Miðvikudagur 01.01.2014 - 15:46 - Lokað fyrir ummæli

2014

Árið 2013 var ár fjárfesta, allar vísitölur ruku upp nema gull og ríkisskuldabréf.

Þetta er að miklu leyti bandaríska seðlabankanum að þakka sem hefur haldið áfram að dæla peningum inn í hagkerfið og haldið vöxtum í sögulegu lágmarki.  En allt tekur enda.

Ávöxtunarkrafa á bandarísk ríkisskuldabréf er þegar farin að hækka og aðeins er tímaspursmál hvenær bandaríski seðlabankinn hækkar stýrivexti.

Þetta eru ekki góðar fréttir fyrir skuldsetta aðila hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki eða ríkisstjórnir.  Því skuldsettari, því meira högg verður vaxtahækkunin.

Ísland er berskjaldað gagnvart þessari hækkun, þar sem erlendar skuldir þjóðarinnar eru himinháar og á breytilegum vöxtum, lánstraustið lélegt og erlendur aðgangur að fjármagni byggist á áhuga áhættufjárfesta og vogunarsjóða sem taka Icesave vexti fyrir ómakið.

Höftin veita hér ákveðið tímabundið skjól þar sem raunvextir á íslenska áhættu eru lægri innan hafta en utan.  Þetta þýðir að þeir sem eru að lána krónur innan hafta eru að “niðurgreiða” vexti sem aftur brenglar áhættumat og fjárfestingaákvarðanir.

Eftir því sem erlendir vextir hækka eykst þessi “niðurgreiðsla” sparifjáreigenda til lántakenda.  En þar sem Ísland er land skuldara en ekki sparifjáreigenda er þessi eignatilfærsla í skjóli hafta talin af hinu góða af mörgum og þá sérstaklega stjórnmálastéttinni sem hefur uppgötvað að eignatilfærslur henta sérstaklega vel til atkvæðaveiða.

Ef létta á gjaldeyrishöftunum verður þessi “niðurgreiðsla” að hverfa, og lántakendur þurfa að fara að borga markaðsvexti og sparifjáreigendur fá eðlilega þóknun fyrir að lána fjármagn sitt.

Hvaða stjórnmálamaður ætlar að taka þessa “búbót” af skuldugum heimilum?

Íslendingar hafa aldrei geta ráðið við rétta markaðsvexti á sína eigin krónu.  Lengst af voru það fjárfestar sem niðurgreiddu vexti hér á árum áður.  Þetta leiddi til “skömmtunar” á lánum svo reynt var að fiffa þetta með verðtryggingu sem bjargaði fagfjárfestum en vanda lántakenda var frestað fram í tímann.  Skuldaleiðréttingin núna er ekkert annað en síðbúin “niðurgreiðsla”.  Þannig hafa flestir sem taka lán í krónum fengið einhvers konar “niðurgreiðslur”.  Þegar krónan var ekki innan hafta tóku allir erlend lán!

Það er vandséð hvernig á að aflétta höftunum og verðtryggingunni og láta heimilin og fyrirtækin standa berskjölduð í ólgusjó hins erlenda fjármálamarkaðar þar sem spekúlantar og vogunarsjóðir ráða ferð og heimta Icesave vexti.

En með langvarandi höftum munu lífskjör smátt og smátt dragast aftur úr nágrannalöndunum.

320,000 manna hagkerfi er einfaldlega of lítið til að halda úti eigin gjaldmiðli – kostnaðurinn er allt of hár.  Ísland mun aldrei búa við viðráðanlega vexti og frjálst flæði fjármagns með eigin krónu.

Hér verður að velja og hafna.  „Frestur er á illu bestur“ er engin framtíðarstefna en hentar vel sem pólitísk skammtímalausn.  Varla er að búast við miklum breytingum á nýju ári.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur