Föstudagur 25.08.2017 - 14:41 - Lokað fyrir ummæli

United Silicon fíaskó

Það er með ólíkindum að Arion banki skuli hafa látið um 9 ma kr. í hlutafé og lán í verkefni sem Global Speciality Metals, eitt stærsta fyrirtæki heims í kísilbræðslu, hætti við m.a. vegna flókins og áhættusams byggingarferlis, eins og kom fram í fréttatilkynningu fyrirtækisins á sínum tíma. Hóphugsun, meðvirkni og skortur á reynslu virðast enn ríkjandi innan íslensks fjármálaheims.

United Silicon kemur á hæla Fáfnis klúðursins. Í báðum tilfellum tapa lífeyrisþegar milljörðum. Hvers vegna? Hvað er líkt með þessum tveimur verkefnum? Hvað klikkar? Hinn stóri áhættuþáttur sem menn iðulega vanmeta er mannleg reynsla og þekking. Hvaða tæknilega reynslu af byggingu kísilverksmiðju höfðu æðstu stjórnendur United Silicon? Hversu lengi hafði stjórnunarteymið unnið saman? Hvernig mat Arion banki tæknilega og stjórnunarlega áhættuþætti?

Þetta klúður kemur á versta tíma fyrir Arion banka, rétt áður en menn ætla með hann á markað? Eins og oft hefur verið bent á í skrifum hér er einn stærsti einstaki áhættuþáttur í íslenskum bankarekstri lánabókin. Í litlum samfélögum er alltaf hætta á að persónulegir hagsmunir og kunningsskapur liti ákvörðunartöku og geri hana áhættusamari en í stærri samfélögum. Erlendir aðilar hafa oft vanmetið þennan íslenska áhættuþátt. Kannski verður þetta United Silicon fíaskó til að opna augu þeirra. Smitáhrifin á ríkisbankana gætu orðið neikvæð.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur