Laugardagur 10.05.2014 - 08:40 - Lokað fyrir ummæli

Úr skjóli í mótvind haftanna

Það skjól sem krónan og gjaldeyrishöftin veittu fyrstu árin eftir hrun hefur snúist upp í mótvindi sem eykst með hverju árinu og heldur heimilunum og fyrirtækjunum í heljargreipum.

Látum tölur úr nýlegri grein Financial Times tala. Þar er vísað í að fjármagnskostnaður írska ríkisins sé orðinn lægri en hjá Bretum þrátt fyrir að Bretland hafi eigin gjaldmiðil og hafi lánshæfiseinkunn í A flokki. Írar eru enn með sömu lánshæfiseinkunn og Ísland, BBB en hún er jákvæð á meðan Ísland hefur neikvæða einkunn.

2011 náði ávöxtunarkrafa á írsk skuldabréf hæst 14% á meðan sambærilega krafa í krónum á íslensk bréf var í bilinu 6-7%. Þá veittu höftin skjól.

Í dag er ávöxtunarkrafa á 5 ára ríkisbréf, 1.03% í evrum á Írlandi og 6.08% í krónum á Íslandi. Ef við leiðréttum fyrir verðbólguna eru raunvextir á írsku bréfin 0.8% á meðan þeir eru 3.8% á þau íslensku. Á þremur árum hefur skjólið snúist upp í hressilegan mótvind krónunnar.

Ef íslenska ríkið hefði aðgang að írskum kjörum væri hægt að lækka vaxtakostnað ríkisins sem er í kringum 80 ma kr um tugi milljarða. Að sama skapi myndi vaxtakostnaður heimilanna og fyrirtækja hríðfalla. Í dag nota menn gengið 155 kr evran þegar verið er að kaupa inn drasl frá evruríkjunum en þegar kemur að því að borga skuldir “kostar” evran yfir 500 kr. Hvernig á að lækka þetta íslenska vaxtaorkur?

Í grunninn endurspegla þessar tölur traust og væntingar fjárfesta. Fjárfestar á Írlandi hafa trú á írsk stjórnvöld og evruna. Íslenska raunávöxtunarkrafan sem er rúmlega 4 sinnum hærri í þessu dæmi, sýnir að íslenskir fjárfestar hafa ekki sömu trú á krónuna og íslenska efnahagsstefnu. Erlendir aðilar á við OECD tala um að hækka þurfi vexti á Íslandi í framtíðinni, svo líklega getur þetta bil enn breikkað.

Það er kominn tími á að þeir sem aðhyllast krónuna fari að útskýra hvernig og hvenær eigi að ná vöxtum niður á svipað stig og í nágrannalöndunum? Eða er framtíðarsýnin að Ísland verði hávaxtaland Evrópu? Land spekúlanta og vogunarsjóða, þar sem menn veðja á að dýr lán standi undir vafasömum fjárfestingum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur