Fimmtudagur 22.10.2015 - 15:04 - Lokað fyrir ummæli

Evruhreinsun Sjálfstæðismanna

Í nýlegir Gallup könnun sem Viðskiptablaðið stendur fyrir eru aðeins 4% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins mjög hlynntir upptöku evru. Menn hljóta að vera ánægðir með hreinsunarstarfið í Valhöll og þegar menn hafa losað sig við þessi 4% þá verður fylgi flokksins komið niður fyrir 20% – glæsilegur árangur munu einhverjir segja.

Kjarni stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins í dag eru hagsmunaaðilar krónunnar, enda er um helmingur flokksmanna mjög andvígir evru.  Spurningin er hvar ætla menn að ná í fleiri svoleiðis kjósendur? Það er helst hjá Framsóknarflokknum og svo VG.  27% Pírata eru mjög hlynntir evru en aðeins 11% mjög andvígir, þannig að erfitt getur reynst fyrir Sjálfstæðismenn að fiska hjá Pírötum.

Það sem er athyglisvert við þessa könnun er að þeir flokkar sem eru harðastir á móti eða með evru hafa misst mikið fylgi til Pírata. VG þar sem aðeins fleiri eru fylgjandi evru en á móti virðast halda sínu. Er það þessi harða afstaða, þar sem stjórnmálamenn vilja hafa vitið fyrir kjósendum, sem skýrir hrun þessara flokka og aftur hin opna afstaða Pírata og VG sem gerir þá meira aðlaðandi fyrir kjósendur?

Kannski er tími stjórnmálamanna sem hlusta lítið og veifa flokksályktunum einfaldlega liðinn?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur