Miðvikudagur 19.10.2016 - 10:30 - Lokað fyrir ummæli

Um gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu

Gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta er göfugt markmið sem er erfitt og dýrt að uppfylla. Þeir sem hafa kynnst slíku kerfi, t.d. í Bretlandi, vita að það hefur sína kosti og galla.

Í slíku kerfi er kostnaði oftast stjórnað með ítarlegum klínískum leiðbeiningum sem eiga að takmarka notkun á dýrum aðgerðum og lyfjum. Þá er gríðarlegt álag og viðvarandi langir biðlistar vandamál þegar allt er “ókeypis”. Niðurstaðan er að forgangsraða þarf þjónustunni. Fólk á vinnualdri gengur fyrir en aldraðir og öryrkjar sitja eftir. Dýrustu aðgerðirnar og lyfin takmarkast oft við 65 ára aldurinn.

Ein afleiðing af gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi í Bretlandi er að einkarekin heilbrigðisþjónusta blómstra. Vinnuveitendur geta ekki beðið eftir að starfsfólk fái tímanlega heilbrigðisþjónustu. Fyrirtæki bjóða því starfsfólki upp á einkatryggingar. Þannig er hluti af sjúklingum tekinn úr opinbera kerfinu sem aftur léttir á biðlistum þar.

Í umræðunni á Íslandi vill oft gleymast að í þeim löndum þar sem heilbrigðisþjónustan er gjaldfrjáls, gegnir einkarekin þjónusta og prívat sjúkratryggingar mikilvægu hlutverki. Spurningin sem alltaf vaknar er hvers vegna á fólk ekki rétt á að kaupa sér tryggingar fyrir þeirri þjónustu sem ríkiskerfið skammtar eða veitir aðeins gegn greiðslu. Á einkarekin heilbrigðisþjónusta aðeins að vera á færi þeirra sem hafa efni á að fara erlendis og borga fyrir hana úr eigin vasa?

Hvernig gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta verður innleidd á Íslandi skiptir öllu máli. Verður hún fjármögnuð með auknum fjárframlögum eða biðlistum og klínískum skömmtunum? Líklega verður hér um einhverja blöndu að ræða.

Svo ættu kjósendur nú að muna að varasamt er að treysta orðum stjórnmálamanna um gjaldfrjálsa þjónustu. Loforðið um gjaldfrjálsan leikskóla endaði með niðurskurði á mat til leikskólabarna!

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur