesave. Við erum fyrir löngu búin að hlekkja okkur við erlenda fjármagnsmarkaði og að segja núna „nei, við þurfum ekki á ykkur að halda“ þýðir ekkert annað en stöðnun og framlengingu á kreppunni.

    Ef Ísland þarfnast einhvers þá er það fleiri vina – við höfum ekki farið vel með vini okkar síðustu ár. Að segja nei við icesave þýðir að við skellum hurðinni framan í þá fáu vini sem við eigum, eingöngu til að opna hurðina korteri seinna og biðja þá um pening.

  • starkaður

    Merkileg er hún sú niðurstaða að 7% vextir á lán til sveitarfélags á Íslandi, séu léleg kjör, og bera saman við Portúgal sem er RÍKI, en ekki sveitarfélag og það innan ESB. Á hverju átti ráðgjafinn von? Að sveitarfélag í nánast gjaldþrota ríki hefði betra lánshæfismat en Portúgal, í alvöru ??

  • Halldór Björnsson

    „Sigurgeir Ólafss. @28.03 2011 kl. 15:37 #Eftir því sem ég les í gegnum færslur Andra Arinbjarnarsonar, hef ég sannfærst um að hér sé að ferðinni einn af blogg-tindátum Samfylkingarinnar.“

    Þessi málefnalega afstaða minnir mig á sögu sem ég heyrði frá íslenskri konu sem bjó í Malasíu og sat námskeið hjá mullah sem sagði henni að kvennréttindi og islam færu ekki saman. Hún fann bók eftir egypskan kvennrithöfund og háskólaprófessor þar sem öllum rökum mullans var slátrað. Hún gaf honum bókina til lestrar, og hann skilaði henni með þeim orðum að líklega væri þessi kona ekki til, og ef svo þá væri hún örugglega agent ísraelsku leyniþjónustunnar.

    Það er svo miklu auðveldara að geta sett stimpil en að svara rökum.

  • Þjóð á aldrei að gera samning um að greiða fjárhæð sem getur orðið svo há að hún ráði ekki við hana. Núna stöndum við andspænis mjög umdeildri kröfu sem spakir menn í mörgum löndum, þ. á m. Bretlandi, Hollandi og Bandaríkjunum, hafa rökstutt vel að íslenska ríkinu beri ekki að greiða. Ef við göngumst við kröfunni með því að segja já við Icesave III, verður enginn vafi um greiðsluskyldu lengur. Þarna getur skilið á milli feigs og ófeigs; rökin fyrir því að kröfuna skorti réttargrundvöll geta vel leitt til þess að hún falli með öllu niður. Óvissan um lokafjárhæð sem útaf kann að standa, þegar greitt verður úr búi gamla Landsbankans, veldur því líka að nú er ekki rétti tíminn til að semja um málið. Enginn ábyrgur aðili semur nema undir nauðung um að greiða óljósa fjárhæð sem rokkað getur til um hundruð milljarða og orðið honum ofviða. Íslendingar eiga ekki að láta kúga sig til þessa – og Bretar og Hollendingar eiga sem siðaðar þjóðir að sjá sóma sinn í að bíða eftir uppgjöri Landsbankans. Þegar það liggur fyrir má ræða stöðuna.

  • Leifur Björnsson

    Sigurgeir Ólafsson.
    Það eru ekki allir skynsamir Íslendingar í Samfylkingunni ef þú á annað borð hefur lesið pistla Andri Geirs þá sérðu að er mjög skynsamur maður á ferðinni.
    Hann er hinsvegar ekki í Samfylkingunni.

  • Andri Geir Arinbjarnarson

    Hvað varðar 7% vexti hjá Reykjanesbæ, þá þarf að taka þá með fyrirvara, hér er um framlengingu að ræða en ekki ný lán. Ég efast um að Reykjanesbær gæti fengið ný lán eins og staðan er. Annars er stærð ekki allt. Það er til lítill landbúnaðarbanki í Hollandi sem heitir Rabobank og hefur AAA lánstraust einn af fáum í heiminum. Margur er knár þó hann sé smár. Vextir ráðast ekki af fortíðinni heldur framtíðinni og horfum þar. Við eigum að geta haft betri horfur en Portúgal og þrátt fyrir alla galla á okkar blessuðu ríkisstjórn er hún mörgum klössum fyrir ofan ríkisstjórn Portúgals. Það er ekki allt verst á Íslandi.

    Sigurgeir,
    Ef þér líður betur að hafa mig í Samfylkingunni, þá er það í fínu máli, ég er hvort eð er í öllum flokkum eftir 2 ár í þessu bloggi. Ég lít á íslenska flokkakerfið eins og kínverskan matseðil, maður þarf ekki alltaf að velja það sama.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur