Miðvikudagur 29.10.2014 - 08:16 - Lokað fyrir ummæli

Það er hægt að leysa vandann

Fyrir rúmum 5 árum skrifaði síðuhöfundur pistil sem nefndist “Lærum af reynslu Breta” og fjallaði um hættuna af flötum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu:

“Bretar fóru í flatan niðurskurð upp úr 1990 með skelfilegu afleiðingum fyrir heilbrigðisþjónustuna hjá sér.  Biðlistar lengdust, óþrifnaður og ringulreið jókst, þar sem það eru takmörk fyrir hvað er hægt að leggja á færri og færri hendur.  Á ákveðnum tímapunkti hrynur kerfið eins og við þekkjum það. Það tók Breta 10 ár að vinna kerfið aftur upp með miklum kostnaði.”

Niðurskurður hjá Bretum var í kringum 10% sem er af sömu stærðargráðu og íslenska heilbrigðiskerfið hefur þurft að þola síðustu 6 árin.  En þar með er ekki öll sagan sögð. Breska kerfið er ekki ósamkeppnishæft um kaup og kjör heilbrigðisstarfsmanna og kostnaðarþáttaka sjúklinga er mun minni en á Íslandi.

Ástandið á Íslandi 2014 er á mörgum sviðum verra en hjá Bretum upp úr 1990.  Hér er þjónustan oft á mörkum þess að geta talist viðunandi, biðlistar langir, kjör ósamkeppnishæf, húsakostur lélegur og tæki gömul og úr sér gengin.

Hvað ætli kosti að koma heilbrigðiskerfinu upp í viðunandi og sjálfbært ástand þegar allt er reiknað?  Það er nefnilega ekki nóg að byggja nýjan spítala, það þarf að reka hann sómasamlega með hæfu fólki og það kostar sitt.

Nýlega kom út skýrsla í Bretlandi um framtíð breska heilbrigðiskerfisins.  Þó fjárframlög hafi ekki verið skorin niður hjá NHS, þá vantar peninga til að sinna sjúklingum framtíðarinnar.  Þetta er m.a. vegna aldursamsetningar, fólksfjölgunar og framfara í læknisþjónustu.  Fjárframlög þurfa að aukast um a.m.k. 1.5% á ári að raungildi næstu fimm árin bara til að viðhalda núverandi þjónustustigi.

Hvar er hliðstæð greining á íslenska heilbrigðiskerfinu?  Hvar er fimm ára planið?  Hvað kostar að koma þjónustunni aftur upp á viðunandi stig og hvernig á að fjármagna það?  Það er ekki nóg að gauga milljón hér og þar inn í kerfið á aukafjárlögum og halda að þar með sé allt í lagi.

Íslensk heilbrigðisþjónusta er vandamál sem þarf að leysa.  Lausnarmengið þarf að byggja á rökréttri greiningu og skilningi á hvar takmörk hins opinbera liggja þegar kemur að greiðslu- og fjármögnunargetu.  Það er engin ein lausn til, heldur þarf að vega og meta alla möguleika og umfram allt að halda sig við það sem er framkvæmanlegt og skynsamlegt.  Í þeirri vinnu þarf að leggja hugmyndafræði íslenskra stjórnmálaflokka til hliðar og læra af reynslu nágrannaþjóða og þeirra sem hafa reynslu og þekkingu af heilbrigðisþjónustu.

Ég efa stórlega að lausnin finnist í hugarheimi íslenskra stjórnmálamanna.  Á þeim bæ hefur engin haldbær lausn komið fram frá hruni.  Er ekki kominn tími til að láta aðra spreyta sig?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur