Miðvikudagur 12.08.2015 - 08:47 - Lokað fyrir ummæli

Lítið jafnræði í stjórnarháttum

Ófullkomnir íslenskir sjórnarhættir áttu sinn hlut í hruninu og enn er langt í land að þeir séu sambærilegir við það besta í nágrannalöndunum. Af einhverjum ástæðum hefur gengið mjög treglega að nútímavæða þennan þátt í íslensku samfélagi. Einna verst er ástandið hjá opinberum fyrirtækjum, en æskilegt væri að hið opinbera leiddi þessa þrónun en ræki ekki lestina.

Það sem stingur strax í augun þegar íslenskir stjórnarhættir eru bornir saman við norræna stjórnarhætti er að starfsmenn hafa ekki fulltrúa í íslenskum félagsstjórnum. Þetta er enn furðulegra þegar litið er til þess að atvinnurekendur hafa sína fulltrúa í lífeyrissjóðum sömu starfsmanna. Þetta er hrópandi óréttlæti og á líklega sinn þátt í lágum launum á Íslandi. Rödd starfsmanna fær ekki að heyrast í stjórnarherbergjum á Íslandi á sama hátt og á hinum Norðurlöndunum. Hvers vegna er land sem er leiðandi í kynjajafnrétti svo aftarlega á merinni þegar kemur að jafnrétti í stjórnarháttum?

Annar veikleiki íslenskra stjórnarhátta er að hlutverk stjórnarmanna er sjaldan vel skilgreint. Fátítt er að stjórnarmenn hafi skriflegar starfslýsingar eins og þekkist víðast hvar annars staðar. Án starfslýsinga er erfitt að velja “besta” fólkið inn í félagsstjórnir. Íslenska kerfið hyglar stærstu hluthöfunum, þeir ráða ferð, og það getur haft hræðilegar afleiðingar eins og fá lönd hafa reynt á jafn afgerandi hátt og Ísland. Minnihlutinn hefur sjaldan sína fulltrúa. Það væri til mikilla bóta ef stærstu fyrirtæki landsins hefðu a.m.k. 2 stjórnarmenn sem væru óháðir stærstu hluthöfum og öðrum stórum hagsmunaaðilum og væru valdir með aðstoð faglegra ráðgjafa. Að sama skapi ættu öll stærri fyrirtæki að hafa 2 fulltrúa starfsmanna í stjórn að norrænu fyrirkomulagi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur