Mánudagur 19.01.2015 - 10:11 - Lokað fyrir ummæli

Verðmæti í ESB umsókn

Það geta falist mikil verðmæti í ESB umsókn sem liggur á ís.  Til að átta sig á þessum verðmætum þurfa menn að leita í smiðju afleiðufræða, nánar tiltekið verðlagningar valréttar (e. option pricing).

Samþykkt umsóknarferli felur í sér valrétt sem Íslendingar geta tekið upp hvenær sem er.  Afturkölluð umsókn eyðir þessum valrétti án þess að efnahagslegur ávinningur komi á móti þeim verðmætum sem tapast þegar valrétturinn hverfur.

Í raun má færa fyrir því sterk rök að ESB valrétturinn sé verðmeiri nú en áður enda er verðmætið í hlutfalli við hversu erfitt og tímafrekt það er að koma umsókn í gegnum öll þjóðþing ESB landanna.  „Tíminn er peningar“, eins og sagt er.  EES kemur ekki í staðinn fyrir ESB valrétt, þvert á móti, því meiri óvissa sem ríkir um framtíð EES, því verðmætari er ESB valrétturinn.  Þá styrkir það stöðu Íslands innan EES að vera umsóknarríki.  Án umsóknar er Ísland lítið annað en aftaníkerra hjá Norðmönnum.  Eru menn búnir að gleyma hvernig Norðmenn snéru á Íslendinga í makríldeilunni?

Þeir sem vilja afsala sér þessum valrétti fyrir hönd þjóðarinnar þurfa, í það minnsta, að koma fram með efnahagsleg rök.  Þar sem það kostar ekkert að hafa umsóknina á ís, þarf valrétturinn að hafa neikvætt verðgild til að réttlæta afturköllun, en hvar eru rökin fyrir því?  Menn “eyða” nú varla verðmætum nema að fullar bætur komi fyrir?

Sú staðreynd að Svisslendingar liggja enn með sína umsókn á ís gefur sterka vísbendingu um að allt tal um “neikvætt verðgildi” sé byggt á fölskum forsendum, enda gerir afleiðufræðin ekki ráð fyrir neikvæðu verði á valrétti í alvöru markaðshagkerfi.  Hins vegar gæti ESB valrétturinn haft neikvætt pólitískt verðgildi, það er annað mál.  Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að vilji menn afturkalla ESB umsóknina er ekki skynsamlegt að gera það fyrr en samningar hafa tekist um langtíma útfærslu og kostnað við EES.

Það yrði í klassískum íslenskum anda að afsala sér langtíma verðmætum og veikja eigin samningsstöðu gagnvart ESB og Noregi til þess að ná í innlendan pólitískan stundargróða!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur