Sunnudagur 05.06.2011 - 13:51 - 12 ummæli

Þar sem bensínverð er stöðugt

Ég var að tala við kunningjakonu mína um daginn og spurði hana hvort henni þætti bensínverð ekki vera orðið dýrt.  Ekki svo, svaraði hún, það hefur hækkað lítillega en er bara nokkuð stöðugt.  En ef þú lítur yfir síðustu 8 ár, spurði ég?  Jú, bensínið hefur líklega hækkað um 15% á því tímabili en kaupið hjá mér hefur hækkað um 20% á sama tíma, þannig að ég vinn mér inn fyrir svipuðu magni núna og fyrir 8 árum.

Og hvað vinnur þú þér inn fyrir mörgum lítrum af bensíni fyrir hverja unna klukkustund, spurði ég.  Í dagvinnu er tímakaupið sem samsvarar 16 lítrum af bensíni, en fyrir 8 árum gerði þetta 15.3 lítra.  Þannig að í raun hefur bensínverð verið að falla miðað við kaupmátt á síðustu 8 árum?  Jú aðeins, sagði hún, en þetta skiptir nú litlu máli.  Það skal tekið fram að þessi kunningjakona mín vinnur við ræstingar í sveitarfélaginu sem hún býr í.  Það þarf líklega ekki að taka fram að þetta samtal átti sér ekki stað á Íslandi.

En hvað með nágranna þína, er staðan svipuð hjá þeim?  Hún er betri hjá þeim, enda er ég ófaglærð, sagði hún.  T.d. garðyrkjufræðingurinn sem býr á móti mér er með 29 lítra af bensíni á klst og lögfræðingurinn í bænum 94 lítra á klst.   Þannig að hlutfallið á milli þín og lögfræðingsins er 5.9.   Finnst þér það réttlátt hlutfall?  Já, það er dýrt að reka lögfræðistofu, ég er ekki með svoleiðis kostnað.

Að lokum spurði ég, ertu með húsnæðislán og hvað kostar það?  Það er eins og bensínverðið, ansi stöðugt og frekar sanngjarnt.  Ég borga 2.8% í vexti árlega, sagði hún.

Og þá spyr ég lesendur – í hvaða Evrópulandi fer þetta samtal fram?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • Haukur Kristinsson

    Veit það ekki. Veit samt að hér er ekki um Sviss að ræða, þar borga menn minna en 2% í vexti árlega af húsnæðislánum.

  • Ég mundi giska á Þýskaland

  • Sigurgeir Ólafss.

    Ég giska á Sviss, þó svo að þú gefir til kynna að hér sé um eitthvert Evru-landið að ræða, etv. Frakkland.

    Allavegana er þetta eitthvert land sem ekki er með skattaóða vinstristjórn eins og við hér á skerinu.

  • Sigurgeir Ólafss.

    Benzínverð hér á landi er svona hátt vegna hárra skatta á eldsneyti sem hafa hækkað gífurlega síðan vinstristjórnin komst hér til valda í byrjun árs 2009.

  • Páll Þór Jónsson

    Eg slæ á Holland.

  • Landið er Sviss. Þegar bensínverði þar er fært yfir í krónur er það 229 kr sem er nálægt verðinu á Íslandi. í evrulöndunum er verðið yfirleitt yfir 250 kr ltr. Það er ekki það að bensínverðið sé svo hátt á Íslandi heldur eru það launin sem eru svo lág.

    Ef við notum hlutföllin frá Sviss og gefum okkur að algengt verð hjá lögfræðingum hér á landi sé 16,000 kr klst ætti fólk í ræstingu að vera með tímakaup í kringum 2,700 kr. fyrir dagvinnu.

    Það eru lægstu launin á Íslandi sem eru of lág.

  • Sigurgeir Ólafss.

    Og Sviss er ekki í ESB né með Evru sem gjaldmiðil !!!!

  • Hjalti Atlason

    Laun á Íslandi eru lág. Það er vegna þess að við sem þjóð erum búin að eyða um efni fram, og erum að súpa seyðið af því.
    Krónan er einfaldlega að spegla það að við erum búin að kaupa gjaldeyri fyrir miklu fleiri krónur heldur en við höfum framleiðslugetu til.
    Þegar þjóð eyðir um efni fram þarf hún að borga eyðsluna til baka og meðan hún er að því eru launin ekki sambærileg við annars sambærilegar þjóðir.

    Tek fram að þessi „eyðsla“ er líkleg mest bundinn við það að ríkiskassinn var að dæla peningum inn í hið nýfrjálsa bankakerfi með einum eða öðrum hætti. Það breytir því ekki að það hefur áhrif á lífskjör okkar allra.

  • Hjalti Atlason

    Rétt til að skýra af eyða um efni fram.
    Davíð Oddsson dældi 300 milljörðum í bankanna sem frægt er orðið. Þessir peningum eyddu bankarnir í gjaldeyri sem olli gríðarlegu gengisfalli sem við erum m.a. að súpa seyðið af með lágum launum.
    Ef Davíð hefði nú bara eytt þessu í þjóðina í staðinn þá hefði þetta verið 5 milljónir á 5 manna fjöskyldu fyrir gengisfalla nb. Þannig hefðu allar fjölskyldur í landinu getað keypt sér nýja bíl fyrir „ástarbréfin“.

    Ef ríkisstjórnin hefði síðan sagt „Jæja, nú eru allir komnir á nýja bíla, þetta kostaði 300 milljarðar og gengið féll um 40% vegna þessa, utanlandsferðir verða því dýrari á næstunni en það eru þó allir komnir á nýja bíla. Þetta hefði almenningur skilið og sætt sig betur við lífskjaraskerðinguna.
    Það sem almenningi er boðið upp á núna er lífskjaraskerðing, eignaupptaka og enginn nýr bíll. Það er því skiljanlegt að okkur finnist skrýtið að við fáum miklu lægri laun en sambærilegar þjóðir en hér að ofan er hluti af skýringunni.

  • Bensín og olíuverð ræðst af heimsmarkaðsverði og flutningskostnaði.
    Bak við gjaldeyrismúr er verið að flytja inn niðurgreitt elsneyti sem er næstum hið ódýrasta í Evrópu og ekki eru skattekjur íslenska ríkisins neitt Evrópumet. Í raun ætti eldsneyti að verða hátt í verði og hvetja fólk til að spara það auk þess sem það mun snarhækka í verði á næstu árum vegna mismunar í framboði og eftirspurn.

    The botton line er að það eru launakjörin sem hafa rýrnað hér.

  • Sigurgeir Ólafss.

    Ekki veit ég hvað þessi athugasemd Hjalta kemur færslu síðuhöfundar hér við.

    Reyndar færir Hjalti þetta svolítið upp í stílinn eins vinstrimanna, sérstaklega Samfylkingarfólks, er siður.

    Þessar 300 mia. voru ekki augnabliks afglöp Davíðs, heldur voru hér um hefðbundin veðlánaviðskipti að ræða skv. lögbundnu hlutverki Seðlabankans varðandi það sjá fjármálakerfi landsins fyrir lausafé.

    Hér hafði Davíð ekkert val. Hann mátti t.d. ekki „eyða þessu fé í þjóðina“ eins og Hjalti nefnir.

    Slík viðskipti stunda allir seðlabankar heimsins gagnvart viðskiptabönkum í þeim löndum sem þeir starfa í.

    Reyndar var veiking krónunnar löngu hafin fyrir þann tíma sem þessi 300 mia.kr. viðskipti áttu sér stað.

    Grunur leikur á því, að eigendur viðskiptabankanna hafi verið farnir að tæma þá innan frá og koma þar með fé úr landi.

    Allt sumarið 2008 og fram á haust sama ár, voru eigendur bankanna og útrásarvíkingar að koma fé undan úr landi.
    Þetta setti þrýsting á krónuna þegar krónum var skipt yfir í erlendan gjaldeyrir = framboð á krónum var meira en eftirspurn => gengi krónu fellur.
    Sögusagnir sögðu að útrásarliði hefði flutt erlendan gjaldeyrir í ferðartöskum á einkaþotum sínum frá Reykjavíkurflugvelli í lok sept. 2008.

    Núna lifa útrásarvíkingarnir góðu lífi á þessu fé í útlöndum, á meðan almenningur hér á landi situr eftir með sárt ennið hér heima í kulda og trekk.

  • Getur verið hvaða Evrópuland sem er, ég tippa á Svíþjóð eða Danmörku, þar sem „skattaóðir vinstrimenn ráða ríkjum“ – ég hef a.m.k. reynslu af því að bensínverð hefur verið nokkuð stöðugt sl. ár, kaupmáttur nokkurn veginn sá sami í langa tíma, og húsnæðislán og leiga bera sömu söguna.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og fimm? Svar:

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur