Mánudagur 27.03.2017 - 08:47 - Lokað fyrir ummæli

Reykjavík er fullbyggð

Reykjavík er eins og San Francisco, báðar borgirnar eru byggðar á nesi. Landfræðilega takmarkast lóðaframboð því á 3 hliðar og þegar kemur að því að nesið er fullbyggt sprengir eftirspurnin upp verðið. Reykjavík er að komast á þetta stig. Fyrir utan flugvallarsvæðið eru aðeins rándýrir lóðabútar óbyggðir vestan Elliðaáa. Enda er markmið aðalskipulags Reykjavíkur til 2030 að fullbyggja nesið með þéttingu byggðar.

Þetta aðalskipulag á sinn þátt í hækkandi húsnæðisverði. Allt miðast við að gera nesið að kjarna borgarinnar, þar er öll athygli skipulagsyfirvalda. Samgönguframkvæmdir sem geta auðveldað aðgengi þeirra sem ekki búa á nesinu og aka bíl, fá engan hljómgrunn. Þeir sem ekki vilja sitja í endalausum umferðarsultum í Ártúnsbrekkunni eða á Breiðholtsbrautinni, og hafa fjármagn, geta keypt sig út úr vandanum og flutt. En það er dýrt og verðið fer síhækkandi. Þannig hjálpar hugmyndafræði vinstri meirihlutans að gera Reykjavík vestan Elliðaáa að virki fjármagnseigenda.

Það er því eðlilegt að nágrannasveitarfélögin taki að sér að mæta almennri húsnæðiseftirspurn, sérstaklega þegar kemur að hagkvæmum íbúðum. Framtíð höfuðborgarsvæðisins liggur fyrir utan Reykjavík. Þetta ættu menn að hafa í huga þegar kemur að staðsetningu á nýju sjúkrahúsi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur