Laugardagur 28.08.2010 - 07:40 - 9 ummæli

“The Glass House”

 

Hornutlitlett

Arkitektinn Philip Johnson teiknaði “The Glass House” undir áhrifum Farnsworth House eftir Mies van der Rohe.

Húsið sem arkitektinn teiknaði fyrir sjálfan stendur í Connecticut í Bandaríkjunum. Þetta hús er það fyrsta af mörgum sem hann hefur byggt á landareign sinni sem er alls 47 ekrur að stærð. Hann kláraði húsið árið 1949 eða nákvæmlega 20 árum eftir að Mies byggði sýningarskála þjóðverja fyrir heimsýninguna í Barcelona 1929.

The glass house er með mjög opna grunnmynd sem samanstendur af skáparöð sem skermar af svefnherbergi og sívalningi sem myndar baðherbergi og arinn. Eldhúsið  er frístandandi  bekkur. Annað er það ekki.

Allir útveggir eru gler frá gólfi til lofts. Þetta er eins einfalt og hugsast getur.  Í raun eitt stórt 172 fermetra rými sem uppfyllir allar þarfir eins manns.  Lofthæðin er um 3 metrar.

Philipp Johnson var stjórnarformaður MOMA í New York og þótti viðeigandi að hafa myndlist í húsinu.  En þar sem engir veggir voru eru myndirnar látnar standa á pinnum upp úr gólfinu eða að þær voru látnar hanga úr loftinu.

Þó manni finnist húsið smellpassa inn í hugmyndir Mies van der Rohe um að  “less is more” ,  þá var gamli maðurinn ekki ánægður þegar Philip sýndi honum húsið. Sagt er að hann hafi rokið á dyr og sagt að það vantaði alla hugsun í smáatriðin.

Önnur saga segir frá því þegar hópur arkitekta kom í heimsókn til að skoða húsið og byrjuðu að spyrja arkitektinn einhverra rökstuddra gáfulegra spurninga um húsið,  þá hafi Philipp Johnson svarað og sagt: “Shut up and look around”

Útlitlett

glass-house-interior1[1]

PLANSkropp

 

Grunmynd hússins í öllum sínum minimalisma

Warhole m.m

Góðir gestir í heimsókn á góðri stund: Frá vinstri Andy Warhol, David Whitney, Philip Johnson, Dr. John Dalton og Robert A. M. Stern í the Glass House  1964

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

  • Árni Ólafsson

    Ef íbúðin er ónothæf til íbúðar – getur húsið þá talist góð byggingarlist?

  • Þorsteinn

    Tek undir með Samúel.

    Landslagmálverkið vekur athygli. Húsið er þannig staðsett að það er ekkert annað að sjá en síbreytilegt landslag. Hvert sem horft er.

    Þarna hefði átt að vera mynd af einhverju öðru, Konu kannski eða einhverri uppstillingu.

    Það er nóg af landslagi þarna….“LIFE“

  • Kári K.

    Þarna eru markmiðin sett og engar málmiðlanir í gangi.

    Þetta er auðvitað meistaraverk.

    Gallinn er bara sá að lífið er fullt af málamiðlunum og þess vegna er þetta gott hús að heimsækja en ekki gott til að eiga heima í.

    Húsið er án málamiðlana meðan lífið og atferli allt er ekkert annað en tómar málamiðlanir.

  • Hallgerður

    Mies var meistari og Farnsworth House er sannkallað meistaraverk, Johnson var vissulega oft heppinn arkitekt en ekki er samt hægt að bera hann saman við lærimeistarann . Less getur vel verið more – það er ekkert absoútt í því, veldur hver á heldur…..

  • Árni Ólafsson

    Less is a bore !!!

  • Samúel T. Pétursson

    Ég hnaut um landslagsmálverk á standi á síðustu myndinni.

    Af hverju?

  • stefán benediktsson

    Loftræsting var ekki aðalvandinn heldur vetrarkuldinn.

  • Guðmundur

    Eins gott að það sé góð loftræsting þarna inni, annars væri ólíft þarna í sólinni:)

  • Þorbjörn

    Glæsileg 61 árs bygging

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn