Mánudagur 21.10.2013 - 06:47 - Lokað fyrir ummæli

Óhæft lið

Íslensk stjórnmálastétt eins og hún leggur sig er ekki beysin.  Nú hefur allur fjórflokkurinn fengið ráðherrastóla frá hruni en erfitt er að sjá nokkurn mun á þessu liði.

Íslenskt heilbrigðiskerfi er að hruni komið og ástand Landsspítalans er hin raunverulega einkunnarbók stjórnmálaflokkanna.

Íslenskt menntakerfi er eitt það dýrasta og óskilvirkasta innan OECD.

Stefnuleysi í húsnæðismálum og staða ÍLS segir allt sem segja þarf um þann málaflokk.

Og svona væri hægt að halda áfram.  Það sem er að renna upp fyrir fólki er að íslensk stjórnmálastétt er lítið annað en samansafn af mismunandi útgáfum af galdrakarlinum í OZ.  Þetta lið kann ekkert annað en að setja á flokksskipaða sjálfstýringu en vandamálið er að kerfin eru enn stillt á fyrirhruns kúrs.

Núverandi kynslóð samanstendur af stöðnuðum dekurkrökkum sem aldrei hefur verið sett mörk eða kunna að fara með peninga., Hún kann ekkert nema frasa og er öll upptekin af ímynd og leikaraskap en ekki innihaldi.  Hún hefur ekki þann metnað eða kunnáttu sem foreldrar hennar höfðu sem byggðu hér upp velferðarkerfi eftir seinna stríð.

Og nú þegar út á ólgusjó er komið, er bara rifist og skammast um aukaatriði og eina lexían sem liðið man úr skóla er litla gula hænan.  Henni er óspart beitt og allir halda að lykilinn að bættum lífskjörum séu miklar launahækkanir fyrir sig en minni fyrir aðra.

Svona geta hlutirnir ekki haldið áfram.  Með sama áframhaldi munu Íslendingar á endanum missa yfirráð yfir þessari eyju.  Eftir 100 ár er ekki útilokað að pólska verði orðið opinbert mál á Íslandi.  Það er kannski hin endanlega lausn að afkomendur Ingólfs Arnarssonar afhenda keflið nýjum hóp innflytjenda á 1200 ára afmæli fundar hans.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur