Miðvikudagur 08.01.2014 - 17:00 - Lokað fyrir ummæli

Ekki banna verðtrygginguna!

Leiðin út úr verðtryggingunni er ekki að banna hana heldur afnema þá “einokun” sem verðtryggingin býr við og skekkir alla samkeppni.

Vandamálið við verðtrygginguna er að hún hefur alltaf verið verðlögð á einokunargrundvelli. Neytendur hafa borgða of hátt verð fyrir verðtrygginguna í skjóli “einokunarumhverfis” fagfjárfesta.  3.5% lögbundin ávöxtunarkrafa lífeyrissjóða og bann lánastofnana við að bjóða skammtíma verðtryggða innlánsreikninga eru einmitt dæmi um samkeppnishamlandi lagasetningu frá 20. öldinni sem hyglar fjárfestum á kostnað neytenda.

Það þarf að opna fyrir samkeppni um verðtryggða fjármögnun þannig að fagfjárfestar sitji ekki einir þar að borði.  Á sama tíma þarf að tryggja verðtryggingarjafnvægi hjá lánastofnunum á skulda- og eignahlið.  Setja þarf viðmið þannig að ójöfnuðurinn þarna á milli sé innan skilgreindra marka.  Fari hann þar yfir komi til sektar frá FME.  Þá þarf einnig að setja undirmarkmið þannig að tryggt sé að verðtryggingarójöfnuður á milli innlána og útlána sé innan skilgreindra marka.  Þannig verði tryggt að lánastofnanir geti ekki dælt út verðtryggðum lánum nema að þau styðjist við raunveruleg verðtryggð innlán.  Koma þarf í veg fyrir að bankarnir freistist til að fari í gamla og dýra ÍLS módelið.

Með eðlilegri samkeppni á verðtryggðum fjámálamarkaði mætti auðveldlega lækka vexti á verðtryggðum lánum niður í 3%.  Slík lán byggja á breytilegum vöxtum og munu verða ódýrari fyrir neytendur, enda eru 40 ára verðtryggð lán á föstum 4.2-4.7% vöxtum einhver sú dýrasta fjármögnun sem völ er á.  Vandamálið við þessa leið er að hún myndi rústa ÍLS og setja ríkisfjármálin í uppnám.

Kaldhæðni örlaganna er að ÍLS er orðinn myllusteinn um háls íslenskra heimila.  Húsnæðislán ÍLS eru einhver þau dýrustu í heimi enda erfitt að finna lönd þar sem margir ellilífeyrisþegar borga 5% raunvexti á fasteignalán með veðhlutfall undir 50%.  Þetta er i raun ekkert annað en okurlánastarfsemi og á fátt skilt með félagslegri lánastarfsemi.

Ef útlendingar hefðu komið með þetta kerfi til Íslands væri löngu búið að kollsteypa því en þar sem hér er um að ræða innlenda „einokun“ í kraft hagsmunahópa er þetta orðið að óleysanlegu vandamáli.   Í raun eru háir vextir á verðtryggðum lánu “skattlagning” til að halda ÍLS og þar með ríkissjóði á réttu kili.  Enda er líklegt að menn verði að borga fyrir skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar með því að samþykkja bann við endurfjármögnun, annars er hætta á að heimilin notfæri sér “tvöfalda” leiðréttingu, fyrst niðurfellingu á höfðustól og síða endurfjármögnun, en matsfyrirtækin telja þetta of dýrt fyrir ríkissjóð og Framsókn er loksins farin að hlusta á skammstöfunarstofnanir!

Varla er hægt að hugsa sér meiri hringavitleysu en hinn íslenska húsnæðislánamarkað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur