Miðvikudagur 18.09.2013 - 20:45 - Lokað fyrir ummæli

Falskur húsnæðisdraumur

Verðtryggð króna er heimatilbúin “lágvaxtamynt” sem hefur gert flestum kleift að komast í gegnum greiðslumat og fá lán til að kaupa húsnæði á fölskum forsendum.

Vandamálið við verðtryggðu krónuna er alveg það sama og við erlenda gjaldmiðlla, það kemur alltaf að því að verðgildi þeirra og krónunnar sem fer í launaumslagið, tekur stökkbreytingum.

Þegar krónan féll stökkbreyttust erlendu lánin og rétt þar á eftir þau verðtryggðu í gegnum verðbólguskot sem gengisfellingin kom af stað.  Þannig eru ástæður “forsendubrestsins” þær sömu – gengisfelld króna.

Þegar neytendalán eru ekki veitt í sama gjaldmiðli og fólk fær í launaumslagið þá er hættunni boðið heim.  Flest nágrannalönd okkar hafa sterka neytendalöggjöf sem verndar neytendur gagnvart hættulegri lánastarfsemi.

Ef svona neytendavernd væri á Íslandi fengju þeir einir verðtryggð lán sem gætu sýnt fram á að þeir hefðu tekjur í verðtryggðum krónum.  Það væri lítill hópur.

Margir halda að lausnin sé að banna verðtrygginguna.  Það er vissulega skynsamlegt þegar kemur að neytendalánum en sú lausn mun hafa afleiðingar fyrir húsnæðismarkaðinn.

Leigumarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu gefur smjörþef af því sem koma skal þegar verðtryggingin verður bönnuð.  Ekki eingöngu mun vaxtabyrðin hækka heldur mun hún einnig verða sveilfukennd og mun rjúka upp með hækkandi verðbólguvæntingum.

Þar sem vaxtastig á Íslandi er mun hærra en í nágrannalöndunum, laun lægri og byggingarkostnaður oft hærri, mun aðeins brot af þeim, sem komast í gegnum greiðslumat á sambærilegri 80 fm ibúð, t.d. í Svíþjóð, komast í gegnum hliðstætt mat á Íslandi.

Þegar samningar voru gerðir við kröfuhafa eftir hrunið voru húsnæðislán í erlendri mynt keypt á afslætti, en það “gleymdist” að gera ráðstafanir fyrir verðtryggðu lánin þótt ljóst væri að verðgildi þeirra hefði einnig laskast.  Slíkur afsláttur hefði auðvita lent að miklu leyti á Íbúðarlánasjóði og lífeyrissjóðunum, þ.e. innlendum aðilum.

Nú 5 árum síðar, á að reyna að redda málum með því að ná í peninga frá útlendingum í stað þess að fjármagna nauðsynlega leiðréttingu, í réttu hlutfalli, hjá þeim sem upphaflega veittu lánin.  Hér er sett hættulegt fordæmi.  Sumir munu túlka þetta að hér sé verið að mismuna aðilum eftir búsetu, þ.e. að erlendir aðilar beri meiri og víðtækari ábyrgð en innlendir aðilar.

En allt er þetta þó aðeins stundarfyrirbrigði, leiðréttingin nú í nóvember verður aldrei annað en einsskiptisaðgerð.  Eftir situr ótrygg framtíðarsýn fyrir næstu kynslóð – draumur um eigið húsnæði verður óviðráðanlegur fyrir stóran hluta almenns launafólks.   Það er þó heiðarlegra að segja við fólk: þú hefur ekki efni á þessu, í stað þess að gefa fólki falskar vonir með heimatilbúinni “lágvaxtamynt”.

Raunverulegur draumur um eigið húsnæði byggir nefnilega á raunverulegri mynt.  Það er lærdómurinn af öllum þeim séríslensku aðferðum við fjármögnun húsnæðis síðustu 30 árin.

Ef það er eitt mál sem á eftir að koma Íslandi inn í ESB og fá fólk til að samþykkja upptöku evru þá verður það óyfirstíganlegur vandi og kostnaður við að fjármagna húsnæðiskröfur næstu kynslóða í ónýtri mynt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur