Föstudagur 17.04.2015 - 10:27 - Lokað fyrir ummæli

Stoltenberg og Ólafur Ragnar

Eins og vanalega er Forseti Íslands víðsfjarri þegar framkvæmdastjóri NATO heimsækir Ísland.  Varnarmál landsins eru ekki hátt skrifuð hjá forseta vorum og líklega eru fá lönd innan SÞ þar sem þjóðhöfðinginn sýnir varnarmálum þjóðar sinnar jafn mikið skeytingarleysi og á Ísland.

Fyrir stofnríki NATO er þessi staða mjög vandræðaleg, sérstaklega í ljósi þess að Norðurlöndin hafa nýlega sent frá sér yfirlýsingu um að þétta raðirnar þegar kemur að vörnum landanna gegn helstu ógninni á norðurslóðum, nefnilega Rússlandi Pútins.

En lengi getur vont versnað.  Á sama tíma og Stoltenberg er á Íslandi berast fréttir þess efnis að Ólafur Ragnar muni hafa boðað komu sína til Rússlands í maí til að taka þátt í hátiðarhöldum til að minnast hernaðarsigra Rússlands með vini sínum Pútín.  Ef Ólafur Ragnar fer til Rússlands og hittir Pútin í maí en neitar að hitta Stoltenberg á íslenskri grund er hann að sýna vörnum Rússlands meiri virðingu en vörnum eigin lands.  Þetta getur því ekki verið satt, hér hljóta menn að fara með rangt mál.  Vonandi mun forsetaskrifstofan leiðrétta þessa rangtúlkun sem fyrst?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur