Laugardagur 21.12.2013 - 20:21 - Lokað fyrir ummæli

Orkneyjasaga hin nýja

Það fer ekki mikið fyrir fréttum frá Orkneyjum á Íslandi þó þar búi frændur okkar.

En samkvæmt áramótaútgáfu The Economist er talið að Orkneyjar og Hjaltlandseyjar sjái sér klókan leik á borði til að auka sjálfræði yfir eigin málum samhliða þjóðaratkvæðisgreiðslu um sjálfstæði Skota á næsta ári.

Þó það séu yfir 500 ár síðan eyjarnar urðu hluti af Skotlandi hafa menn ekki gleymt norrænum uppruna sínum. Lengi býr af fyrstu gerð sannast þar sem víðar.

Samkvæmt greiningu The Economist eru eyjaskeggjar hlynntari sambandi við London en að lúta stjórn lögfræðinga í Edinborg eða verkalýðsforingja frá Glasgow. Nálægðin er ekki alltaf best!

Fari svo að Skotar samþykki sjálfstæði, sem er talið ólíklegt, er talið að Orkneyjar og Hjaltlandseyjar muni ekki fylgja með í “kaupunum”. Eyjaskeggjar muni fara fram á að verða áfram hluti af breska ríkinu en fá stöðu líkt og Færeyjar hafa í danska ríkinu. Það væri auðvita sárabót fyrir Englendinga að halda yfirráðum yfir nyrsta hluta Bretlandseyja. Þar eru auðug fiskimið og olíulindir. Staða eyjaskeggja er því sterk.

Fari svo að Skotar segi nei, sem er talið líklegast, munu lýðveldissinnar fara fram á aukið sjálfstæði yfir eigin málum og eyjasekggjar munu fylgja í kjölfarið. Það verður erfitt fyrir Skota að segja nei við eyjaskeggja á sama tíma og þeir eru að biðla um sömu hluti fyrir sig frá Englandi. Og þar sem Englendingar munu sjálfsagt vilja halda eyjunum góðum og á sínu bandi munu eyjaskeggjar fá sínu framgengt.

Það er því sama hvernig þjóðaratkvæðisgreiðslan fer, Orkneyjar og Hjaltlandseyjar munu fá aukið sjálfræði. Þá setur þessi staða eyjanna sjálfstæðisbaráttuna Skota í nýtt ljós. Ef eyjarnar fylgja ekki með í nýju lýðveldi Skota getur það haft áhrif á afstöðu manna í Skotlandi. Er verið að kaupa sjálfstæði með því að afhenda eyjarnar Englendingum? Margir Skotar munu eiga erfitt með að kyngja þeim bita.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur