Sunnudagur 05.03.2017 - 09:01 - Lokað fyrir ummæli

„Einkavæðing“ í heilbrigðiskerfinu

Umræðan á Íslandi um framtíð heilbrigðisþjónustunnar er ansi einhæf og í raun Orwellian. Ríkisrekið er gott, einkarekið er vont. En málið er ekki svona einfalt. Í hinum vestræna heimi eru í grunninn 4 heilbrigðiskerfi. Ísland tilheyrir hinu svokallaða breska kerfi sem er á undanhaldi í flestum ríkjum. Aðeins tvö ríki halda úti nær hreinræktuðu ríkiskerfi, Kúba og Ísland. Ef íslenska kerfið er svona gott, hvers vegna eru þá ríki sem tóku upp samskonar kerfið á síðustu öld, eins og t.d. Svíþjóð, að færa sig fyrir í blandað kerfi?

Í stuttu og einföldu máli eru kerfin 4, eftirfarandi:

  1. Breska kerfið, þar sem ríkið rekur bæði tryggingarþáttinn og þjónustuhlutann. Kúba er besta dæmið um land sem fylgir þessu kerfi til hins ítrasta.
  2. Þýska kerfið, þar sem sjúkratryggingarþátturinn er rekin af samvinnu- og góðgerðafélögum undir eftirliti ríkisins. Spítalar eru reknir af einkaaðilum eða hugsjónarfólki í góðgerðaskyni, líkt og Landakotsspítalinn var í upphafi. Meirihluti Evrópubúa eru í þessu kerfi.
  3. Kanadíska kerfið, þar sem ríkið sér um tryggingarþáttinn en einkaaðilar og góðgerðafélög sjá um þjónustuna.
  4. Prívat sjúkratryggingar og borgað úr eigin vasa.

Flest lönd nota blöndu af 2-3 kerfum. Bandaríkin nota öll 4 kerfin sem kemur líklega mörgum á óvart, en breska kerfið er notað af bandaríska hernum og kanadíska kerfið er í boði fyrir alla Bandaríkjamenn 65 ára og eldri.

Gallinn við breska kerfið er að sjúklingurinn hefur lítið val, allt er ákveðið af ríkinu. Menn fara á biðlista og svo er þeim skammtaður aðgerðartími. Þróunin á þessari öld hefur hins vegar öll verið á þann veg að gefa sjúklingum meira val og meiri upplýsingar til að hjálpa við ákvörðunartöku. Því hafa lönd eins og Svíþjóð og Bretland í auknu mæli tekið upp blandað kerfi þar sem grunnkerfið er breskt en sjúklingar fá aukið val í gegnum þætti sem eru undir kanadíska kerfinu.

Það er alveg ljóst að íslenska heilbrigðiskerfið verður að fá að þróast með breyttum tímum og væntingum. Það er ekki hægt að ríghalda í hugsjónir frá síðustu öld, endalaust. Betra er að læra af reynslu nágrannalandanna og taka upp það besta þar, en að nota Kúbu sem hinn eina sanna áttavita í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur