Miðvikudagur 05.03.2014 - 11:39 - Lokað fyrir ummæli

Hagnaður bankanna

Mikið er talað um hagnað bankanna og litið á hann sem skattlagningartækifæri eða tækifæri til að lækka útlánsvexti. En hvaðan kemur þessi hagnaður?

Margir átta sig ekki á að stór hluti af þessum hagnaði kemur frá innlánseigendum. Innan hafta er auðvelt fyrir bankana að nota og stýra innlánsvöxtum til að ná arðsemiskröfu eigenda.  Innlánseigendur eiga sér fáa málsvara og yfir 90% af umræðunni eru um lántakendur og þeirra kjör. Það hefur aldrei þótt “cool” að spara á Ísland, það gera bara kverúlantar og ellilífeyrisþegar. Toppurinn er að slá lán.

Menn verða að gera sér grein fyrir að ef lækka á útlánsvexti niður á sama stig og í nágrannalöndunum með óbreytt bankakerfi þurfa innlánsvextir að vera núll eða negatífir. Og þótt íslenskir sparifjáreigendur séu þolinmóðir þá er varla hægt að búast við að þeir geymi fé sitt á núll vöxtum inni í bönkum í BB flokki.

Og hér er komið að vanda málsins. Höftin brengla allt áhættumat. Viðskiptabankarnir og Seðlabankinn versla ekki mikið við BB banka erlendis. Það væri talið allt of áhættusamt. En þegar kemur að eigin viðskiptavinum er talið að fjárfestingatækifæri í B flokki séu spennandi og henti öllum. En það gera þau alls ekki.

B flokkur er flokkur vogunarsjóða, þar líður þeim best og þar græða þeir mest. Því er Ísland eins og sérsniðið að þeim. Besta leiðin til að losna við vogunarsjóði og raunverulega lækka vexti á fjármálagjörningum er að hækka lánshæfiseinkunnina upp í A flokk. Þá fara vogunarsjóðirnir og þolinmóðir erlendir lífeyrissjóðir koma í staðinn. Og það er auðvitað grundvöllur þess að hægt sé að aflétta höftunum.

Stórt og vanmetið vandamál við afnám hafta á meðan Ísland er í B flokki er að innlendir fjárfestar og þá sérstaklega áhættufælnir fjárfestar vilja komast í fjárfestingartækifæri í A flokki. Og á meðan sá flokkur er ekki til á Íslandi mun þetta fé leita úr landi.

Vaxtastefna Seðlabankans er einfaldlega birtingarmynd þeirrar áhættu og óvissu sem felst í íslenska hagkerfinu. Það er mikil fylgni á milli lágvaxtastefnu nágrannalandanna og lánshæfiseinkunna þeirra. Að reyna að handstýra vöxtum niður með pólitískum aðgerðum án þess að vinna á áhættuþáttum hagkerfisins mun aðeins viðhalda höftum, ekki auðvelda afnám þeirra.

Afnám hafta mun aldrei takast vel nema í samvinnu við erlenda markaðsaðila, matsfyrirtækin og AGS. Því meir sem íslendingar reyna að gera þetta upp á eigin spýtur eftir íslenskri séruppskrift því meiri líkur eru á að afnám hafta klúðrist.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur