Laugardagur 17.10.2015 - 13:11 - Lokað fyrir ummæli

Hvað ógnar stöðugleika?

Nýtt riti Seðlabankans, sem nefnist Fjármálastöðugleiki 2015/2, veitir innsýn inn í stöðugleikavanda gömlu bankanna. Almennt er talið að það sem ógni stöðugleika séu innlendar eignir þrotabúanna í krónum og gjaldeyrislán til innlendra aðila. Til að koma þessu út þarf að breyta krónum í gjaldeyri. Erlendar eignir búanna og erlendur gjaldeyrir í reiðufé eða verðbréfum í innlendri vörslu ógnar ekki stöðugleika.

Samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabankanum eru heildareignir föllnu búanna um 2,280 ma kr. Innlendar eignir í krónum eru 530 ma kr og þar af er eign í Arion banka og Íslandsbanka metin á 340 ma kr. Gjaldeyrislán til innlendra aðila eru 206 ma kr, en 201 ma kr er Iceave skuld Landsbankans sem búið er að semja um sérstaklega og verður að borga.

Glitnir og Kauþing hafa boðið 320 ma kr í stöðugleikaframlag sem þurrkar út allar íslenskar krónur sem þeir eiga og um helming af eign þeirra í nýju bönkunum, og stöðugleikaframlag LBI upp á 14 ma kr helmingar krónueign þess bú. Eftir stendur þá um 15 ma kr hjá LBI og 180 ma kr hlutur kröfuhafa í Arion Banka og Íslandsbanka ásamt 201 ma kr hjá Landsbankanum og 5 ma kr. í annarri gjaldeyrisskuld.

Hlutur kröfuhafa í Arion banka og Íslandsbanka eftir stöðugleikaframlag er lægri en Icesaveskuld Landsbankans og ber ekki samningsbundna ofurvexti og sértryggingu. Það ætti því að vera ljóst að skuld Landsbankans við Icesave er enn sá hlutur sem mest ógnar stöðugleika og takmarkar svigrúm Seðlabankans. En á þessu Icesave vandamáli er ekki hægt að taka nema að láta kröfuhafa hinna bankanna “borga” sem myndi gerast ef 39% skattur leggst á öll búin. Þá kemur upp sú staða að það verða kröfuhafar Kaupþings fyrst og fremst og svo Glitnis, sem verða látnir skaffa þjóðarbúinu gjaldeyri til að ljúka Icesave!

Það er skiljanlegt hvers vegna AGS varar við þessari 39% leið. Hún endar pottþétt í málaferlum sem enginn veit hvernig endar. Á meðan halda gjaldeyrishöftin áfram og líklega mun lánshæfismat landsins dala. Stöðugleikaframlagssamningur Lee Buchheits við kröfuhafa er verðmætur. Eru menn tilbúnir að kasta honum til að halda út í óvissuna? Í því getur falist hin mesta stöðugleikaógn.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur