Sunnudagur 20.10.2013 - 15:25 - Lokað fyrir ummæli

Að velja rétta fasteignalánið

Fjármálaráðherra gaf nýlega út yfirlýsingu um að jafnvel verið hægt að létta gjaldeyrishöftunum á næstu 6 mánuðum.

Þá hefði maður búist við að markaðurinn tæki við sér og ávöxtunarkrafa á innlend skuldabréf færi hækkandi, en því er ekki til að dreifa.  Annað hvort er þetta merki um ófullkominn markað innan hafta eða að markaðurinn hefur enga trú á fjármálaráðherra, nema hvoru tveggja sé.

Hvað eiga fasteingalántakendur að gera í svona stöðu?

Það er ljóst að ef höftum verður létt á svona skömmum tíma verða vextir að hækka verulega og líklega mun gengið síga með viðeigandi verðbólguskoti.

Þetta þýðir að þeir sem eru með óverðtryggð húsnæðislán á breytilegum vöxtum eða verðtryggð lán ættu að íhuga að færa sig yfir í óverðtryggð 5 ára fastvaxtalán og þar með tryggja sig fyrir verðbólgu- og vaxtasveiflum á næstu 5 árum.

Í dag bjóðast óverðtryggð 5 ára fastvaxtalán á 7.45% vöxtum sem gerir 3.55% raunávöxtun miðað við núverandi verðbólgu, sem verða að teljast góð kjör við íslenskar aðstæður.  Ef við gefum okkur að verðbólga verði á svipuðu róli næstu 5 árin eru menn að borga 0.05% (miðað við 3.5% vexti á verðtryggðum lánum)  “tryggingargjald” til að tryggja sig fyrir verðbólguskoti á næstu fimm árum, þ.e. 500 kr fyrir hverja milljón tekna að láni.  Í ljósi íslenskrar hagsögu er þetta líklega ódýrasta trygging sem bíðst á Íslandi í dag.

En dæmið er ekki alveg svona einfalt, því það þarf að huga að hvað gerist eftir 5 ár og svo þarf að taka með í reikninginn þann möguleika að verðtryggingin verði aflög á neytendalán á næstu 5 árum.  Málið er því sérstaklega flókið um þessar munir og ekki síst fyrir unga fólkið.

Vandamálið á Íslandi er að það er ekki til nein óháð stofnun sem getur leiðbeint neytendum í þessum vanda.  Það er nokkuð furðulegt þar sem húsnæðislán eru oftast stærsta skuldbinding fólks á lífsleiðinni og íslenska reynslan af húsnæðislánum er ekki sérlega spennandi.

Öll orkan fer í að leysa fortíðarvanda núverandi kynslóðar.  Er ekki þörf á að vera með fyrirbyggjandi leiðbeiningar fyrir næstu kynslóð sem er að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaðinum?  Hvers vegna fær þessi hópur enga athygli eða aðstoð?  Halda menn virkilega að bankarnir, ÍLS eða stjórnmálamenn séu bestu fjármálaráðgjafarnir?

Í fjármálum byrgja Íslendingar aldrei brunninn, en eyða árum og milljörðum í að bjarga barninu þegar það er komið ofaní brunninn.  Þessari íslensku hefð verðu seint breytt.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur