Þriðjudagur 07.03.2017 - 11:40 - 6 ummæli

15 fermetra sérbýli – í lúxusklassa?

 

Það var aldeilis ótrúlegt þegar stjórnvöld tóku sig til við að endurskoða byggingareglugerðina (nr.: 112/2012) í dýpstu byggingakreppu á landinu síðan síldin hvarf 1965-66. Breytingin var á allan hátt íþyngjandi fyrir byggingariðnaðinn og húsbyggjendur. Gerðar voru miklar kröfur umn lágmaksstærðir rýma innan íbúða og til einangrunar og ferilmála. Þetta voru allt ágætar kröfur í góðæri fyrir þá sem höfðu efni á þeim. En staðan var þannig að það var hallæri í landinu og enginn átti fé til eins eða neins. Höfundar breytinganna virtust veruleikafirrtir og skildu ekki ástandið í landinu eins og það var á þeim tíma. Reglugerðin eikenndist af takmarkalausri forræðishyggju sem lagðu þunga hönd á byggingabransann sem var nánast dauður.

Síðan þetta var hafa verði gerðar ýmsar breytingar á reglugerðinni sem mæta betur þörfum fólks og efnahag.

Hér í þessum pistli er kynnt micro hús sem ekki var hægt að byggja samkvæmt umræddri reglugerð. Það er í raun svo að á þessum 15 fermetrum hefði einungis verið hægt að koma fyrir eldhúsi og baði ef uppfylla átti kröfurnar. Og kannski með mikilli útsjónarsemi, geymslu til viðbótar!

Það er samt augljóst að í þessu húsi sem hér er fjallað um er varla hægt að búa án stuðnings frá umhverfinu.   Þarna vantar geymslu og þvóttahús. En líklega má bæta úr því með að stækka húsið um svina 3 fermetra eða sækja það sem á vantar í nágrennið. Þetta er mjög gott „annex“ við sérbýli fyrir unglinginn, garðyrkjumanninn eða heimilishjálpina, Au pair stúlkuna(drenginn) nú eða bara sem gestaherbergi eða fyrir tengdamömmu :-).

En best væri að búa til smáþyrpingar af svona húsum (4-5 hús) á þeim fjölmörgu vannýttu svæðum innan núverandi byggðar þar sem ekki er rými fyrir hefðbundin hús. En þá yrði að vera skilyrði um að íbúarnir hefðu þar lögheimili til þess að koma í veg fyrir að hugmyndin yrði misnotuð af ferðamþjónustunni.

Þetta hús sem hér er kynnt er fjöldaframleitt af fyritækinu Cubica í Costa Rica. Þeir kalla þetta Casa Cubica.  Þá er bara að taka upp símann og panta eitt stykki Casa Cubica til þess að setja í bakgarðinn eða á bílastæðið þegar einkabíllinn verður orðinn óþarfur!

Svona lýtur sérbýlið út. Fallega hlutfallað og með aðgengilegum þakgarði.

Álrýminu er stór draghurð sem opna má út á verönd sem eykur rýmiskenndina og gefur tilfinningu fyrir miklu meira olnbogarými.

 Barna eða gestaherberginu er fundinn staður. Hugsanlegt væri að sleppa efri kojunni og nýta rýmið undir fyrir vinnuborð eða hægindastóla.

Hjónarúmið er fellt niður frá veggnum. Fataskápar og skúffur við hliðina.

Eldhúsið er velútbúið með vaski, helluborði, bakara/örbylgjuofni og ísskáp. Allt í samræmi við þarfirnar í 15 fermetra sérbýli.  Þarna er hægt að elda allt það sem 2-3 einstaklingar geta í sig látið.

Þegar hjónarúminu hefur verið lyft upp að veggnum kemur í ljós ágætt vinnuborð eða borðstofuborð þar sem 4-5 manns geta setið við þægilegar aðstæður að snæðingi.

Velútbúið baðherbergi er í húsinu með sturtu o.þ.h.

Þakgarðurinn er ágæt viðbót við veröndina og garðinn. Þarna virðist húsinu komið fyrir á baklóð einhvers húss. Þarna glittir í bílskúr sýnist mér. Þessu húsi væri hægt að koma fyrir á ánast hvaða sérbýlislóð sem er á Íslandi. Einnig á flestum fjölbýlishúsalóðum.

Hér er húsinu komið fyrir í gróðursælu umhverfi. Svona húsi má koma fyrir á venjulenu bílastæði. Ef tvö bílastæði eru tekin undir húsið þá er kominn garður. Ekki er ólíklegt að nýta megi hluta bílastæðanna í borgunum undir svona byggð þegar einkabílunum fækkar.

Að ofan er grunnmynd hússins. Á netinu er sagt að þarna sé bæði þvottavél og þurrkari. Ég veit ekki hvar þau heimilistæki er að finna. Kannski í hornskápnum neðst til vinstri. Það er rétt að árétta að þetta er í raun 20 feta gámur. Algengustu gámarnir sem við þekkjum eru 40 feta.

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

 • Þorvaldur

  Tær snilld!

  Hvað kostar þetta?

  Ég þarf einn sem allra fyrst.
  Hvað með einangrun og leyfi? Ég sé að þarna er e.k. lofthiti eða blásari. Við viljum það ekki?
  Er ekki hægt að setja gólfhita í villuna?

 • Guðbjörg

  Þetta er einstaklega hugvitssamlega gert. Í Danmörku var eitthvað sem hét „ungdomsboliger“. Gæti þetta ekki flokkast undir það? Húsnæði fyrir einhleypa og unga sem ekki eru búnir að para sig eða eru í þeim prosess?

 • S. Sigurðsson

  Það má halda því fram að þetta sé heldur knappt hvað stærðina snertir og ekki til framtíðar. En sem skammtímalausn fyrir unga og fráskilda og fólk sem vantar tímabundið húsnæði er þetta algerlega upplagt.

 • Hörður

  Snilld Ættum að gera deiliskipulag fyrir 40-50 hús þétt í í knippi. . .Síðan væri stærra hús í miðju húsaþyrpingarinnnar, einskonar Miðgarður
  ( hjóla og vagnageymsla +þvottaaðstaða með gjald þvottavélum og samkomusalur )

 • Ég gerði einu sinni skurk í því að kynna mér svona rúm sem hægt er að leggja upp að vegg og það var ekki uppörvandi.

  Það segir sig sjálft að fellirúm verða að vera þannig úr garði gerð að ein manneskja geti tekið þau niður og fellt þau aftur upp að vegg og það með tiltölulega léttum leik. Og sem svefnpláss þurfa þau að uppfylla einhverjar lágmarkskröfur um þægindi og stabílitet ef það á að nota þau að staðaldri. Þetta er meiri háttar verkfræðilegt úrlausnarefni. Mér sýndist á öllu að fellirúm sem uppfylla þessar kröfur kosti fúlgur fjár, kannski eitthvað svipað og smáhýsið sem her er sýnt.

  Þetta er auðvitað ástæðan fyrir því að maður sér aldrei þessa snilldarlausn í raunveruleikanum. En í eldgömlum amerískum grínmyndum og sjónvarpsþáttum, reyndar. Fellirúm virðast nefnilega hafa verið notuð í einhverjum mæli í mjög ódýrum hótelum í BNA um miðbik síðustu aldar en þá var í rauninni um að ræða létta og skjöktandi bedda.

  Þessar staðreyndir koma nú samt ekki í veg fyrir að hönnuður grípa óspart til súper-einfaldra og fyrirferðalítilla fellirúma í smáhýsum sínum.

  Önnur vinsæl lausn hönnuða er að setja hjónarúmið upp á loft/pall alveg uppundir rjáfri. Sem þýðir að menn þurfa annaðhvort að klæða sig úr og í útafliggjandi á rúminu eða nota jarðhæðina til þess arna, semsagt klöngrast upp og niður lóðréttan stiga til að komast í og úr rúminu.

  Ungt fólk getur sætt sig við svona aðstöðu (sérstaklega ef bókstaflega ekkert annað húsnæði er í boði). En ég held að hið ídeala smáhýsi verði að bjóða upp á viðunandi aðstöðu fyrir allar daglegar athafnir fólks — svefnpláss, eldunaraðstöðu, klósett/bað, setu/vinnurými — ef það á að geta fúnkerað sem raunverulegt heimili fólks á einhverju skeiði lífsins. Annars verða svona smáhýsi eins og flóttamannabúðir sem fólk getur hreinlega ekki beðið eftir að losna úr.

 • Jóhannes Ómar Sigurðsson

  Hér er linkur á nýja hönnun, smart dönsk smáhýsi http://addaroom.dk/

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur