Fimmtudagur 25.06.2015 - 08:55 - Lokað fyrir ummæli

„Another one bites the dust“

Titilinn gæti verið nafn á stefnu stjórnvalda þegar kemur að sparisjóðum landsins. Nú er sparisjóðskerfið endanlega hrunið eins og svo margt sem fyrri kynslóðir byggðu upp af eljusemi. Svona fer þegar stjórmálamenn láta innihaldslausar yfirlýsingar taka við af faglegri stefnumótun. Þetta er nefnilega hætt að reddast.

Afleiðingin af hruni sparisjóðanna er að líklega eru yfir 95% af öllum bankainnistæðum landsmanna geymdar hjá innlánsstofnunum sem stunda fjárfestingabankastarfsemi. Fá OECD lönd hafa hærra hlutfall. Hvað varð um alla umræðuna um að aðskilja fjárfestingabankastarfsemi frá viðskiptabankastarfsemi? Það öfuga hefur gerst.

Val sparifjáreigenda hefur minnkað á sama tíma og kerfisáhættan hefur aukist. Ofaná þetta bætist svo að tryggingasjóður innistæðueigenda getur aldrei staðið undir EES lögboðnum tryggingum fyrir alla, ef einn af stóru bönkunum fellur. En AGS leggur hart að stjórnvöldum að afnema ríkisábyrgð á innistæðum. Hvað gera menn þá?

Lexía hrunsins er að hafa innistæður sínar í löndum sem búa við vel fjármagnaða tryggingasjóði og öruggt bankakerfi. Því færri og stærri sem innlánsstofnanir verða hér á landi því veikari verður kerfið fyrir sparifjáreigendur. Hvatinn til að fara með fjármagn í öruggara skjól vex að sama skapi. Þannig mun fall sparisjóðskerfins gera afnám hafta erfiðara og auka á óstöðugleika, þvert á markmið stjórnvalda.

Þetta dæmi sýnir vel hvað gerist þegar enginn hefur heildarsýn yfir málin, allir vinna í sínum fílabeinsturni. “Ekki ég”, segja menn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur