Föstudagur 16.01.2015 - 10:10 - Lokað fyrir ummæli

Plottið um bankana

Plottið um bankana heldur áfram.

Nú hafa kröfuhafar danglað ómótstæðilegri gulrót fyrir framan Framsókn.  Þeir vilja afhenda Arion banka – gamla Búnaðarbankann – ríkinu, þegar um 2 ár eru eftir af kjörtímabilinu, sem er akkúrat nógur tími til að koma bankanum í hendur nýrra eigenda, t.d. Kaupfélags Skagfirðinga?

Þar með er hægt að fara í ný helmingaskipti, Framsókn fær Arion og Sjálfstæðisflokkurinn fær Landsbankann – tært déjà vu!  Og burt með Bankasýsluna, hún er bara til trafala þegar svona tækifæri gefst.

Þessi flétta er ómótstæðileg og allt tal um vonda kröfuhafa og 800 ma kr svigrúm virðist út í veður og vind.  Þetta var klókur leikur hjá kröfuhöfum sem munu fá sinn gjaldeyri og geta þá í eitt skipti fyrir öll yfirgefið Ísland og snúið sér að vinveittari hagkerfum.

Fyrir almenning eru þetta vondar fréttir.  Hér mun einstakt tækifæri til hagræðingar innan bankakerfisins tapast.  Tækifæri til að fækka “stóru” bönkunum úr 3 í 2 með sameiningu Arion og Landsbankans og sölu eigna, sem myndi skila sér í ódýrari og skilvirkari fjármálaþjónustu til heimilanna og minni fyrirtækja, verður að víkja fyrir hagsmunum stjórnmálaflokkanna og þeirra vildarvina.

Það verður spennandi að fylgjast með hvaða hópar innan stjórnmálastéttarinnar verða á endanum ofan á og hljóta krúnudjásnið.  Þá verður ekki síður fróðlegt að fylgjast með hvernig þetta plott verður fjármagnað og af hverjum?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur