Miðvikudagur 01.04.2015 - 07:14 - Lokað fyrir ummæli

Enska skýrslan hans Frosta

Þjóðhagspeningakerfi eins og lýst er í nýrri skýrslu á ensku til Alþingis mun aldrei virka og gerir lítið annað en að auka enn óvissuna varðandi stefnu Íslands í peningamálum.  Þá vinnur skýrslan gegn markmiðinu um losun hafta.

Til að skilja hið nýja kerfi er best að líta á það frá sjónarhóli heimilanna.  Bankakerfinu verður skipt upp í tvenn og einfaldað.  Öll greiðsluþjónusta verður hjá ríkisreknum seðlabanka í gegnum svokallaða færslureikninga.  Þetta þýðir að allir launareikningar landsins og debitkort verða hjá einum og sama aðila.  Þessir færslureikningar verða 100% tryggðir en bera enga ávöxtun eða verðtryggingu.

Ef menn vilja fá ávöxtun á fé sitt verða þeir að fara í bankana sem verða nú fjárfestingabankar með allri þeirri áhættu sem í því felst.  Þar verða aðeins í boði bundnir fjárfestingareikningar með a.m.k. 45 daga binditíma.  Ekki er að sjá að það verði innistæðutrygging á þessum reikningum enda verða allar innistæður hjá seðlabankanum.

Vörur eins og sparireikningar og yfirdráttarheimildir munu heyra fortíðinni til.  Engin praktísk reynsla er af svona kerfi.  Ekkert þróað land rekur svona kerfi.  Fara þarf aftur til gömlu Sovét til að finna einhverja hliðstæðu og allir vita hvernig það endaði.  Þá er spurningunni, um hvernig svona miðlægt þjóðhagspeningakerfi getur þrifist á opnum fjármagnsmarkaði innan EES þar sem viðskiptalönd Íslands nota núverandi kerfið, ósvarað.

Ansi er ég hræddur um að stór hluti heimilanna í landinu vilji ekki taka þátt í svona tilraunastarfsemi og muni einfaldlega færa bankaviðskipti sín yfir til nágrannalandanna – svo framalega sem það verði ekki bannað með höftum, því flest bendir til að ströng fjármagnshöft sé nauðsynlegt skilyrði fyrir einhliða innleiðingu á þjóðhagspeningakerfi.

Því miður er þessi enska skýrsla ekki sú töfralausn á krónískum peningamála vandræðum landsins, sem sumir gætu haldið.  Betra er að halda sig við íslenskan raunveruleika eins og hann er og vinna að praktískum lausnum sem geta fært heimilinum bæði stöðuleika og aukna velmegun.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur