Föstudagur 21.10.2016 - 11:43 - Lokað fyrir ummæli

Íslendingar plataðir

Enn er mál FIH bankans komið í umræðuna. Hvers vegna tapaði Seðlabankinn um 25 ma kr? Svarið er einfalt. Íslendingar voru plataðir, enn eina ferðina.

Listinn yfir fallnar fjárfestingar Íslendinga erlendis á þessari öld er langur. Yfirleitt er ástæðan sú sama. Erlendir aðilar sem eru að selja hafa yfirburðaþekkingu, reynslu og upplýsingar, en Íslendingar eru óskipulagðir með allt á síðustu stundu. Þetta er eitraður kokteill sem erlendir kaupsýslumenn hafa notað sér óspart til að græða á Íslendingum.

Hvert 10 ára barn getur áttað sig á þessu. Spurningin er einföld. Hver hefur, t.d., yfirburða þekkingu og reynslu af bankarekstri í Danmörku? Íslendingar eða Danir? Þegar aðrir eru með yfirburðaþekkingu og reynslu takmarka menn fjárfestingu við 5%. Þess vegna ættu menn alltaf að vera á varðbergi þegar erlendir aðilar reyna að selja fjárfestingar þar sem reynslu- og upplýsingahallinn er mikill. Í raun eru það aðeins sjávarútvegur og jarðvarmi þar sem Íslendingar hafa yfirburðaþekkingu og reynslu á heimsvísu.

Íslendingar hefðu getað sparað sér mikið tap á þessari öld, ef þeir hefðu aðeins lært af reynslu annarra. Fræg er fjárfestingasaga Breta og Frakka í Bandaríkjunum. T.d., hafa Bretar ítrekað reynt að hasla sér völl á bandarískum smásölumarkaði, en þær tilraunir hafa flestar mistekist með miklu tapi. Fátt kætir bandaríska kaupsýslumenn meira en Evrópubúar með opið tékkhefti sem eru að reyna að komast inn á bandarískan markað. Sama endurtók sig á Íslandi fyrir hrun þegar erlendir fjárfestar stóðu í röðum til að selja Íslendingum eignir á yfirverði. Sagan sýnir að útrás viðskiptamanna smáríkja yfir á þróaða erlenda markaði er þyrni stráð og ótrúlega áhættusöm.

Sjálfsagt er að bíða eftir skýrslu Seðlabankans um FIH bankann, en líklega verður hún tæknileg og menn munu gleyma að skoða ákvörðunarferlið og einsleitan íslenskan þankagang.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur