Fimmtudagur 25.09.2014 - 15:36 - Lokað fyrir ummæli

„Við fjármögnum lúxus“

Á meðan Landsspítalinn er í fjársvelti og neyðist til að færa starfsemi í gáma er önnur ríkisstofnun sem hefur gert lúxus að sinni stefnu. Landsbankinn tekur nú þátt í samstarfi við að efla lúxus á Íslandi og þar getur bankinn ekki verið eftirbátur annarra enda hefur hann keypt dýrustu lóð landsins undir nýja glerhöll.  “Við fjármögnum lúxus” gætu orðið einkunnarorð ríkisbankans.

Það sem ætti að hringja viðvörunarbjöllum hjá eigendum bankans er að þetta gerist á sama tíma og arðsemi bankans á eigið fé af reglulegum rekstri er undir fjármagnskostnaði ríkisins.  Bankinn er yfirfullur af fjármagni sem hann getur ekki fjárfest á viðunandi hátt.

Landsbankinn er með allt of mikið eigið fé sem aðrir geta notað betur.  Auðvelt væri að minnka bankann og færa eigið fé hans niður um fjórðung án þess að eiginfjárhlutfall FME væri í hættu. Þar með gæti ríkið losað um 60 ma kr sem myndi lækka vaxtakostnað ríkisins um 3 ma kr á ári. Þessa peninga væri hægt að nota betur hjá Landsspítalanum en Landsbankanum.  Þetta er að mestu leyti tilfærsla á peningum innan ríkisapparatsins og snýst því um forgangsröðun.

Það er bara eitt tæknilegt vandamál við þessa leið og það eru kröfuhafar bankans sem bíða eftir svari ríkisstjórnarinnar.  Á meðan situr allt pikkfast og spítalinn sveltur og sjúklingar þjást.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur