Þriðjudagur 18.10.2016 - 13:00 - 7 ummæli

„Fagurgali sem fagurfræði“

Untitled

 

Hér birtist pistill eftir Hjörleif Stefánsson arkitekt hjá Gullinsniði. Hjörleifur hefur verið virkur í umræðunni um arkitektúr og skipulag um áratugaskeið. Hann hefur skrifað nokkrar bækur um efnið og þar á meðal bók um byggingarsöguleg einkenni Reykjavíkur. Bókin heitir „Andi Reykjavíkur“ og kom út árið 2008 og ætti að vera kennsluefni í öllum framhaldsskólum landsins.

Þetta er fyrri pistill af tveim.

++++++

Fagurgali sem fagurfræði

Tilgangslaust er að tala um Reykjavík sem fallega eða ljóta borg.

Heppilegri nálgun er að íhuga hvaða þættir það eru í byggðinni sem snerta tilfinningar okkar á jákvæðan og neikvæðan hátt.[1]

Sá þáttur í borgarumhverfinu sem hefur einna mest áhrif á okkur er söguleg vídd byggðarinnar. Því greinilegri sem ummerki liðinna tíma eru í byggingum, götum og torgum, þeim mun meira aðdráttarafl hefur borgin.

Dýrategundin maður laðast að gamalli byggð.

Hrörnun og forgengileiki eru líka hluti af þessu afli sem dregur manninn til sín.

Lengst af hafa arkitektar og skipulagsfræðingar nálgast viðfangsefni sín á grundvelli hugmynda sem studdar eru fagurfræðilegum vangaveltum án þess að skeyta mikið um söguleg gildi. Skipulagsfræðingurinn vill að borgin mótist eftir einni fagurfræðilegri hugmynd, einu gildismati. Þetta gerðist árið 1927 þegar stefnt var að því að borgin yrði endurbyggð og aftur 1963 þegar nýtt Aðalskipulag  stefndi að endursköpun borgarinnar á grundvelli tæknihyggju og umferðarskipulags.  Fagurfræði af þeim toga sem hér um ræðir virðist vera gagnslaus og í versta falli hættulegur fagurgali. Hún einblínir á mjög takmarkaðan þátt í umhverfissköpuninni.

Ekki var nóg með að fagurfræði módernismans liti fram hjá sögulegu gildi borgarumhverfis  heldur lýsti hún beinlínis stríði á hendur fyrri stíltegundum.

Æ síðan hefur arkitektastéttin haldið á lofti þeirri kennisetningu að nýjar byggingar eigi ekki að bera keim af eldri húsum. Mikilvægast sé að fylgja tíðarandanum sem reyndar er mótaður af stjörnuarkitektum heimsins hverju sinni og hinir minni spámenn fylgja hver eftir sinni getu. Frumleiki í sköpun bygginga var settur á stall. Mikilsvert þótti að hver bygging væri einstök og vekti athygli – lítið eða ekkert var skeytt um að hún félli að umhverfi sínu og styrkti einkenni þess.

Ný bygging var sögð falleg þótt hún ylli skaða á eldri byggð sem er þrungin merkingu og aðdráttarafli.

Við ættum að fara varlega með fegurðarhugtakið. Átta okkur á því að fegurð í merkingunni fullkomleiki út frá gildismati augnabliksins er ekki eftirsóknarverð.  Sögulegt umhverfi með mannlegum byggingum og smágerðum fyllir okkur miklu meiri vellíðan, ánægju og gleði en nýbyggt hverfi með einsleitum byggingum með alþjóðlegum blæ þótt þær fylgi tíðarandanum út í æsar.

Óhætt er að segja að Reykjavík sé sá staður sem mestu máli skiptir fyrir flesta íslendinga.

Þar er að finna vitnisburð um fyrstu byggð í landinu, lítið verslunarpláss á 18. öldinni, stjórnsýslusetur á 19. öldinni, útgerðabæ og höfuðborg á 20. öldinni og ferðamannastað á 21. öldinni.

Miðbærinn sem heild er sameign þjóðarinnar, mikilvægasti og dýrmætasti staður landsins. Hann hefur táknrænt og tilfinningalegt gildi fyrir hvert og eitt okkar.

Á löngu tímaskeiði þegar kennisetningar arkitekta og skipulagsfræðinga um alþjóðlega byggingarlist voru allsráðandi og almenningur og borgaryfirvöld uggðu ekki að mikilvægi þess að gæta að sögulegum gildum byggðarinnar, breyttist yfirbragð miðbæjarins mikið og söguleg ummerki  ýmist hurfu eða slævðust meira en góðu hófi gegnir.

Smám saman hefur þetta breyst og núorðið er almenningur og borgaryfirvöld meðvituð um mikilvægi sögulegrar byggðar, að umhverfið eigi að vera margbreytileg , að forðast eigi að láta tískusveiflur samtímans ná tökum á miðborginni. En samt sem áður er stöðugt gengið á söguleg gildi miðbæjarins.

Hér komum við að merkilegu íhugunarefni: Ef það er satt sem hér hefur verið fullyrt að það sé í mannlegu eðli að söguleg vídd umhverfis skapi vellíðan og hamingju þá skipti sköpum að skilja hvaða öfl eru að verki sem leitast við að eyðileggja slík umhverfisgæði.

Skoðum nokkur dæmi frá ýmsum tímum:

Skuggahverfið í Reykjavík byggðist að mestu leyti undir lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20 af sjómönnum og verkamönnum. Til að byrja með tómthús úr torfi og grjóti, seinna lítil timburhús og steinbæir úr tilhöggnu grjóti. Í byrjun 20. aldar hófst þarna atvinnuuppbygging, trésmiðjan Völundur, Kveldúlfsskálarnir, Sláturfélag Suðurlands o.fl.

Þegar halla tók á seinni hluta aldarinnar höfðu fyrirtækin ekki lengur þörf fyrir þetta  húsnæði og gamla Skuggahverfisbyggðin þótti ekki búa yfir neinu sem vert væri að varðveita.

Athafnamenn sáu að þarna væri hægt að reisa íbúðir fyrir þá sem kynnu að meta nálægðina við miðbæinn og að auki fengju íbúðirnar útsýni yfir sundin.

Borgarstjórn féllst á þetta og heimilaði niðurrif merkilegra atvinnuhúsa. Í staðinn risu háhýsi sem skyggðu á gömlu Skuggahverfishúsin og eyðulögðu það eðlilega jafnvægi milli byggðar og landslags sem fyrir var.

Enda þótt mat manna á gömlu Skuggahverfisbyggðinni hafi breyst síðan og nú sé talið brýnt að varðveita sem mest af henni, þá er enn verið að byggja háhýsi við Skúlagötu sem eyðileggja fyrir gömlu byggðinni fyrir ofan. Þessi nýju hús kunna að vera vel hönnuð og jafnvel falleg í þeim þrönga skilningi sem ég hafnaði í upphafi máls míns. En þau vekja manni slæmar tilfinningar. Þau eru alþjóðleg í útliti og víða um heim rífa menn nú hús af þessum toga þar sem þau skemma gamla og viðkvæma byggð.

Það afl sem hér er að verki heitir ágirnd.

Nýlegra dæmi má taka af Landsímahúsinu við Austurvöll. Þegar hér er komið sögu blandast varla nokkrum manni lengur hugur um að miðbæjarbyggðin sé mikilvægasti hluti borgarinnar. Eigendur Landsímahússins eru vafalítið sama sinnis. En þeir telja vænlegast að breyta húsinu í hótel og vilja hækka húsið og byggja við það með þeim hætti að það rýrir gildi miðbæjarins og borgarstjórn sem á að gæta hagsmuna heildarinnar fellst á áform þeirra.

Til þess að fá fleiri gesti en ella rýra þeir sögulegt gildi miðbæjarins sem dregur að gestina.

Aftur er það ágirnd sem knýr áfram eyðilegginguna.

Enn eitt dæmið og það nýlegasta er að eiga sér stað á þessum misserum. Nú er svo komið að borgaryfirvöld reka skipulagsstefnu í miðbænum sem í aðalatriðum snýst um að varðveita, bæta við og fylla í skörð. Það er þó engin tilviljun að þetta gerist einmitt þegar flestar fjárfestingar í fasteignum í miðbænum eiga rætur sínar í ferðamannaþjónustu en gamli bærinn laðar að ferðamennina. Hagsmunir fjárfestanna kallar á nýja skipulagsstefnu.

Miklu máli skiptir núorðið að lóðir séu ekki sameinaðar, heldur skuli varðveita smágert byggðamynstur sem birtist í lóðafjölda og smæð þeirra. Lóðafjöldi endurspeglar eigendafjölda og fjölbreytileika.

En þetta hentar ekki alls kostar þeim sem reka hótelin. Stórt hótel með fjölda herbergja er hagstæðari rekstrareining en lítil. Fjölbreytileiki miðbæjarins dregur að hótelgestina en smæð rekstrareininga í samræmi við húsastærðirnar skilar ekki hámarks hagnaði.

Þess vegna knýja þeir fram heimild til þess að hótelin þeirra teygi sig yfir nokkrar lóðir. Húsin endurspegla gamlan fjölbreytileika frá þeim tíma þegar hver lóð var sérstök eining en eitt og sama hótelið teygir sig um mörg samliggjandi hús.

Hvað varðar útlit húsanna viðhelst fjölbreytileikinn að miklu leyti en þegar kemur að innihaldinu ríkir fábreytnin.

Borgarstjórn hefði getað séð til þess að smæðin og fjölbreytnin í starfsemi húsanna hefði haldist í hendur við margbreytilegt útlit þeirra. Miðbærinn hefði verið enn áhugaverðari fyrir vikið.

Enn einu sinni er það ágirnd sem er hvatinn.

Þegar baráttan stendur milli fegurðar hins smáa og hagkvæmni hins stóra þá heggur sá er hlífa skyldi.

Þeirri skelfilegu áráttu að vilja eyða því sem manni þykir vænst um hefur Oscar Wild lýst vel í ljóðinu The Ballad of Reading Goal þar sem segir í snilldarþýðingu Magnúsar Ásgeirssonar:

 

Því allir myrða yndi sitt,

þess engin dyljist sál:

Vopn eins er napurt augnaráð

og annars blíðumál;

til verksins heigull velur koss,

en vaskur maður stál!

+++++++

[1] Sjá Andi Reykjavíkur. Hjörleifur Stefánsson, Forlagið 2008.

[2] Sjá: Kjarninn 20. júlí 2015. Athugasemdir við ummæli formanns skipulagsráðs í  blaðaviðtali 18. júlí 2015. Hjörleifur Stefánsson

+++++++

Efst í færslunni er mynd af miðbæjarskipulagi frá árinu 1943 gert á teiknistofu Húsameistara Reykjavíkur sem var stjórnað af Einari Sveinssyni arkitekt.

Margar tillögur um umbreytingu miðborgarinnar þóttu framsýnar og góðar á sínum tíma en þær hafa ekki elst vel. Á myndinn sést að hugmyndin var að rífa öll húsin í miðborginni.  Það standa aðeins örfá hús eftir, Alþingishúsið og Dómkirkjan og sennilega Natan & Olsen og Hótel Bor ásamt fl.. Þá er gert ráð fyrir breiðgötu í gegnum Grjótaþorpið frá Túngötu að Tryggvagötu og jafnvel niður að höfn. Þessi hugmyn var aftur tekin upp á aðalskipulaginu 1962-84.

 

 

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (7)

  • Örnólfur Hall

    – Í þessu STÓR-karlalega Hafnarsvæðiskipulagi (Hörputorg (reitir 1,2) + Austurbakki 2) er ekkert sem minnir á sögu eða skírskotar til gömlu Víkur (sjá þá m.a.mynd Reykjavíkur 1789 eftir Sæmund Hólm) :
    – Lækurinn og gatan frá Tjörninni, fjaran (vörin) með fiskibátunum :(Svo ekki sé talað um sporðskorna Arnarhólinn sem var hluti af Víkur- myndinni ! 🙁
    Nei,- moll, – og bissinessbákn og auðjöfrahótel eru í tízku núna og skulu fylla uppí og loka sem mest á áðurnefnt ! 🙁

  • Örnólfur Hall

    Víti til varnaðar: Danir naga sig nú í handarbökin vegna yfirfylltra hafnarsvæða af byggingum án sögulegrar skírskotunar: – Úr grein í Politiken í vor: ´Havnebyggerier bærer præg af nyopført historieløshed og hurtige kvadratmeter´.

    Ps. Því miður fylgja dapurleg myndadæmi ekki með hér. 🙁

  • S. Ólafsdóttir

    Hér er góð grein sem styður málflutning Hjöreifs: http://www.visir.is/kvosin-sem-vid-elskum-heitt/article/2016160219991

  • Kristján Arngrímsson

    Það er hægt að vera sammála því að „sögulegt umhverfi“ fylli mann vellíðan vegna þess að sagan er það sem mótar vitund manns og sjálfsmynd. Manni líður best í umhverfi sem er í samræmi við mann sjálfan.

    En ef þetta er rétt og ef það er líka rétt sem Hjörleifur segir að frá tilkomu módernismans hafi „arkitektastéttin haldið á lofti þeirri kennisetningu að nýjar byggingar eigi ekki að bera keim af eldri húsum“ þá má álykta að arkitektastéttin hafi beinlínis unnið gegn því að fólki líði vel í umhverfi sínu.

    Þetta er bratt. En ef þetta er nú svona, þá eru arkitektar eiginlega sístir manna til þess fallnir að búa til umhverfi fyrir fólk sem vill líða vel.

    Getur það verið?

    • Umhugsunarverð hugleiðing. En hvað um það, þetta er mjög góður og yfirvegaður pistill hjá arkitektinum.

  • Hilmar Þór

    Þetta er hörkugrein þar sem mörg gullkorn er að finna.

    Ég bendi á tvö:

    1.
    „Skipulagsfræðingurinn vill að borgin mótist eftir einni fagurfræðilegri hugmynd, einu gildismati. Þetta gerðist árið 1927 þegar stefnt var að því að borgin yrði endurbyggð og aftur 1963….“ Þessi árátta skipulagfræðingsins kemur einnig fram í hugmynd Einars Sveinssonar frá 1943 sem sýnd er á myndinni sem fylgir pistlinum.

    2.
    „Æ síðan hefur arkitektastéttin haldið á lofti þeirri kennisetningu að nýjar byggingar eigi ekki að bera keim af eldri húsum. Mikilvægast sé að fylgja tíðarandanum sem reyndar er mótaður af stjörnuarkitektum heimsins hverju sinni…..“ Þetta sjónarmið er eitthvað það þreyttasta sem verður á vegi manns. Það á kannski við í úthverfum (La Defence í París, Örestaden í Kaupmannahöfn og Docklands í London og víðar) en ekki í gömlu miðborgunum. ‘Eg hef rætt þetta við marga kollega mína sem eru á þessari skoðun þ.e.a.s. að nútíminn skipti meira máli en foprtíðin. Þetta kemur skýrt fram t.a.m. í Austurhöfninni og Hafnartorgi í Reykjavík. Því miður viðist þetta sjónarmið höfða frekar til yngri arkitekta en þeirra eldri.

    • Guðmundur Jónsson

      Ein spurning: Eiga skipulagsfræðingar nokkuð að teikna hús?

      Mér hefur alltaf verið sagt að borgir vaxi frá rótinni eins og tré! Í framhaldi þá er það ljóst að ef allt í einu skýst út úr fallegu birki reynigrein eða furugrein. Endar birkið þá ekki með að að verða ljótt birki?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og átta? Svar:

Höfundur

Hilmar Þór Björnsson arkitekt
Tilgangur síðunnar er að kynna arkitektúr, skipulag og staðarprýði ásamt því að stuðla að umræðu um efnið. Það sem fram kemur ber ekki að skilja sem skoðun höfundar heldur hugleiðingu sem sett er fram í þeim tilgangi að vekja lesendur til umhugsunar og skoðanaskipta. Tekið er á móti aðsendum greinum þegar það á við, sem þá eru á ábyrgð höfundar aðsends efnis.
Athugasemdir við færslur eru velkomnar. Þeir sem vilja koma skilaboðum til ábyrgðarmanns beint er bent á netfangið hilmarstofunni@gmail.com
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn