Mánudagur 30.09.2013 - 21:47 - Lokað fyrir ummæli

Borgarspítalann aftur til borgarinnar

Flestir sjá að núverandi heilbrigðiskerfi gengur ekki upp.  Setja verður hagsmuni sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna ofar pólitískri hugmyndafræði.

Á morgun taka Bandaríkin stærsta skrefið í átt til “opinbers” heilbrigðiskerfis þegar “Affordable care act” gengur í garð.  Þar með fá allir Bandaríkjamenn aðgang að sjúkratryggingum og heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og sjúkrasögu.

Kerfið sem Bandaríkjamenn hafa valið er umdeild þar í landi og það hefur sína kosti og galla eins og öll kerfi.  Í þessu kerfi er það hlutverk ríkisins að tryggja að allir hafi sjúkratryggingu á viðráðanlegu verði. Ríkið rekur hvorki tryggingarhlutann eða þjónustuna, það er í höndum einkaaðila.

Þetta kerfi Bandaríkjamanna er því líkast því kerfi sem Svisslendingar reka og hefur reynst vel þar í landi.  Franska kerfið líkist því bandaríska þar sem einkaaðilar reka stærsta hluta þjónustunnar en ríkið sér að mestu leyti um tryggingarþáttinn.  Íslensk kerfið er hins vegar líkast breska kerfinu þar sem ríkið rekur bæði tyrggingarþáttinn og þjónustuna.  Breska kerfið hefur þó á síðustu árum verið að þróast meira í átt til franska kerfisins þar sem sjúklingar sem eru tryggðir í gegnum opinbera kerfið geta í sumum tilfellum valið einkaspítala.  Íslenska kerfið er að því leyti sérstakt að allur spítalarekstur er í höndum eins aðila – ríkisins.   Fá dæmi eru um það innan OECD að slík kerfi séu heppileg eða hafi reynst vel.  Hér eins og annars staðar er Ísland sér á báti með sína eigin útgáfu sem styðst  meira við innlenda pólitíska hugmyndafræði en erlenda reynslu og þekkingu.

Það er alveg ljóst að þegar litið er til OECD landanna er fyrsta skrefið sem Íslendingar þurfa að taka til að bæta heilbrigðiskerfið að færa rekstur spítala landsins yfir á fleiri hendur og auka þar með samkeppni og val sjúklinga.   Ríkið á aðeins að reka einn spítala, Landspítalann háskólasjúkrahúsið við Hringbraut, en færa á rekstur Borgarspítalans og spítala úti á landi fyrst í hendur sveitarfélaganna sem síðan taka ákvörðun um hvernig þau vilja reka þá.  Sá rekstur getur verið í höndum sveitarfélaga eða einkaaðila, en þær ákvarðanir á að taka á rekstrarlegum og klínískum forsendum en ekki pólitískum.  Það er ekki á sviði ríkisins að ákveða hvar og hvernig spítalar eru reknir.

Samhliða þessari rekstrarbreytingu á þjónustuþættinum þarf að bjóða sjúklingum upp á viðbótartryggingar sem dekka þjónustu sem ríkiskerfið borgar ekki eða borgar aðeins að hluta.

Þannig yrði íslenska kerfi fært nær því sem þekkist í nágrannalöndunum.

Hvers vegna í ósköpunum má ekki ræða breytingar á íslenska kerfinu sem taka mið að reynslu OECD landanna?   Halda menn virkilega að íslenskir stjórnmálamenn hafi einhverja töfralausn sem öðrum löndum hefur yfirsést?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur