Þriðjudagur 01.09.2015 - 10:29 - Lokað fyrir ummæli

Über kúl við Hörpu

Allt er þegar þrennt er og það á við um byggingu á hóteli við Hörpu. Í þriðja sinn frá hruni hefur borgarstjóri kynnt nýjan hóp fjárfesta sem ætlar að reisa lúxushótel við Hörpu. Og í þetta sinn er markið sett hátt, hvorki meira né minna en hótel í hinni über kúl keðju, Edition, en ritstjórar helstu tískublaða heims halda vart vatni yfir Edition hótelunum í Miami, New York og London.

Edition hótelin eru byggð í samvinnu við Marriott og bandaríska hönnuðinn, Ian Scrager, sem er frægastur fyrir að hafa stofnað Studio 54 í New York. Hótelin þykja marka nýja stefnu í lúxus og hönnun þar sem aðaláherslan er lögð á eftirminnilega upplifun gesta samhliða góðri þjónustu. En svona nýr lúxus er ekki ódýr. Gestir mega búast við að ekki verði mikill afgangur af 100,000 kallinum eftir eina nótt um háannatímann! Enda mun byggingarkostnaður í þessum 5 stjörnu flokki varla vera undir 70,000,000 kr. herbergið.

Fyrir ferðaþjónustuaðila, arkitekta og hönnuði eru þetta frábærar fréttir, en hver tekur fjárhagslega áhættu af þessu verkefni? Ekki Marriott, því þeir eru aðeins rekstraraðili hótelsins í Reykjavík, en hópur fjárfesta byggir og rekur hótelbygginguna. Edition hótelin í Miami, New York og London eru hins vegar á efnahagsreikningi Marriott og því er erfitt að meta hvernig fjárhagslega dæmið muni ganga upp fyrir eigendur hótelsins. Að vísu hefur þetta verið reynt áður í Honalulu, en þar gáfust eigendur upp á Edition eftir eitt ár.

Spurningin er á hvaða efnahagsreikningum mun áhættan af þessu verkefni liggja? Verður hún að mestu á Íslandi eða hjá erlendum fjárfestum? Bandarískt fjárfestingafyrirtæki fer fyrir hópi erlendra fjárfesta sem leiða verkefnið ásamt Arion banka, en óljóst er hversu mikið fé þessir aðilar leggja í verkefnið. Eitt vandamál er reynsluleysi aðila. Arion banki hefur litla reynslu af fjármögnun 5 stjörnu hótela og bandaríski hópurinn hefur litla reynslu af verkefnum fyrir utan Bandaríkin. Lítil eldfjallaeyja sem þekkt er fyrir efnahagslegan óstöðuleika er ekki áhættulaus staður fyrir hótel. Þá er auðvitað óljóst hvort það sé nægileg eftirspurn eftir 250 herbergjum í svona sérstökum og dýrum 5 stjörnu flokki í Reykjavík, sem muni skila eigendum viðunandi arðsemi. Sem ráðstefnuhótel verður hótelið einfaldleg of flott og dýrt. Lítill hópur ráðstefnuhaldara getur réttlætt að láta ráðstefnugesti búa á glæsilegu 5 stjörnu hóteli. Eigendur Hörpu fá því varla óskahótelið við hliðina á sér.

Íslensk reynsla af rekstri hótelbygginga er ekki góð, eins og Bændasamtökin vita manna best. Það er vonandi að innlendir aðilar kynni sér þetta verkefni ofan í kjölinn áður en þeir láta eigið fé eða fé annarra, svo sem lífeyrisþega inn í svona verkefni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur