Laugardagur 25.10.2014 - 10:10 - Lokað fyrir ummæli

Icesave klúðrið hrellir enn

Icesave er enn að hrella Íslendinga.  Það stendur í vegi fyrir afnámi hafta og getur leitt til gengisfellingar og verðbólgu að mati Seðlabankans.  Hvernig gat þetta gerst?  Var Icesave ekki útkljáð með frægu dómsmáli sem Íslendingar unnu?  Já og nei.

Það sem vill gleymast er að búið var að klúðra Icesave áður en það komst í þjóðaratkvæðisgreiðslu.  Mestu mistökin voru gerð í upphafi þegar Icesave var slitið í sundur og hryggjarstykkinu komið á bak skattgreiðenda.  Af einhverjum ástæðum virðast menn aldrei hafa haft nógu skýra heildarsýn á málið.  Menn drukknuðu í lögfræðilegum smáatriðum og pólitískri hugmyndafræði, en gleymdu að horfa á heildarmyndina út frá sjónarhorni andstæðingsins.  Þetta varð dýrkeypt eins og alltaf er að koma betur í ljós.

Fyrstu og stærstu mistökin voru að endurreisa Landsbankann sem ríkisbanka og fjármagna hann með sömu Icesave peningunum og felldu gamla bankann.  Önnur mistök voru að breyta þessum ótryggðu Icesave innistæðum í sértryggð skuldabréf sem hafa forgang yfir innistæðueigendur nýja bankans, þvert á neyðarlögin.  Þriðju mistökin voru að slíta þennan hluta Icesave frá restinni og setja ekki inn viðskiptalega varnagla til að tryggja hag ríkisins.  Fjórðu mistökin voru að gæta ekki að gjaldmiðla jafnvægi eigna og skulda megin við kaup á eignum þrotabús gamla bankans.

Með því að endurreisa Landsbankann meir á pólitískum forsendum en viðskiptalegum töpuðu Íslendingar fyrstu og mikilvægustu orrustu stríðsins við kröfuhafa.  Með einu pennastriki voru kröfuhafar klipptir úr snörunni og eignir þeirra sem voru nær verðlausar fengu allt í einu áhugasaman kaupanda sem var tilbúinn að borga topp verð í gjaldeyri með góðum tryggingum.

Þegar hér var komið sögu var skynsamlegasta leiðin að reyna að bjarga því sem bjargað varð með samningum.  Að láta restina af Icesave fara fyrir dóm var mikil fífldirfska. Sem betur fer unnu Íslendingar það mál, en það var ekki gefið, og eftir situr fyrsti Icesave hlutinn sem samið var um, en nú ógnar fjármálastöðuleika landsins. Og það sem er verra, er að í millitíðinni er eigendahópur Icesave-skuldabréfsins að breytast.  Hollendingar hafa selt sínar kröfur og vogunarsjóðir sem eiga keppinauta ríkisbankans eru líklega að verða ráðandi í eigendahópnum.  Þetta gerir alla samninga snúnari enda eru hagsmunir vogunarsjóðanna aðrir en ríkisstjórna Hollands og Bretlands.

Það er ekki öfundsverð staða sem ríkisbankinn er kominn í að verða að biðla til lánadrottna sinna, sem jafnframt eru meirihlutaeigendur hinna bankanna, um skilmálabreytingar á 230 ma kr. skuldabréfi sem er tryggt í bak og fyrir.  Þar liggur flókin hagsmunaflétta sem gæti reynst ríkinu dýrkeypt, t.d. þegar kemur að sölu Landsbankans.  Erfitt getur þá reynst að fá bókfært virði bankans tilbaka í ríkiskassann.

Líklega er þetta Icesave mál annað mesta klúður eftirhrunsáranna á eftir hruni heilbrigðiskerfisins.  Hér liggja mikil lærdómstækifæri fyrir nýja kynslóð sem vonandi nær að lyfta sér upp úr hrunpytti kynslóðarinnar á undan.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur