Mánudagur 16.07.2012 - 13:18 - Lokað fyrir ummæli

20 ára froða, eða hvað?

Nokkrar umræður hafa spunnist um þróun lífskjara á Íslandi síðustu 20 árin og sýnist sitt hverjum enda flókið að reikna “lífskjör”.  Tölfræðin getur verið hættuleg hér enda geta “vísitölur” verið mjög misvísandi.

Þegar Þorsteinn Pálsson talar um að á síðust 20 árum hafi lífskjarabatinn verið froða er hann ekki endilega í mótsögn við tölur Hagstofunnar um að kaupmáttur launavísitölu 2012 sé á sama stað og um 2004 enda segir kaupmáttur launa ekki alla söguna.   Hvar ætli „kaupmáttur“ vísitölu samneyslu sé?  Ætli t.d., ellilífeyrisþegum finnist þeir vera á sama stað 2012 og 2004 hvað varðar kaupmátt og þjónustu frá hinu opinbera.  Er aðgangur að heilbrigðisþjónustu, atvinnu, húsnæði og menntun sá sami nú og fyrir 8 árum?  Nei, málið er flóknara en að hægt sé að afgreiða það með tilvísun í eina talnaröð, þó mikilvæg sé.

Ef við förum 20 ár aftur í tímann, hver var staða Íslands þá?  Þessu geta þeir sem komnir eru á miðjan aldur svarað fyrir sig, en ég mun hér styðjast við talnaraðir frá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum um landsframleiðslu á mann til að skýra ákveðna mynd.  Þessi samanburður kemur auðvita með sömu viðvörun og hér að ofan en talnaraðir geta verið upplýsandi í umræðunni ef menn þekkja takmarkanir þeirra.

Mynd 1.

Ef við byrjum að skoða mynd 1 um landsframleiðslu á mann í dollurum á Norðurlöndunum síðan 1990 kemur í ljós að í upphafi tímabilsins voru öll Norðurlöndin á svipuðum stað með landsframleiðslu á mann um $25,000.  Rétt þar á eftir fer Finnland í gegnum alvarlega kreppu og rekur lestina í landsframleiðslu í 18 ár þar til Ísland tekur það sæti 2008.  Öll Norðurlöndin taka mikinn hagvaxtakipp eftir aldamótin og það er athyglisvert að þótt Ísland rísi hátt 2007 fer Noregur enn hærra og Danmörk er ekki langt á eftir.  Það sem síðan aðskilur Ísland frá hinum Norðurlöndunum er hrunið.  Þar fer Ísland úr öðru sæti í það síðasta á innan við tveimur árum.  Sérstaklega er athyglisvert hvað hin Norðurlöndin ná sér vel á strik strax eftir kreppuna.  Noregur og Svíþjóð ná nýjum landsframleiðslutoppi 2011 sem er hærri en 2007 og Danmörk og Finnland eru nálægt sínum 2007 toppi.  Aðeins Ísland er langt frá því að ná fyrri hæðum og hverfandi líkur eru á að það markmið náist í bráð.  Hins vegar ættu Íslendingar að huga að því hvernig þeir ætla að loka þeirri gjá sem hefur myndast á milli Íslands og hinna Norðurlandanna.  Hornsteinn norræns velferðarkerfis er einmitt há landsframleiðsla og mikil velmegun. Eða eins og Danir segja: „ingen velfærd uden velstand“

Það er rétt að taka fram að kaupmáttarbilið á milli Íslands og hinna Norðurlandanna er minna en þessar landsframleiðslutölur gefa tilefni til, en það er m.a. vegna þess að eignaverð og launataxtar eru lægri hér á landi.  Þetta byggir á sama prinsíppi sem ferðamenn þekkja, að 100 dollarar hafa meiri kaupmátt í Tyrklandi en í Danmörku.

Þó tölurnar í mynd 1 sýni að landsframleiðsla á mann sé hærri nú en 1990 birtist önnur mynd þegar þær hafa verið leiðréttar fyrir verðbólgu.  Mynd 2 sýnir landsframleiðslu á mann fyrir Ísland, Danmörk og Írland á föstu gengi dollara með viðmiðunarár 1990.

Mynd 2.

Þetta er í raun sú mynd sem styður tilgátu Þorsteins Pálssonar um froðumyndun.  Hér sést að raunlandsframleiðsla á mann á  Íslandi er sú sama 1990 og 2011 eða tæplega $25,000 mælt í verðgildi dollarans 1990.  Danir hafa hins vegar séð rúmlega 30% raunhækkun á sinni landsframleiðslu á sama tímabili og Írar, þrátt fyrir sína erfiðu kreppu, hafa tvöfaldað raunlandsframleiðslu hjá sér á síðustu 20 árum.

Þessi mynd segir aðeins brot af sögunni en er engu að síður mikilvæg og það er  nauðsynlegt að  geta horft á hana af yfirvegun og notað sem lærdómstækifæri fyrir framtíðina.  Hvað þurfum við að gera til að þessi saga endurtaki sig ekki næstu 20 árin er hin mikla spurning?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur