Laugardagur 01.08.2020 - 17:03 - Rita ummæli

Minnkandi fylgi við Borgarlínuna.

 

Í vikunni birti Fréttablaðið könnun um fylgi fólks við Borgarlínuna eins og hún hefur verið kynnt. Niðurstöður könnunarrinnar voru mikil vonbrygði fyrir okkur sem höfum stutt Borgarlínuna. Við héldum og vonuðum að fylgi við Borgarlínuna færi vaxandi í kjölfar mikillar kynningar og umfjöllunar undanfarna mánuði. Skemmst er frá því að segja að frá síðustu könnun fyrir 10 mánuðum síðan hefur þeim sem eru mjög eða frekar andvígir borgarlínunni fjölgað um 20%. Þeim sem eru henni fylgjandi hefur fækkað um 6-7% ef marka má grafið í blaðinu.

Við meigum ekki taka könnunina í Fréttablaðinu af einhverri léttúð eins og borgarsjórinn gerði í blaðinu og sjá má á hjálagðri mynd. Hann segist „… mjög ánægður með þennan sterka stuðning“ við Borgarlínu. Það er ekki gott að segja svona þegar staðreyndin er sú að stuðningurinn fer minnkandi. Nær væri að hann kallaði til neyðarfundar, bregðast við og hugsanlega endurskoða áætlanirnar. Það er dauðans alvara ef stuðningur við Borgarlínuna fer minnkandi eftir alla þá kynningu og umræður sem átt hafa sér stað síðan í október á síðasta ári. Þetta er borðleggjandi gott mál en það er eitthvað sem verið er að gera vitlaust þegar fylgið minnkar svona við frekari kynningu.

Ég er þess fullviss að nálægt allir landsmenn eru fylgjandi almenningssamgöngum og vilja hafa þær góðar. Ég er líka sannfærður um að nánast allir vilji betri almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og vilja draga úr notkun einkabílsins. Það er líka sjálfsögð krafa að hægt sé að búa hér á svæðinu án þess að þurfa að eiga einkabíl. Þetta eru líklega allir sammála um.

Hversvegna fer þá fylgið við Borgarlínuna minnkandi eftir því sem málið er kynnt betur?

Líklegt er að það sé útfærslan og óvissan. Skrifstofu Borgarlínunnar hefur ekki tekist að sannfæra fólkið um ágæti þeirra hugmynda sem uppi eru.

Ég hef sagt og verð sífellt sannfærðari um að Borgarlínuhugmynd aðalskipulags Reykjavíkur hafi verið snilldarhugmynd. Hún var af þeirri stærðargráðu og því umfangi að hún var óumdeild þegar hún var kynnt í AR2010-2030. Auðvelt hefði verið að framkvæma hana á 4-6 árum. Í framhaldinu og eftir nokkurra ára rekstur væri eftirleikurinn auðveldur og hægt að útvíkka hana verulega. En borgin dró lappirnar og aðhafðist lítið í ein 10 ár. Hún tók ekki við sér fyrr en þetta var orðið svo stórt og óskýrt að fáir skilja þetta  og eru því hikandi.

Þegar hugmyndin um Borgarlínuna, sem kom frá Pétri H. Ármannssyni arkitekt, (í Lesbókargrein árið 2005) rataði í Aðalskipulag Reykjavíkur, fylltist ég mikilli bjartsýni og taldi að nú loks yrði Reykjavík bundin saman í línulega heildstæða, strarfræna og vistvæna borg. Ég hélt að Borgarlínan samkvæmt AR2010-2030 yrði komin í fullan rekstur innan fárra ára. Þetta var óumdeild win-win hugmynd sem kostaði ekki mikið og var auðveld í framkvæmd.

En borgarstjórn dró lappirnar. Samþykkti deiliskipulag við Austurhöfn (Hafnartorg) án þess að gert væri ráð fyrir Borgarlínunni. Samþykkti deiliskipulag á mörgum reitum milli Laugavegar og Hverfisgötu án þess að gera ráð fyrir Borgarlínunni. Endurgerði sjálfa Hverfisgötuna með miklum tilkostnaði án þess að gera ráð fyrir Borgarlínunni. Endurgerði Geirsgötuna án þess að gera ráð fyrir Borgarlínunni. Hélt samkeppni um uppbyggingu í Vogabyggð þar sem meiri hluti tillagna gerði ekki ráð fyrir Borgarlínunni (Sem leiðir hugan að því að líklega var ekki gert ráð fyrir Borgarlínunni í forsögninni). Það er ljóst að borgarstjórn skorti kjark eða trú á verkefnið. Hreppapólitík hljóp í málið og ósjálfbær sveitafélög í grenndinni vildu vera með og hoppuðu á vagninn og ríkissjóður kom að málinu. Þessi litla fína hugmynd blés út og er orðin 10 sinnum stærri og líklega 20 sinnum dýrari en sú snilldarhugmynd sem kynnt var í AR2010-2030.

Það blasir við mér að það á að nota Borgarlínuna til þess að draga úr áhrifum skipulagsmistaka undanfarinna ára. Til dæmis með því að láta hana ganga framhjá Landspítalanum og Háskólanum í Reykjavík og um brú út á Kársnes þar sem verið er að byggja meira en núverandi gatnakerfi ræður við.

Ef Borgarlínan gengi eins og sjá má á myndinni að neðan sem er frá Pétri H. Ármannssyni, væri einungis um einn kílómeter frá Tryggvagötu að aðalbyggingu Háskóla Íslands. Það er 10 mínútna gangur sem tekur enga stund á rafskutlu. Sama má segja um Háskólann í Reykjavík ef Borgarlínan yrði látinn ganga í öðrum áfanga frá Borgartúni um Kringlumýrarbraut til Hafnarffjarðar.  Þá  væru um 1,5 kílómetrar frá Kringlumýrarbraut að aðalbyggingu HR, sem er um 15 mínútna ganga eða innan við fimm mínútur á rafskutlu, sem nemar og starfsmenn hefðu með sér í Borgarlínuna. Þetta er svona heppileg heilsubótarganga.

Það virðist ljóst að það þarf að endurskoða núverandi áætlanir. Vinna þetta betur. Svara áleitnum spurningum og sníða sér stakk eftir vexti ef tryggja á fylgi almennings við áætlanirnar.

+++

Efst er mynd af forsíðu Fréttablaðsins og að neðan frumhugmynd Péturs H. Ármannssonar að Borgarlínunni frá 2005 sem fimm árum síðar rataði í og var aðlöguð aðalskipulagi Reykjavíkur.

Að ofan má sjá hvernig samgöngu- og þróunarás aðalskipulags Reykjavíkur er dreginn upp. Einfaldur og skýr með miklum þéttingatækifærum.

 

 

Að ofan er síða úr AR2010-2030 þar sem samgönguásinn og hinn línulegi miðbær er skilgreindur.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og þremur? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn