Laugardagur 15.03.2014 - 08:54 - Lokað fyrir ummæli

Ofmat á stöðu Íslands

Ísland er hluti af Evrópu.  Það er landfræðileg staðreynd sem ekki verður breytt.  Ísland er lítið skuldugt ríki sem ekki er að fullu með fjármagnaðan efnahagsreikning.  Þar með er Ísland vandamál í augum nágrannaþjóðanna.  Þetta vandamál þarf að leysa og það er alveg ljóst að það er Evrópuríkja að leysa það.

Eftir hrun voru það Evrópuríki sem veittu Íslandi neyðarlán ásamt AGS.  Ekki Bandaríkin, Kanada eða Rússland.  Seðlabanki Bandaríkjanna vildi ekki veita Íslandi lánalínur fyrir hrun og ekkert varð af Rússaláninu fræga sem Seðlabankastjóri tilkynnti með pomp og pragt á Bloomberg í hruninu.

Allt tal um að framtíð Íslands liggi í faðmi Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands eða Kína er óskhyggja í besta falli.  Bandaríkin sögðu pass við Ísland þegar herinn fór og þeir eiga nóg með Puerto Rico.  Hvers vegna ættu þeir að fara að bæta Íslandi við sín vandamál?  Þá munu Kanadamenn hugsa sig tvisvar um áður en þeir fara að seilast inn í Evrópu.

Ísland er vandamál Evrópu.  Lausnin er annað hvort að Ísland gerist meðlimur í ESB og standi þá jafnfætis öðrum Evrópuríkjum eða verði parkerað í EES faðm stóra bróður – Noregs, sem hefur mestu reynslu í að eiga við vandræðakrakkann.

Íslendingar verða að fara að vakna upp og gera sér grein fyrir hinni nýju geopólitísku stöðu sem ríkir nú í upphafi 21. aldarinnar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur