Mánudagur 18.12.2017 - 13:45 - 24 ummæli

Flökkusaga um staðsetningu Landspítalans.

Nú hefur sú flökkusaga gengið í hartnær heilan áratug að „allar“ staðarvalsgreiningar hafi bent á að heppilegast sé að byggja upp þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut. Þessi fullyrðing á ekki við nein rök að styðjast og er tóm vitleysa eins og sést þega gögn málsins eru skoðuð.

++++

En þessi flökkusaga lifir og var líklega sett af stað af embættismönnum og hefur verið haldið á lífi af þeim sem eiga hagsmuni að gæta í ein tíu ár.  Alþingismenn, ráðherrar og hönnuðir hafa trúað þessu og flutt hana áfram í blaðaviðtölum og fundum og haldið henni lifandi.  Jafnvel nýr heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, sem ég hef miklar mætur á, trúir þessu enda er þessu eflaust haldið fast að henni eins og fyrirenurum hennar. Hún segist  telja að best sé að byggja þjóðarsjúkrahúsið við Hringbraut sem er eins og áður hefur verið farið yfir er þvert á álit flestra umsagnaraðila um framkvæmdina sem vijla helst að byggt verði nýtt sjúkrahús frá grunni. Hinn ágæti heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson sagði líka á ársfundi Landspítalans fyrir tveim árum að „öll“ staðarvalsálit kæmust að sömu niðurstöðu,  þ.e.a.s. Hringbraut. Vonandi er ræðuskrifari Kristjáns ekki lengur við störf í ráðuneytinu.

+++

Einhvernvegin hef ég á tilfinningunni að embættismenn hafi sett þessa flökkusögu af stað og haldið henni að málsaðilum af slíkum þunga að flestir trúa henni.  Allar tilraunur til þess að leiða hið sanna í ljós eru kæfðar með þöggun eins og dæmin sanna.

Opinberar stofnanir hafa verið kallaðar til að grafa upp rök gegn því að gerð verði ný staðarvalsgreining á grunvelli núverandi skipulagsumhverfis og efnahagsástands. Eins sjálfsagt og það ætti nú að vera þegar langstærsta opinbera fjárfesting sögunnar, sem varðar alla landsmenn til langrar framtíðar, er í undirbúningi.

+++

Og nú stefnir allt í að ekki verði aftur snúið.

Því miður fyrir þing, þjóð og sérstaklega sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk framtíðarinnar.

+++

Hér eru slóðar að þrem álitsgerðum sem allar benda á að best sé að byggja nýjan þjóðarspítala frá grunni. Enga sannfæringu er að finna um að Hringbraut sé besti staðurinn. Þvert á móti bendir viðamesta skýrslan á að heppilegra sé að byggja við í Fossvogi ef ekki er möguleiki á að byggja nýtt á nýjum stað. Ég held að af öllum skýrslum sem ég hef lesið sé bara ein sem bendir á Hringbraut sem eina og besta kostinn. En hún var samin árið 2002 á grunvelli aðalskipulags sem er allt annað en það sem er í gildi í dag.  Læknaráð LSH leggur til við heilbrigðis-og tryggingarnefnd Alþingis að sú skýrsla verði endurskoðuð eins og lesa má að neðan. (20. apríl 2004)

Skýrsla Ementors, okt. 2001,

Álit hjúkrunar- og læknaráðs LSH, febrúar 2004.

Álit stjórnar læknaráðs LSH til Alþingis, 20. apríl 2004,

+++

Efst í færslunni er ljósmynd af Keldnalandinu sem er í eigu ríkisins. Þarna sjá borgaryfirvöld tækifæri til þess að byggja allt að 480 íbúðir sem er ekki skynsamleg ráðstöfun á landinu. Það er líklega hægt að byggja um 500 íbúðir í lágri þéttri byggð á spildunni milli gömlu og nýju Hringbrautar vestast í borginni þar sem mikil þörf er fyrir fleiri íbúðir.  Slík uppbygging þar og nýtt þjóðarsjúkrahús í landi Keldna mundu leysa gríðarlega stór vandamál í borgarlandslaginu og væri í fullkomnu samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur og Svæðaskipulag höfuðborgarsvæðisins. Það blasir við að þetta er miklu betri staður en Hringbraut til þess að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús til framtíðar. Það er í góðum vegatengslum við Vestur- og Suðurland og til Suðurnesja. Það er í góðum tengslum við sveitarfélögin sunnan höfuðborgarinnar og gatnakerfi alls svæðaskipulagsins og svo er landið í eigu ríkisins.

Það er ekki of seinnt að grípa þetta tækifæri ef einhver er að velta því fyrir sér.

++++

++++

Viðbót dags 19.12.2017. kl 20:09

Nokkri aðilar hafa spurt í tölvupósti  hvenær ég hafi fyrst heyrt þessa flökkusögu um að öll álit hafi komist að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja við Hringbraut og hvenær síðast og hverjir hafi haldið þessu fram.

Ég vil svara því til að ég man ekki hvnær ég heyrði þetta fyrst en það er líklega um 2009. Hverjir hafa haldið þessu fram?  er spurt. Það eru svo margir að ég treysti mér ekki til að nefna þá því eflaust mundi ég gleyma einhverjum en síðast heyrði ég þetta á opnum fundi í Norræna húsinu þann 19. október 2017 þar sem einn af æðstu stjórnendum spítalans hélt þessu fram og sýndi við það tækifæri hjálagðar tvær skyggnur.:

Eins og sjá má á skyggnu í kynningu Landspítalans stendur orðrétt.:

„Hringbrautin hefur alltaf haft vinningin í staðarvalsgreiningum“.

Sem er ekki rétt eins og dæmin sem að ofan eru reifuð sýna.

Hér er að ofan vitnað í skýrslu erlendra ráðgjafa sem er sögð komast að þeirri niðurstöðu að byggja skuli upp við Hringbraut. Þarna stendur orðrétt:

“ 2001     Erlendir ráðgjafar leggja til að uppbyggingin verði við Hringbraut„.

Ég hef ekki fundið þessa skýrslu þó ég hafi leitað eftir henni hjá fyrirlesaranum. Hinsvegar finn ég skýrslu Ementor sem rökstyður af hverju ekki sé heppilegt að byggja við Hringbraut og telur að ef ekki er mögulegt að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni sé Fossvogur besti kosturinn. Þarna skýtur skökku við.

Gera verður ráð fyrir að allir þessir aðilar hafi trúað því að þeir hafi farið með rétt mál, en sannleikurinn er annar. Þeir hafa líklega trúað flökkusögunni og ekki skoðað grunngögnin nægjanlæega vel.

++++

„Hvað EF menn hefðu…….“

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (24)

 • G. Þorsteinsdóttir

  Hvernig er hægt að haga sér svona?
  Hvað hangir eiginlega á spítunni?
  Ég ráðlegg fólki að opna viðhengin og lesa álitin.

 • Ég held að þetta sé mesta stjórnsýsluskömm Íslandssögunnar, nema ef vera skildi ábirgðaleysið í aðdragandi bankahrunsins 2008. Og það í sérstöku boði RÚV sem leikur orðið eitt stærsta hlutverkið.

  • Hilmar Þór

   Ég á ekki von á að þessum pistli mínum verði svarað frekar en annarri gagnrýni. Það er skilvirkasta leiðin að þagga málið. Réttast væri að svara, taka þátt í umræðunni og skipta um skoðun ef tilefni er til. Ég setti þetta líka inn á FB síðu arkitekta. Þar ríkir dauðaþögn.

 • Ég hef aldrei heyrt sannfærandi rök fyrir því að Hringbraut sé óhentugri staður en hver annar fyrir þessa starfsemi út frá skipulagslegum forsendum. Afhverju ættum við ekki að hafa stóra vinnustaði miðsvæðis hér á landi eins og allstaðar annars staðar í heiminum þar sem t.d. risaspítalar eru reknir í langt um meiri þéttleika en fyrirfinnst nokkursstaðar hérlendis án nokkurra vandkvæða?

  Finnst einhvern veginn nær að klára dæmið við Hringbraut og fara svo í staðarvalsgreiningu um hvar næsti spítali eigi að vera enda varla tækt að hafa einungis einn spítala á höfuðborgarsvæðinu þar sem langstærstur hluti þjóðarinnar býr. Allir sáttir 🙂

  • Horfðu bara à umferðina í vesturátt á morgnana og austurátt á kvödin. Af þeirri mynd má álykta að það sé nægjanlegt framboð af vinnu í vesturborginni en skortur á íbúðum fyrir fólkið sem þar sækir vinnu.

  • ,,Af hverju ættum við ekki að hafa stóra vinnustaði miðsvæðis hér á landi eins og allstaðar annars staðar í heiminum …“

   Miðsvæðis?

   Það er ekki eins og Hringbrautar-meinlokan sé miðsvæðis.

  • Hilmar Þór

   Ég skil þig vel Guuðmundur Kristján og veit hvað þú ert að tala um þegar þú spyrð „Afhverju ættum við ekki að hafa stóra vinnustaði miðsvæðis hér á landi eins og allstaðar annars staðar í heiminum þar sem t.d. risaspítalar eru reknir í langt um meiri þéttleika en fyrirfinnst nokkursstaðar hérlendis án nokkurra vandkvæða?“

   Við þekkjum báðir borg sem samanstendur af 20 hverfum. Hvert hverfi er milli 100 og 600 ha. Í hverju hverfi búa umilli 60.000 og 249.000 manns. Þar er þéttleikinn milli 100 og 440 íbúar á hektara. Í þeirri borg er allt í göngufæri vegna gríðarlegs þéttleika. Líka sjúkrahúsin og án „nokkurra vandræða“.

   Þetta er mín uppáhaldsborg, borg borganna, París.

   Reykjavík verður aldrei eins og París og það á heldur ekki að reyna að stefna að því. Í Reykjavík verða sjúkrahúsin aldrei í göngufæri fyrir alla íbúana eins og í París.

   Við þurfum að skoða Reykjavík útfrá hennar eigin forsendum og spegla viðfangsefnin í AR2010-2030 en ekki AR2001-2024, Og svo er þessi blekkingaleikur embættismanna auðvitað ámælisverður og stór hættulegur.
   Eða hvaða skoðun hefur þú á því öllu saman?

 • Hilmar Þór

  Svo ég svari spurningu þinni Guðmundur Kristján bara örstutt.

  Það er vegna þess að það er offramboð af atvinnutækifærum vestast í borginni og það er skortur á stórum vinnustöðum austar í borginni og það er skortur á íbúðahúsnði vestast í borginni og meira framboð austar.

  Svo einfalt er það.

  Svo þarftu ekki annað en að bera saman AR2001-2024 sem núverandi staðarval er byggt á og bera það saman við AR2020-2030.Þá blasir þetta við.

  Það er auðvitað rétt hjá þér að það þurfi að fara í staðarvalsgreiningu til framtiðar strax og helst um leið og drög að AR2010-2030 láu fyrir og byggja bara einn spítala samkvæmt hugmyndafræðinni frá árinu 2000 um sameiningu sjukrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu sem þetta er allt reist á. Ég er hinsvegar í miklum vafa um hvort það hafiverið rétt stefna og læt aðra um þá umræðu.

  En sannfærin mín um að uppbygging Þjóðarhússins við Hringbraut sé röng er byggð á skipulagslegum forsendum sem hafa verið tíundaðar hér á þessum vef núna í ein 8 ár.

  Þakka þér fyrir innlegggið Guðmundur Kristján.

  • Alveg sammála Hilmar að það þurfi að ná meira blöndun og betra jafnvægi milli búsetu og atvinnutækifæra í borginni, líkt og lagt er upp með í AR2030.

   Annars hef ég einlæglega ekki mjög sterka skoðun á þessu spítalamáli per se. Ég brenn miklu frekar fyrir því að fá 20.000+ manna byggð í Vatnsmýri, uppbyggingu Borgarlínunnar sem heildstæðs skipulagsverkefnis og að auka hlut „virkra“ samgöngumáta í borginni. Mér finnst staðsetning spítalans í raun ekki vera eitt af stóru málunum nema þá helst til að halda í þennan þríhyrning/suðupunkt vísinda- og þekkingasamfélags sem er að myndast á svæðinu með háskólasjúkrahúsinu, HR, HÍ og öðrum fyrirtækjum og stofnunum á borð við Decode, CCP osfrv. Í þannig umhverfi verða veldisáhrif sem eru mjög eftirsóknarverð í borgum og á ekki að vanmeta að mínu mati. Þ.e. svæði þar sem að summan af 1+1 verður miklu hærri en 2.

   Í því samhengi er ekkert annað svæði sem kemur til greina fyrir hátækni/háskólasjúkrahús í mínum huga.

  • Hilmar Þór

   Það er alveg hárrétt hjá þér Guðmundur kristjámn að ef meginforsenda staðetningarinnar er að þjóna „vísinda- og þekkingarsamfélaginu“ þá er Hringbraut frábær staðsetning. Á þetta hefur verið bent með ágætum rökum.

   En ef maður setur sjúklingana sem spítalinn á að þjóna (350 þúsund manns) í fyrsta sæti þá er Hringbraut ekki besti staðurinn. Sama á við ef maður setur umferðamálin í fyrsta sæti. Nú eða borgarskipulagið og borgarlandslagið í fyrsta sæti. Eða kröfuna um starfræn gæði bygginganna í fyrsta sæti. Eða fjárhagslegar byrgðar hvort sem er um að ræða stofnkostnað eða rekstrarkostnapð svo maður tali nú ekki um samfélagslegan kostnað í fyrsta sæti. Það er sama hvaða þátt af þessu sem hér eru nefndir eru settir inn í jöfnuna þá kemur Hringbraut ekki vel út. Sennilega bara mjög illa.

   Ég held að þjónustan við vísinda og þekkingarsamfélagið komi frekar aftarlega í forgangsröðinni. Það er allavega niðurstaða Ementorskýrlunnar út af staðsetningu Landspítalans og margra slíkra úttekta sem gerðar hafa verið í nágrannalöndunum og víðar. Þekkingarsamfélagið kemur langt að baki aðgengi og þjónusu við sjúklinga og starfrænna krafna sjálfra bygginganna.

   Í Köge í Danmörku er um þessar mundir verið að bjóða út háskólasjúkrahús á stað þar sem enginn er háskólinn.

   Því miður hefur ekki tekist að ná upp umræðu um þetta mikilvægasta mál borgarskipulagsins síðustu ára.

   En ég er fullkomlega sammála mikilvægi Borgarlínunnar sem ég hef skrifað með stórum staf frá fyrsta degi og ég sé að flestir sem eru henni fylgjandi eru farnir að gera það líka. 🙂

   Gleðileg Jól.

 • Ég hef veitt þessari staðhæfingu athygli og sé nú að fólkið hefir apað þetta upp hvert eftir öðru og við höfum trúað öllu saman.

 • Árni Ólafsson

  Svæðið milli nýju Hringbrautarinnar og Þingholtanna er miklu verðmætara fyrir miðborgina sem íbúðarbyggð en Vatnsmýrin, sem aldrei mun tengjast henni beint. Mér finnst bara það ærin ástæða til að skoða aðra kosti fyrir spítalann. Síðan eru þessi þungu rök sem nefnd eru um að færa stóra vinnustaði austar auk augljóss hagræðis af heildarendurnýjun, sem gefur kost á hámarkshagræði. Síðast og ekki síst verður að telja það stóran kost að byggingarframkvæmdir við nýbyggingar verði ekki við rúmgaflinn hjá sjúklingunum í áratugi.
  Það er meiri háttar vandamál að stjórnvöld hér kunna ekki að hætta við rangar ákvarðanir. Ætli stjórnendur telji sig verða minni menn ef þeir skipta um skoðun?

 • Hilmar Þór

  Vel mælt Árni. Hun er vissulega mikilvægari tenging ibúðasvæðis við miðborgina en tenging spítalans við miðborgina. Er það ekki augljóst?

 • Í Keldnalandi er skógrækt, útivistarsvæði, mikið fuglalíf og dýralíf við Grafarlæk. Ef það er hugmynd pistlahöfundar að byggja nýjan Landspítala þarna, þá gætirðu alveg eins lagt til að byggja hann í Elliðaárdal. Aftur á móti væri hægt að byggja íbúðahúsnæði í kringum náttúruna þarna, enda yrði slík byggð lágreist í takt við einbýli og raðhús í Foldum og Húsum.

  • Hilmar Þór

   Það er vissulega að mörgu að gæta í þessum efnum EBG en ég held að það sé ekki sanngjarnt að leggja Elliðáárdal að jöfnu við Keldnasvæðið fyrir utan að Elliðaárdalur er ekki eins hentugur staður fyrir spítalann.

   Það er líka rétt að velta fyrir sér öðrum atriðumsem varða málið eins og að ef spítalinn yrði fluttur af Hringbraut að Keldum mun draga úr hækkun fasteigna í 101 og fasteignaverð í Grafarvogi og Grafarholti, Ártúnsholti og Bryggjuhverfi mun hækka. Það mundi koma ykkur vel sem búið á svæðinu. En það er önnur saga.

 • Ég hef það soldið á tilfinningunni að við séum föst í stærstu félagsfræðitilraun allra tíma.

  Hún gengur útá það að kanna hvort það sé hægt að fá tugi þúsunda Reykvíkinga til að breyta búsetuóskum sínum og ferðavenjum í takt við framtíðarsýn sem fengin er að láni úr hollenskum og dönskum reiðhjólablöðum.

  Það sem er undir er ca. 200 milljarðar og skipulag alls höfuðborgarasvæðisins. Flugvöllurinn, Vatnsmýrin, spítalinn, Borgarlínan, háhýsi, þétting og litlar íbúðir í leigublokkum á vegum leigu- og stéttarfélaga. Almenningssamgöngur og niðurgreidd, skapandi störf í „miðbænum“.

  Plan B er að það er ekkert plan B. Annaðhvort heppnast þetta eða Rvk er gjaldþrota, bæði efnahags- og hugmyndafræðilega, eftir ca. 10 ár.

  • 200 milljarðar er vanmat. Það er óhætt sð fimmfalda upphæðina.

 • Hilmar Þór

  Nokkri aðilar hafa spurt hvenær ég hafi fyrst heyrt þessa flökkusögu um að öll álit hafi komist að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja við Hringbraut og hvenær síðast og hverjir hafi haldið þessu fram.

  Ég vil svara því til að ég man ekki hvnær ég heyrði þetta fyrst en það er líklega um 2009.

  Hverjir hafa haldið þessu fram’, er spurt.

  Það eru svo margir að ég treysti mér ekki til að nefna þá því eflaust mundi ég gleyma einhverjum en síðast heyrði ég þetta á opnum fundi í Norrænahúsinu þann 19. október 2017 þar sem einn af æðstu stjórnendum spítalans hélt þessu fram og sýndi við það tækifæri skyggnur sem ég hef nú bætt inn í færsluna.

  Sjá að ofan.

 • Sæll Hilmar.

  Hefurðu rýnt skýrsluna á vegum Alþingis frá 2008 sem sagt er að komist að þeirri niðurstöðu að Hringbraut sé best?

  kv.Bjarni

  • Hilmar Þór

   Já, Bjarni, ég hef lesið og rýnt allar þær skýrslur sem ég hef komist yfir.

   Skýrslan sem þú ert líklega að vitna til er í raun ekki staðarvalsskýrsla heldur yfirferð á þeirri vinnu sem áður hafði farið fram.

   Hún er ekki staðarvalsskýrsla sem unnin er frá grunni.

   Hún er sýnist mér yfirferð skýrslunnar sem frá 2002 um framtíðaruppbyggingu spítalans við Hringbraut. Þarna er einkum verið að spegla staðarvalið í AR2001-2024.

   Skýrsluhöfundar árétta samgöngurnar og leggja áherslu á Hlíðarfót og göng undir Öskjuhlíð alla leið suðurfyrir eða austurfyrir Kópavog verði komin áður en nýr spítali verður tekinn í gagnið.

   Það er eins gott að byrja gangagerðina strax í dag ef þetta á að ganga eftir.

   Þessar forsendur breyttust allar með tilkomu AR2010-2030 og því eins og margoft hefur komið fram gerði staðarvalið úrelt.

  • Hilmar Þór

   Skýrslan heitir:

   „Skýrsla nefndar um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnnana“ frá því í febrúar 2008, oft kölluð Ingu Jónus kýrslan.

 • Lekamál Hönnu Birnu svo maður tali nú ekki um uppreisn ærumál föður BB eru smámál hjá þessu. Hvenær vaknar RUV, Bylgjan og rannsóknarblaðamenn prentmiðlanna?

  • RUV er strax barið niður af ráðandi stjórnmálaöflum ef þau dirfast að draga staðarval spítalans við Hringbraut í efa. Sigmundur Davíð má eiga þakkir þjóðarinnar skildar fyrir að þora að berjast fyrir því að þjóðarspítalanum okkar verði valinn staður austar á höfuðborgarsvæðinu. Við hin verðum bara að vona að sannleikurinn og þekkingin sigri.

 • Einhverjir embættismenn sem þetta hafa lesið fara með slæma samvisku inn í jólin. En þeim verður vonandi fyrirgefið á efsta degi.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sjö? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur