Fimmtudagur 04.09.2014 - 10:26 - Lokað fyrir ummæli

Aðeins pláss fyrir 2 banka

Ein stærsta áskorun sem íslenska bankakerfið stendur frammi fyrir liggur á tekjuhliðinni.

Það sem staðið hefur undir arðsemi stóru bankanna frá hruni eru hruneignir og lán sem þeir fengu á afslætti frá kröfuhöfum. Með því að færa upp virði lána og selja eignir í óskyldum rekstri hafa bankarnir myndað hagnað sem villir mönnum sýn á framtíðarstyrk þeirra og skekkir samkeppnisstöðuna. Það er nær útilokað að keppa við banka sem fengu hrunforgjöf frá ríkinu og kröfuhöfum. Það skal engan undra að sparisjóðskerfið er að lognast út af og rekstur MP banka er erfiður.

En sá tími kemur að hruntekjustofnar bankanna hverfa. Hvað þá? Hvernig ætla bankarnir að brúa það tekjutap sem fyrirsjáanlegt er í framtíðinni? Þeir geta ekki fundið nýja markaði erlendis eins og önnur íslensk fyrirtæki, enda vandséð að erlendir aðilar séu spenntir að fá íslenska banka aftur inn á sinn heimamarkað. Þeir geta ekki stolið markaðshlutdeild frá öðrum bönkun þar sem þeir eru líklega með um 90% af markaðinum nú þegar. Þeir geta hins vegar valið að velta þessu yfir á viðskiptavini, lækkað kostnað eða fórnað arðseminni og lagst á spena skattgreiðenda. En hversu stórt verður þetta tekjutap?

Til að svara þeirri spurningu er best að líta á reglulegar tekjur (hreinar vaxtatekjur og þjónustutekjur) sem hlutfall af heildarrekstrartekjum. Hjá viðskiptabönkum á hinum Norðurlöndunum er þetta hlutfall yfirleitt á bilinu 80-90%. Samkvæmt nýju hálfsársuppgjöri íslensku bankanna reiknast þetta hlutfall: Landsbankinn 55%, Arion banki 67% og Íslandsbanki 71%. Hjá MP banka er þetta hlutfall um 90% samkvæmt uppgjöri síðasta árs en þá var bankinn rekinn með tapi.  Það er ljóst að í framtíðinni mun þetta hlutfall hækka upp í 80-90% hjá stóru bönkunum. Það þýðir að bankarnir þurfa að “finna” um 30 ma kr. á ári í nýjar tekjur samanlagt. Ef heimilin og fyrirtæki landsins skipta þessu á milli sín hækkar bankakostnaður heimilanna um 200,000 kr á ári.

Það er auðvitað til önnur leið og það er að sníða bankakerfinu stakk eftir vexti.  Minna kerfi verður ódýrara og skamkeppnishæfara. Það kann að hljóma sem öfugmæli en 2 eru betri en 3 í þessu sambandi – „less is more“. Það er ekki pláss á litla íslenska markaðinu nema fyrir 2 stóra banka. Veikasta bankann verður að brjóta upp og sameina öðrum bönkum og/eða sparisjóðum.  Það mun skapa mikil hagræðingartækifæri sem á endanum mun færa viðskiptavinum ódýrari þjónustu og fjárfestum góðan hagnað.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur