Mánudagur 08.09.2014 - 07:33 - Lokað fyrir ummæli

Forsetinn og NATO

Eitt hlutverk þjóðhöfðingja er að veita varnarmálum þjóðar sinnar forystu. Þjóðhöfðinginn er jú sameiningartánk þegar kemur að varnarmálum og er þar yfir stjórnmálaþras hafinn.

Hér eins og á svo mörgum sviðum er örríkið Ísland sér á báti. Ísland hefur engan her svo það er auðvitað engin hefð fyrir sterkum tengslum þjóðhöfðingjans við varnir landsins. Svo hafa varnarmál alltaf verið stórpólitísk á Íslandi og endalaust þrætuepli. Það var því viðbúið að þegar núverandi forseti færði embættið yfir á pólitískt sprungusvæði að hann léti persónulega afstöðu sína til NATO lita forsetaembættið.

Afstaða forsetans til NATO er hin vandræðalegasta og forsetaembættinu til lítils sóma. Dyr Bessastaða virðast harðlokaðar fyrir NATO en galopnar fyrir Rússum á sama tíma og ríkisstjórn bóndans á Bessastöðum ákveður að auka fjárframlög til NATO til að verjast ógninni frá Rússlandi.

Rússar horfa til forsetans og verðlauna tryggð hans og þögn með því að hlífa Íslandi við viðskiptabanni og senda helsta sérfræðing Rússlands í heimskautamálum til Reykjavíkur sem sendiherra. Á sama tíma túlkar NATO utanríkisstefnu ríkisstjórnar Íslands sem stuðning í baráttunni gegn yfirráðum Rússa í Úkraínu. Aðeins herlaust örríki kemst upp með svona barnalega tvöfeldni.

Það er orðið bráðnauðsynlegt að loka þessari gjá á milli forsetans og ríkisstjórnar hans m.t.t. varnarmála. Annars er hætta á að þjóðhöfðingaembættið glati trúverðugleika. Það er algjörlega óskiljanlegt í augum erlendra aðila að forseti lýðveldis styðji ekki varnarstefnu ríkisstjórnar sinnar opinberlega, hvað þá reki prívat pólitík sem virðist ganga þvert á samþykkta stefnu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur