Miðvikudagur 09.05.2018 - 13:09 - 9 ummæli

Flugvöllurinn – Borgarlínan – Miklabraut í stokk.

Flugvöllurinn – Borgarlínan – Miklabraut í stokk.

Mér sýnist lítið unnin stór mál vera áberandi í skipulagsumræðunni í aðdraganda kosninga. Þetta eru mál sem varða alla, en eru vanreifuð og ekki nægjanlega undirbúin til þess að leggja þau í mat kjósenda. Það er að nógu öðru að taka sem stendur okkur nær og eru skýr, fyrirliggjandi og aðkallandi.

Maður veltir fyrir sér hvort þessi stóru mál séu sett á dagskrá vegna þess að stjórnmálamenn treysta sér ekki í umræðu um aðkallandi minni mál sem þarf að taka á á næsta kjörtímabili eins og leik- og grunnskólamál, fjármál, skipulagsmál, húsnæðismál og jafnvel samgöngumál sem banka stöðugt upp á óháð Borgarlínunni.

Ég nefni Flugvöllinn, Borgarlínuna og Miklubraut í stokk sem eru mál sem ekki verða leyst á næsta kjörtímabili.

 

Flugvöllurinn.

Fólk er sammála því að flugvöllurinn er umhverfislega og skipulagslega óþægilegur þar sem hann er í Vatnsmýrinni og flestir vilja að hann fari hygg ég.

En vandinn er sá að hann er nauðsynlegur og ef hann verður lagður af þarf samkvæmt sérfræðingum að ráðast í að leggja nýjan flugvöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þar eru men að tala um fjárfestingu upp á eina 140-200  milljarða. (Samkv. Áfangaskýrslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar frá því 2017). Þessir fjármunir mundu duga fyrir Borgarlínunni  og Nýjum Landspítala, Sundabraut, Milkubraut í stokk, leysa húsnæðismál flestra þeirra sem eru í húsnæðishraki og sjálfsagt margt fleira.  

Spurningi er, hvaðan þessir peningar eiga að koma? Líklegast og eðlilegast er að þeir komi að einhverjum hluta og sennilega mestum frá þeim sem vilja byggja í Vatnsmýrinni. Þá mun kostnaður við lögn nýs flugvallar leggjast að hluta ofan á byggingakostnað í Vatnsmýrinni sem menn álíta að verði mikill vegna jarðvegsins í mýrinni. Þetta mun hafa áhrif til mikillar hækkunnar fasteigna á öllu svæðinu.

Að mínu mati getur flugvöllurinn í Vatnsmýrinni varla verið kosningamál fyrr en búið er að svara spurningunni um hvert eigi að flytja hann og hvaðan peningarnir til að byggja nýjan flugvöll eiga að koma.

Myndin að ofan er af verðlaunatillögu vegna byggðar í Vatnsmýri.

 

Borgarlínan.

Ég held að flestir sem kynnt hafa sér almannaflutninga sjái að hugmyndin um Borgarlínu er skynsamleg og hefði þurft að koma fram miklu fyrr.

Eftir því sem ég best veit kom hún fyrst formlega fram fyrir fjórum árum í AR2010-2030 þegar Reykjavík var breytt úr bílaborg í borg fyrir fólk. Í skipulaginu var lögð fram hugmynd um Borgarlínu sem ganga átti frá Vesturbugt austur að Ártúnshöfða. Það er svona 6-7 km leið sem væri líklega á færi borgarsjóðs að standa undir.

Borgarlínan í því umfangi sem kynnt hefur verið er vanreifuð og ekki tilbúin til þess að láta kjósa um. Þetta á alls ekki að vera kosningamál. Þessi hugmynd er þess eðlis að hana þarf að vinna af víðsýni og horfa til langrar framtíðar. Byrja á að taka frá svæði fyrir línuna og koma henni svo upp þegar þörf er fyrir hana og rektrargrundvöllur er tryggður.

Borgarlínan er í undirbúningi og á góðri siglingu en er á engan hátt tilbúinm til þess að gera hana að kosningamáli.

Ég nefni bara kostnaðinn og rekstrargrundvöllinn sem mér sýnist vera lítið unnið. Talað er um að kílómetirinn muni kosta rúmlega milljarð sem er ótrúlega lág upphæð ef miðað er við svipaðar framkvæmdir erlendis. Borgarskipulaginu þarf líka að breyta til þess að jafna farþegagrunnin í báðar eða allar áttir og treysta þannig farþegagrunninn.

Það er vissulega margs að gæta áður en Borgarlínan verður lögð í mat kjósenda í því umfangi sem nú er verið að kynna. Eins og staðan er nú er varla hægt að hafna henni eða styðja þó sjálfsagt sé að skoða málið og gera ráð fyrir henni þegar fram í sækir, styðja hana en útiloka ekki.

Myndin að ofan er af sérlega fallegri borgarlínu i Grenoble i Frakklandi.

Miklabraut í stokk.

Miklabraut í stokk er dæmigert upphlaup í hita baráttunnar í aðdraganda kosninga. Stokkurinn var tekinn út af aðalskipulagsuppdrættinum fyrir 4 árum þegar borginni var breytt úr bílaborg í borg fyrir fólk.  Nú er stokkurinn orðinn eitt helsta baráttumál í borgarstjórnarkosningunum. Málið virðist fullkomlega vanreifað og á engan hátt tilbúið til þess að kjósendur geti tekið upplýsta ákvörðun um málið.

Spurningar á borð við hvert eigi að beina umferðini í þau 6-8 ár sem á framkvæmdum stendur. Samkvæmt upplýsingum sem komu fram í morgunútvarpi RUV fyrir skömmu er áætlað að göngin verði 1.700 metrar að lengd og 20 metrar á breidd og það þurfi að grafa um 10 metra niður í jörðina vegna framkvæmdanna. Ef þetta er svona þarf líklega að fjarlægja 510.000 rúmmetra frá svæðinu og 170.000 rúmmetra til baka. Þetta eru nokkur tugir þúsund bílfarmar af stærstu gerð. 

Gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar verða í uppnámi í áraraðir. Gatnamót Snorrabrautar, Hringbrautar, Bústaðavegar og Miklubrautar verða í uppnámi ef marka má fyruirhugaðar áætlanir. Svo er það aðgengi að Landspítalanum sem verður “lífshættulegt” svo maður noti þekkt tungutak í þeirri umræðu.

Líklegt er að nauðsynlegt verði að setja Öskjuhlíðargöng og Holtsgöng aftur inn  aðalskipulagið og grafa þau áður en ráðist verður í þessa framkvæmd og gera borgina þannig aftur að bílaborg.

Í fryriliggjandi á ætlunum er gert ráð fyrir 66.000 fermetrum af verslun og þjónustu á jarðhæð borgargötunnar sem þarna á að vera. Er þörf fyrir svona mikið af þessari gerð húsnæðis til viðbótar því sem er í undirbúningi annarsstaðar? Ég nefni við Hafnartorg, Suðurlansbraut í Laugardal, Skeifu, Kringlu og víðar. Ég held ekki. Svo ber að hafa í huga að þörf fyrir svona húsnæði á hvern íbúa mun líklega fara hratt minnkandi á komandi árum. Fólk er þegar farið að kaupa í matinn í netverslunim svo maður nefni ekki ýmislegt annað.

Miklabraut er þriðja dæmið sem tekið er um framkvæmdir og áætlanir sem eru enn á því stigi að það er ekki hægt að ætlast til þess að kjósendur geti myndað sér skoðun á málinu og tekið afstöðu.

Myndin að ofan er af nýrri tillögu umMiklubraut í stokk.

+++

Af nógu öðru er að taka.

Það er af nægum öðrum aðkallandi álitamálum að taka og gera að kosningamáli. Ég nefni málefni leik- og grunnskóla, fjármál, skipulagsmál, húsnæðismál og jafnvel samgöngumál að hluta. Mál sem má og þarf að leysa á næsta kjörtímabili.

Svo eru það auðvitað öll gömlu kosningaloforðin frá síðustu kosningum sem af ýmsum ástæðum ekki tókst að efna á síðasta kjörtímabili.

Leyfum sérfræðingum að vinna sína vinnu við stóru málin og kjósendum að fylgjast með framvindunni þar til lendingu er náð. Ekki leggja réttinn hálf eldaðan eða hráan á borð kjósenda. Ekkert af þeim stórmálum sem að ofan eru nefnd er komið á það stig að t.a.m. ég geti tekið upplýsta ákvörðun um þau á grunvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (9)

 • Flugvöllurin, Borgarlínan og Miklabraut í stokk eru þrjár smjörklípur sem eru notaðar til þess að beina umræðunni frá aðalmálunum sem við vitum hver eru.

 • Þorarinn Kristjánsson

  Ég held að það sé nú gott að vita hvort framboðin ætli að stöðva þá undirbúningsvinnu sem er í gangi varðandi borgarlínuna eða halda henni áfram. Meira þurfum við ekki að vita. Það getur vissulega engin verið fylgjandi henni skilyrðislaust á þeim uppplýsingagrunni sem fyrir liggur og enginn getur eiginlega verið andvígur henni eins og framtíðarhorfurnar eru í samgöngumálum.

 • Arnór Valdimarsson

  Góð og skynsamleg grein. Vel mælt! En að sama skapi rothögg á Dag B og helstu kosningaloforð hans. Þau eru virkilega vanreyfuð, andvana fædd.

 • Það er margt rétt í þessu bloggi.

  Það er allt of mikil áhersla á þessi stóru mál.

  Flugvöllurinn er til dæmis ekki eingöngu á forræði borgarinnar. Borgarlínan er svo stutt komin að það er ekki hægt að bjóða upp á kosningar um hana enn sem komið er og Miklabraut í stokk virðist skýjaborg og stenst ekki nema breyta borginni aftur í bílaborg eins og réttilega er nefnt.

  Einbeitum okkur að húsnæðismálum, skólamálum og fjármálum.

  Fáum raunhæfar hugmyndir um þessi mál

 • Jónas Elíasson

  Góð grein. Vantar þó að Borgarlína á ekki erindi meðan strætónotkun er svo lítill sem aun ber vitni. Að notkun aukist þegar komnir eru stærri vagnar og tíðari ferðir er sjálfsblekking. Eina sem gerist er vaxandi mengun á farþega.

  Þá gerir Miklubrautarstokkurinn ekkert gagn fyrir samgöngurnar. Hann er á röngum stað. Til að auka umferðarýmd á Miklubraut þarf að gera hana ljóslausa. Það er ekkert ódýrt, en tiltölulega einfalt.

  Betur væri ef kosningamálin væru meira raunhæf. Þessi þrjú mál sem nefnd eru í greininni eru væntanlega reykslör til að skýla lélegu ástandi fjármála í Reykjavík.

 • Hvaðan koma 200 til 300 milljarðar fyrir flugvöll. Í opinberum skýrslum eru upphæðir amk tífalt lægri, eða um 20 – 25 fyrir flugvöll í Hvassahrauni eða á Hólmsheiði….

  https://www.stjornarradid.is/media/innanrikisraduneyti-media/media/frettir-2015/flugvallarkostir.pdf

  • Hilmar Þór

   Þakka þér kærlega fyrir þessa athugasemd Halldór. Það er skelfilegt þegar settar eru fram tölur sem ekki eru byggðar á traustum heimildum. Talan sem nefnd er í færslunni var ekki byggð á traustri heimild enda var ég með fyrirvara á henni („…að því að sagt er“). Mér láðist að sannreyna hana. Í Rögnunefndinni sem þú vísar til eru tölurnar allt aðrar og og aðeins lítill hluti þess sem áður er nefnt og svo þarf að endurnýja og breyta miklu í Vatnsmýri sem kemur á móti. Ég hef nú breytt þessu í færslunni. Þakka þér aftur fyrir þessar upplýsingar sem eru mikilvægar. Maður þarf vissulega að gæta sín. Ég bið auðmjúklega afsökunnar á þessari fljótfærni.

 • Haukur Logi

  https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=cc40ae48-0c39-11e8-9426-005056bc530c

  Hérna kemur fram í nýjustu skýrslunni um flugvöllinn frá Stjórnarráðinu, frá því í febrúar 2018, að Icelandair áætli kostnað við fyrsta áfanga flugvallar í Hvassahrauni á bilinu 140-200 milljarða (sjá bls. 6)

  • Hilmar Þór

   Þakka þér þessar upplýsingar Haukur Logi. Þá eru mínar fyrstu uppplýsingar líklega bara réttar. Þessi 200 milljarða áætlun er undirrituð af borgarstjóranum og hana ber að taka alvarlega. Ég held ég breyti færslunni aftur í fyrra horf.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sex? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur