Mánudagur 17.03.2014 - 10:40 - Lokað fyrir ummæli

757 í vanda

Boeing 757 frá Delta flugfélaginu missti hluta úr væng á flugi frá Orlando til Atlanta í gær samkvæmt frétt CNN.   Giftusamlega tókst að lenda vélinni og engan sakaði.

Þetta er sama tegund og Icelandair notar.  Þetta eru gamlar vélar sem hætt er að framleiða.

Það eru kostir og gallar við að nota gamlar vélar.  Þessar gömlu 757 vélar sem önnur flugfélög eru að losa sig við hafa verið undirstaðan í þeirri sprengju af ferðamönnun sem hafa komið til Íslands frá hruni krónunnar.  Icelandair hefur tekist að anna eftirspurn frá ferðamönnum með þessum gömlu vélum fyrir lítinn aukakostnað.  Niðurstaðan er að gullgrafaraæði hefur gripið um sig á Íslandi, allir ætla að græða á ferðamönnum og bréf Icelandair hækkuðu um 120% á síðasta ári.  En er þessi þróun sjálfbær?  Hvað er hægt að keyra þetta módel lengi á gömlum vélum?  Hver er áhættan?

Helstu keppinautar Icelandair eru Easyjet og Norwegian, flugfélög sem nota einn yngsta flugflota í Evrópu og eiga yfir 200 nýjar vélar pantaðar.  Einingakostnaður þessara flugfélaga er lægri en hjá Icelandair.  Framtíðarstefna þeirra byggir á nýjustu tækni á meðan Icelandair ætlar að fara í blöndu af gömlu og nýju sem gæti orðið mjög kostnaðarsöm.  Að reka flugflota þar sem vélarnar eru af tveimur tegundum, önnur yngri en 5 ára, hin eldri en 20 ára gæti orðið dýrara en margir hluthafar gera sé grein fyrir.  Þar með gæti Icelandair orðið undir í samkeppninni, sérstaklega yfir hafið, og ef tekjur fara að falla á sama tíma og kostnaður eykst þarf ekki að spyrja um verðið á bréfunum á alvöru hlutabréfamarkaði.

Þetta skiptir máli þar sem Icelandair myndar yfirleitt í kringum 25-35% af eignum hlutabréfasjóða sem verið er að selja til einstaklinga.  Því þurfa þeir sem eru að hugsa um að kaupa í hlutabréfasjóðum á Ísland að hafa smá skilning á rekstri og samkeppni í flugi.  Sögulega séð hafa hlutabréf í flugfélögum verið áhættusöm og skilað litlum hagnaði til almennra hluthafa.  Spekúlantar hafa hins vegar margir stórgrætt á braski með bréf flugfélaga.

Önnur áhætta sem fylgir Icelandair er að reynsla af alþjóðlegum flugrekstri innan yfirstjórnar félagsins er afmarkaðri en í sambærilegum alþjóðlegum flugfélögum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur