Mánudagur 23.03.2015 - 07:45 - Lokað fyrir ummæli

Ísland 0 – Noregur 1

Bréf utanríkisráðherra Íslands til ESB er lítið annað en sjálfsmark hjá Íslandi.  Hinn raunverulegi sigurvegari er Noregur.

Að senda bréf sem ekkert mark er tekið á og engin samvinna var um er tímasóun.  Skilaboðin eru skýr og þau sömu og í makríldeilunni – Íslendingar fara sínar eigin leiðir og eru óútreiknanlegir.  Fleiri munu nú segja að eini aðilinn í Norður-Atlantshafi sem talandi er við og treystandi sé Noregur.  Norðmenn eru núna einu skrefi nær að geta litið á EES samninginn, sem Ísland hefur gert að hornsteini sinnar utanríkisstefnu, sem de facto tvíhliða samning á milli Noregs og ESB.  Áhrif Íslands eru hverfandi, enda hafa Íslendingar ekki uppfyllt EES samninginn frá hruni og erfitt er að sjá hvernig Ísland ætlar á eigin spýtur að uppfylla ákvæðið um frjálst flæði fjármagns í náinni framtíð, nema með sligandi kostnaði fyrir heimilin í landinu.

Hins vegar er eðlilegt að nú þegar Ísland hefur skellt hurðinni á ESB og sagt að Íslendingar þurfi ekki á hjálp ESB að halda að Evrópulöndin geri kröfu um að Ísland aflétti fjármagnshöftum.  Fyrr standa aðilar ekki jafnfætis gagnvart framtíð EES samningsins.

Hér er Ísland búið að koma sér í klemmu sem stóri bróðir í Noregi mun nýta sér til hins ítrasta.  Afleiðingin fyrir Ísland verður líklega enn meiri einangrun undir þykkum pilsfaldi Norðmanna.  Og þetta kalla menn toppinn á fullveldinu!  Ekki er öll vitleysan eins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur