Föstudagur 31.05.2013 - 18:00 - Lokað fyrir ummæli

„Danska leiðin“ losar snjóhengjuna

Snjóhengjuvandinn svokallaður er birtingarmynd þess gjaldeyrisvanda sem Ísland þarf að glíma við fyrir utan ESB.  Ólíkt Argentínu og öðrum ríkjum utan Evrópu sem hafa lent í svipuðum vanda og Ísland, hefur Ísland raunverulegt val um framtíðargjaldmiðil.  Þessi valréttur er verðmætur og pólitískt afsal á honum getur falið í sér umtalsverða lífskjaraskerðingu á komandi árum sem vekur upp þá spurningu hvort ekki sé réttara að virkja valréttinn í upplýstri þjóðaratkvæðisgreiðslu fyrr en seinna.

Snjóhengjan verður fyrst að alvarlegu vandamáli um leið og Ísland velur krónuna sem framtíðargjaldmiðil enda er snjóhengjan krónuvandi.  Því má segja að snjóhengjan sé eins mikið pólitísk vandamál og efnahagslegt, sérstaklega í augum erlendra aðila.  Til heimabrúks er snjóhengjan kynnt sem vandamál “hrægamma” og tækifæri Íslands.  Í þeirri umræðu hefur verið takmarkaður pólitískur vilji til að opna verkfærakassann og skoða hvaða tól eru í boði og hvert þeirra muni hjálpa best við lausn vandans?  Bitlaus haftakróna er varla Íslands sterkasta vopn.

Ekkert af þessu ætti þó að koma á óvart.  Snjóhengjan var alltaf þekkt.  Í kjölfar hrunsins var mikill stuðningur við ESB aðild og því var eðlilegt að vinna eftir þeirri forsendu að Ísland yrði komið inn í ESB 2013 (ekki seinna en Króatía sem fær aðild 1. júlí) og því væri krónan núna á leið inn í ERM 2 og snjóhengjan og endurfjármögnun erlendra lána komin í “evru” ferli og viðráðanleg. (Egill Almar Ágústsson útlistir þetta ferli vel í grein í Viðskiptablaðinu hér).  Þetta er hin „danska leið“ en danska krónan er „ERM 2“ króna*.

Þessi ESB aðildarforsenda hefur ekki reynst traust og því eru nú hin ýmsu gjaldeyrisvandamál að stinga upp kollinum sem geta orðið mjög erfið viðureignar þar sem þau byggja sumpart meir á pólitísku vali en neyð – “sá á kvölina sem á völina”.  Það sem vekur furðu er hversu löngu eftir að ljóst varð að áhugi á ESB aðild hafði dofnað meðal þjóðarinnar, var farið að huga að afleiðingunum.

 

*) “ERM 2” króna nýtur stuðnings Evrópska seðlabankans og er því allt annar gjaldmiðill en íslensk haftakróna sem styðs við skuldsettan gjaldeyrisvarasjóð.  Samningar við kröfuhafa og erlenda fjárfesta verða auðveldari og gjöfulli fyrir íslenskt hagkerfi ef Ísland getur boðið upp á “ERM 2” krónur sem í fyllingu tímans verða að evrum.  Þá bíður þessi leið upp á mun öruggara og auðveldara afnám gjaldeyrishafta og verðtryggingar.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur