Laugardagur 12.12.2015 - 10:52 - Lokað fyrir ummæli

Um verðmat

Það er oft sagt að eign sé aldrei verðmeiri en það sem einhver er tilbúinn að borga fyrir hana. Það eru undantekningar á þessu, eins og öllu. Á Íslandi er helsta undantekningin að menn er oft tilbúnir að yfirborga hvern annan til að komast yfir eitthvað sem er í tísku þann daginn. Þannig semur klókur seljandi góða sögu um að fyrirspurnir um, eign til sölu, komi alls staðar frá og ekki síst frá útlöndum. Þá rjúka menn upp til handa og fóta til að vera fyrstir til að kaupa draslið.

Þennan leik léku erlendir aðilar af mikilli snilld fyrir hurn og spiluðu miskunnarlaus á íslenska hégómagirnd og smáborgaraskap. Það voru ekki svo fáar erlendu eignirnar sem íslensku bankarnir og útrásarvíkingar þeirra keyptu á yfirverði fyrir hrun.

Og þessi leikur er enn í fullum gangi. Í hruninu endaði eitt leikrit og annað hófst með endurnýjuðum leikhópi. Eftir hrun hefur leikurinn helst gengið út á að duppa upp gamlar eignir og selja lífeyrissjóðunum á yfirverði. Margir hafa efnast vel á þessu, enda hafa nýju bankarnir spilað með og oft verið hryggjarstykkið í slíkum dílum. En eitt sem menn lærðu af hruninu er að auglýsa þessar uppákomur minna.

Annað sem hefur breyst er að fjármagn til að slá upp stórum leiksýningum er takmarkað. Útlendingar vilja ekki lengur henda peningum í slíkan pytt sem síðan gufa upp eða enda sem stöðugleikaframlag þegar allt fer úr böndunum. Þannig standa Íslendingar frammi fyrir því að hafa ekki aðgang að lánsfé til að yfirborga hvern annan, nú þegar stærstu bankar landsins fara allir á markað. Og þetta peningaleysi getur sett strik í ríkisbókhaldið.

Í þessu sambandi er vert að skoða hvernig þeir sem sýsla með fjármál sem sína aðalvinnu líta á málið. Kröfuhafar Glitnis, sem eru búnir að reyna að selja Íslandsbanka lengi, töldu að best væri að láta hann í fangið á ríkinu sem stöðugleikaframlag. En slíkur gjörningur myndar um leið verðmat á íslenska banka, sem ekki er hátt. Og það er alls ekki víst að ríkið komi út í plús, því verðmiðinn á Landsbankanum fellur um leið og ríkið tekur við Íslandsbanka. En kannski endurspeglar þetta bara raunveruleikann? Íslenskir bankar á minnsta myntsvæði heims, sem hafa enga vaxtamöguleika erlendis, og keppa á markaði sem er yfirfullur af dýrum fjármálastofnunum í yfirstærð, eru í heildina aldrei verðmeiri en einn góður sparisjóður sem þjónar 330,000 manna samfélagi.

Því miður bendir margt til að íslenska ríkið endi uppi með um 400 ma kr. bundna í úreltu og verðlitlu bankakerfi á meðan Landspítalinn er fjársveltur. Hvernig endaði allt þetta fé í bankakerfinu en ekki í heilbrigðiskerfinu? Það verður verðugt rannsóknarefni næstu kynslóðar.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur