Sunnudagur 06.12.2015 - 11:05 - Lokað fyrir ummæli

Guðs útvöldu þjóðir

Ísland og Ísrael eru Guðs útvöldu þjóðir. Alla vega þegar kemur að verðtryggðum lánum, en þessar tvær þjóðir búa víst einar að lánaformi sem sumir kenna við Guð almáttugan.

Guð hefur hins vegar verið mun mildari við Ísrael en Ísland þegar kemur að vaxtabyrði. Verðtryggð lán í Ísrael byggja á skuldabréfum sem bera 0.75% verðtryggða vexti en á Íslandi hefur hin guðlega tala 3.75% lengst af verið notuð og er óhagganleg, eða í það minnsta geta íslenskir stjórnmálamenn ekkert gert í málinu nema talað og lofað banni.

En vill Guð banna verðtryggð lán? Ekki er svo að sjá í hans fyrirheitna landi, Ísrael. Þar eru verðtrygg lán í boði og talin henta ungu fólki sem sér fram á góðar launahækkanir umfram verðbólgu í framtíðinni. Þannig getur ungt fókl fengið hærri lán fyrr á ævinni sem síðan má endurfjármagna eða greiða niður þegar það hækkar í launum á miðjum aldri. Fyrir launafólk á almennum kjarasamningum sem hækka í takt við verðbólguna eru verðtryggð lán hins vegar ekki eins spennandi.

En það er ekki aðeins að Ísrael sé blessað með lægri vöxtum, þar blómstrar lánaflóra sem varla fæst þrifist á köldum klaka. Ísraelskir bankar bjóða upp á 1) gengislán fyrir þá sem eru með laun í erlendum gjaldeyri, 2) gengistryggð lán fyrir þá sem eru með laun tengd erlendum gjaldeyri, 3) óverðtryggð lán á föxtum vöxtum eða breytilegum vöxtum sem annað hvort fylgja vöxtum seðlabankans eða markaðsvöxtum á ríkisskuldabréfum og svo 4) verðtryggð lán. Í Ísrael fær kúnninn raunverulegt val.

Ef íslenskir stjórnmálamenn fengju að ráða, væru öll lánaform bönnuð nema eitt. Hvers vegna eru Íslendingar að eyða einna manna mest, innan OECD, við að mennta landsmenn ef almenningur er settur á sjálfstýringu frá vöggu til grafar?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur